Fréttablaðið - 16.02.2013, Qupperneq 105
LAUGARDAGUR 16. febrúar 2013 | SPORT | 73
Það er ekki óþekkt
að veltivigtarkappar séu
allt að 90 kg þegar þeir
stíga í hringinn.
Haraldur Dean Nelson, faðir og
umboðsmaður Gunnars.
HANDBOLTI Í gær var dregið í
undanúrslit Símabikarkeppni
karla og kvenna en nýr háttur
verður hafður á keppninni í ár.
Nú verða undanúrslita- og úrslita-
leikirnir spilaðir sömu helgina en
slíkt fyrirkomulag er vel þekkt
í bæði þýsku bikarkeppninni og
Meistaradeild Evrópu, sem og
víðar.
Tvö efstu lið N1-deildar
kvenna, Valur og Fram, sluppu
hvort við annað þegar dregið var
í undanúrslit í kvennaflokki. ÍBV,
sem er í þriðja sæti, mætir Val en
þessi lið mættust í úrslitaleiknum
í fyrra. Þá hafði Valur betur. Í
hinni undanúrslitaviðureigninni
mun Grótta spila við Fram.
Tvö 1. deildarlið, Stjarnan og
Selfoss, komust í undanúrslit í
karlaflokki en drógust þó ekki
saman. Stjörnumenn munu mæta
Akureyringum og Selfyssingar
leika við ÍR-inga. ÍR sló út bikar-
meistara Hauka í fjórðungsúrslit-
unum nú í vikunni.
Undanúrslitin í karlaflokki fara
fram föstudagskvöldið 8. mars en
undanúrslitin í kvennaflokki degi
síðar. Báðir úrslitaleikir fara svo
fram á sunnudeginum 10. mars.
- esá
Dagskráin klár
fyrir bikarinn
Á LEIÐ Í HÖLLINA Ingimundur
Ingimundarson, leikmaður ÍR.
FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
BARDAGAÍÞRÓTTIR Gunnar Nelson
mætir í kvöld Brasilíumanninum
Jorge Santiago á UFC-bardaga-
kvöldi sem haldið verður með
pompi og prakt í Wembley Arena
í Lundúnum. Bardaginn er einn af
aðalbardögum kvöldsins og hefur
hans verið beðið með mikilli eftir-
væntingu.
Kapparnir voru vigtaðir í gær
og voru báðir í leyfilegri þyngd.
Gunnar vó 169 pund (76,7 kg) og
Santiago 170 pund (77,1 kg) sem
er hámarksþyngd í veltivigt. Fyrir
fram var talið að Santiago myndi
eiga erfitt með að ná keppnis-
þyngdinni en hann hefur einnig
keppt í næsta þyngdarflokki fyrir
ofan.
„Santiago hefur verið vel undir-
búinn þar sem hann var hvort eð
er að undirbúa sig fyrir bardaga
í veltivigt,“ sagði Haraldur Dean
Nelson, faðir Gunnars og umboðs-
maður, við Fréttablaðið í gær. San-
tiago var fenginn til að berjast við
Gunnar með skömmum fyrirvara
þar sem upphaflegur andstæðing-
ur hans dró sig úr keppni vegna
meiðsla.
„En hann verður mun þyngri
en Gunnar þegar þeir labba inn í
hringinn,“ segir Haraldur. „Þessir
kappar geta bætt á sig gríðarlegri
þyngd á einum sólarhring.“
Gunnar léttir sig lítið
Gunnar léttir sig yfirleitt um 3-4
kg fyrir vigtun, sem þykir lítið í
þessum heimi. „Gunnar er yfirleitt
að berjast í kringum 79-80 kg en
það er ekki óþekkt að veltivigtar-
kappar séu allt að 90 kg þegar
þeir stíga í hringinn. En því miður
verða þeir ekki vigtaðir í kvöld og
því ekki hægt að segja með vissu
hver munurinn verður á þeim,“
segir Haraldur.
Gunnar vakti gríðarlega athygli
í frumraun sinni í UFC en þá vann
hann sannfærandi sigur á Da-
Marques Johnson. Nú þegar er
hann vel þekktur í þessum heimi
en Chael Sonnen, sem er þekktur
UFC-bardagakappi, sagði í sjón-
varpsútsendingu frá vigtuninni í
gær að frumraun Gunnars væri
ein sú allra glæsilegasta sem hann
hefði séð nokkru sinni.
„Gunnar á talsvert af aðdáend-
um hér úti og fær fullt af jákvæð-
um straumum. Það eru margir
sérstaklega hrifnir af honum sem
bardagamanni og hans bardaga-
stíl. Það er ekki síður horft til
þess en úrslita bardaganna og
keppnisstíll Gunnar þykir einn og
sér mjög áhugaverður,“ segir Har-
aldur.
Gunnar með eindæmum rólegur
Alls fara tólf bardagar fram í
kvöld, þar af sex sem eru á aðal-
dagskránni. Við vigtunina í gær
voru flestir kapparnir ófeimnir við
að vekja á sér athygli með ýmsum
tilburðum en Gunnar var með ein-
dæmum rólegur og yfirvegaður.
„Það er misjafnt hvernig menn
eru í þessu en Gunnar er vissu-
lega mjög rólegur. Það hefur vakið
athygli bæði heima og hér úti. En
þannig er hann bara að eðlisfari,
bæði í kringum bardaga og dags-
daglega.“
Og pabbinn er ekki í nokkrum
vafa um hvernig bardaginn í kvöld
muni fara. „Gunnar mun vinna
þennan bardaga. Ég hef gríðarlega
trú á honum,“ segir hann án þess
að hika. eirikur@frettabladid.is
Santiago mun þyngri í kvöld
Gunnar Nelson keppir í sínum öðrum UFC-bardaga í kvöld þegar hann tekst á við Jorge „The Sandman“
Santiago í Lundúnum. Gunnar þykir fyrir fram sigurstranglegri en Santiago býr þó yfi r mikilli reynslu.
VÍGALEGIR Gunnar Nelson
og Jorge Santiago við vigtun-
ina í Lundúnum í gær.
NORDICPHOTOS/GETTY