Fréttablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 10
Gunnar Bragi Sveinsson settist í stól utan-
ríkisráðherra í síðasta mánuði. Fyrir
honum liggja margvísleg viðfangsefni,
enda er málaflokkurinn yfirgripsmikill.
Meðal annars eru mál tengd NATO-aðild
Íslands, EES og norðurslóðum, sem verða
að öllu óbreyttu einn af burðarásum utan-
ríkisstefnunnar næstu ár. Það sem hefur
þó borið hæst fyrstu vikur hans í embætti
eru Evrópusambandsmálin. Eins og kunn-
ugt er, gerði ríkisstjórnin hlé á aðildarvið-
ræðum Íslands við ESB og tilkynnti Gunn-
ar Stefan Füle stækkunarstjóra, formlega
um þessa ákvörðun fyrir réttri viku.
„Viðtökurnar voru eins og við var að
búast,“ segir Gunnar aðspurður. „Þetta kom
þeim eðlilega ekki á óvart. Füle sagði sjálf-
ur að þetta væru persónuleg vonbrigði en
sýndi þessu að öðru leyti skilning. Það var
einmitt það sem við vonuðumst til að heyra,
að ESB myndi sýna því skilning að um væri
að ræða pólitíska ákvörðun sem byggði á
útkomu kosninga.“
Á fundi þínum með Füle var rætt um sam-
skipti ESB og Íslands á næstu árum. Var
eitthvað minnst á makríldeiluna? „Nei, við
ræddum makrílinn ekki neitt, enda er ekki
rétt að blanda þessu saman. Makrílmálið
snýst um viðræður milli nokkurra ríkja,
en ákvörðunin [um að gera hlé á aðildar-
viðræðum] er fyrst og fremst innanríkis-
mál. Varðandi önnur mál, þá tjáði ég þeim
að ríkisstjórnin hefði engin önnur áform
uppi en að styrkja EES-samninginn ef það
er einhver möguleiki. Svo erum við að sjálf-
sögðu alltaf til í tvíhliða viðræður við ESB
um mál þar sem við getum átt samstarf,
eins og til dæmis endurnýjanlega orku, við-
skipti, menntamál og ýmislegt fleira. Það
er í samræmi við það sem við höfum áður
sagt, að þrátt fyrir allt erum við ekki á leið
út úr Evrópu og viljum eiga gott samstarf
við ESB áfram.“
Óvíst með orðalag og tímasetningu
þjóðaratkvæðagreiðslu
Þú lést hafa eftir þér í viðtali á dögunum,
aðspurður um þjóðaratkvæðagreiðslu um
framhald ESB-viðræðna, að óvíst væri
um hvað væri spurt. Hvernig sérðu þetta
fyrir þér og hvaða tímaramma er rætt um?
„Í fyrsta lagi stendur í stjórnarsáttmál-
anum að ekki verði gengið lengra nema að
undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það þýðir að það verði ekki frekari vinna
af hálfu þessarar ríkisstjórnar fyrr en sú
þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram og þjóðin
gefi þá skilaboð um að haldið verði áfram.
Það er ekki búið að ákveða neina tíma-
setningu og ekki heldur búið að ákveða um
hvað verði spurt; hvort spurningin snúist
um hvort halda eigi viðræðum áfram eða
hvort Ísland eigi að ganga í ESB, og þá með
möguleikunum já eða nei.
Í þessu samhengi er líka vert að spyrja:
Alþingi tók ákvörðun um að hefja þessar
viðræður. Getur Alþingi þá ákveðið að hætta
þeim? Hvers vegna var þjóðin ekki spurð
þegar farið var af stað? Mér finnst að þeir
sem kalla nú eftir þjóðaratkvæðagreiðslu
þurfi að svara því af hverju þjóðin hafi ekki
verið spurð þegar ákveðið var að leggja upp
í þessa vegferð.“
En var ekki alltaf gert ráð fyrir því að
spurt yrði hvort halda ætti viðræðunum
áfram? „Nei. Það eru einhverjir sem hafa
talað þannig en það er hvergi gengið út frá
því í stjórnarsáttmálanum.“
IPA-verkefni metin hvert fyrir sig
Nú standa nokkur atriði enn út af varðandi
aðildarferlið, til dæmis hvað varðar IPA-
styrkina. Til stóð að síðasta úthlutun yrði
í ár. Hvernig verður því háttað í ljósi stöð-
unnar? „Það má skipta þessum verkefnum
sem um ræðir í þrennt. Í fyrsta lagi verk-
efni sem þegar eru byrjuð, svo verkefni
sem eru tilbúin og loks verkefni sem eru
lengra inni í framtíðinni.
Niðurstaðan var að láta embættismenn
fara yfir öll þessi verkefni og komast að
því hver þeirra tengjast aðildarumsókninni
beint og hvort önnur tengist henni alls ekki
og reyna að flokka hlutina út frá því og sú
vinna er komin í gang nú þegar. Það er ljóst
að styrkirnir geta nýst okkur að einhverju
leyti sem EES-ríki en þarna eru líka verk-
efni sem eru beintengd aðildarumsókninni
og hvert verkefni verður metið fyrir sig.“
Verður þá síðasta úthlutun IPA-styrkja
kláruð í einhverjum verkefnum og tekið á
móti fjármunum? „Við munum skoða hvort
grundvöllur sé til að halda einhverjum verk-
efnum áfram eða hvort önnur þurfi augljós-
lega að slá af vegna þess að þau tengjast við-
ræðunum og breytingum þeim tengdum. En
það er ekki tímabært að segja hversu mörg
þau verkefni eru eða hver þau eru.“
Stjórnarskrárbreytingar nauðsyn
Talsvert hefur verið rætt um framtíð EES
að undanförnu, meðal annars hvað varðar
aðkomu Íslands að gerð reglna sem falla
undir samninginn. Hver er ykkar áhersla í
þeim málum? „Við þurfum að skoða hvernig
við stöndum okkur í innleiðingum á reglum
og tilskipunum sem heyra sjálfkrafa eða
beint undir EES-samninginn, en það má ekki
gleyma því að þetta er tvíhliða samningur.
Þrýstingurinn frá ESB hefur aukist sífellt
með hluti sem setja þrýsting á stjórnar-
skrána bæði hjá okkur og Norðmönnum.
Ég held að það sé óumflýjanlegt, ef við
ætlum að vera áfram í þessu samstarfi og
nálgun ESB verður óbreytt, að við þurfum
að gera ákveðnar breytingar á stjórnar-
skránni hjá okkur. Þar þarf þó að vanda
mjög til verka því að við megum ekki afsala
rétti okkar til að setja niður hælana. Við
eigum að geta fylgt eftir eðlilegri þróun
þessa samnings án þess að gefa eitthvað
eftir af okkar fullveldi eða sjálfsákvörð-
unarrétti og án þess að þynna út stjórnar-
skrána. Að sama skapi er eðlilegt að við og
hinar EES-þjóðirnar setjum spurningar-
merki við þá þróun að þrýstingurinn frá
ESB sé stöðugt að aukast í þessum málum.“
Það eru sannarlega leiðir til að gæta hags-
muna Íslands í EES-samvinnunni, einna
helst í sameiginlegu EES-nefndinni og á
vettvangi Framkvæmdastjórnar ESB þar
sem lög og reglur eru upprunnar. Hvaða leið-
ir teljið þið vænlegastar til árangurs? „Við
höfum áður sagst hafa áhuga á að styrkja
okkar veru í Brussel til að koma fyrr að
hlutum sem tengjast EES. Það er í samræmi
við þingsályktunartillögu frá síðasta þingi
og vonandi fáum við afl til þess. Ég held
að það sé mikilvægt til að koma í veg fyrir
óþarfa núning milli aðila, því það er eng-
inn að tala um að hætta í EES-samstarfinu.“
Tími og orðalag enn óákveðið
Fjölmörg stórmál eru á könnu Gunnars Braga Sveinssonar sem tók nýlega við embætti utanríkisráðherra. Hann segir ekkert hafa verið
ákveðið um tíma eða form þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðna en vill styrkja EES-samstarfið og efla veru Íslands í Brussel.
Hvað viðkemur áframhaldandi móttöku IPA-styrkja frá ESB verður hvert verkefni metið fyrir sig. Samstaða á þingi um norðurslóðastefnu.
MARGVÍSLEG ÚRLAUSNAREFNI Evrópumálin hafa verið fyrirferðarmikil á fyrstu dögum Gunnars Braga Sveinssonar í utanríkisráðuneytinu. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
■ Þú hefur talað um óhikaðri þátttöku Íslands í NATO undir þessari
ríkisstjórn. Felst einhver raunveruleg stefnubreyting í því? „Forveri
minn í embætti, Össur Skarphéðinsson, gerði mjög vel í að halda
góðum samskiptum við NATO og má þakka honum fyrir það. Var
hann enda í þröngri stöðu þar sem hinn stjórnarflokkurinn hafði
ákveðnar og vel þekktar skoðanir á NATO-samstarfinu. Núverandi
ríkisstjórn er einhuga í því að virða okkar skuldbindingar gagnvart
NATO á þeim forsendum að þær verði borgaralegs eðlis. Við erum
herlaus þjóð og verðum það, en erum einn af stofnaðilum þessa
bandalags og höfum ákveðnum skyldum að gegna. Það munum við
gera án þess að skammast okkar nokkuð fyrir það.“
■ Stefna síðustu ríkisstjórnar var að framlög til þróunaraðstoðar
færu upp í 0,7% af fjárlögum hvers árs. Verður unnið áfram að
því marki? „Það hefur ekki verið rætt annað en að halda þessu
áfram, en það verður að sjálfsögðu að ráðast af stöðu ríkissjóðs og
ástandi heima fyrir. Tillagan er hins vegar enn í gildi og ég hef ekki
í huga að breyta þessu.“
■ Samskipti Íslands við nýmarkaðsríki hafa verið í deiglunni síðustu
misseri. Hvernig sérðu þau mál þróast? „Við lítum svo á þarna séu
ýmis sóknarfæri, en þau verður að nýta af skynsemi og á forsend-
um íslenskra hagsmuna. Samningurinn við Kína er ágætt dæmi
um að Ísland getur gert fríverslunarsamninga við stór og öflug
ríki og gætt hagsmuna sinna um leið. Við eigum að vera vakandi
fyrir möguleikum í hinum vaxandi ríkjum án þess þó að gefa upp
á bátinn aðra markaði. Evrópa er okkar stærsti viðskiptaaðili og
verður vonandi áfram, en við lokum að sjálfsögðu engum dyrum.“
Önnur stór málefni Breið sátt um norðurslóðir
Málefni norðurslóða hefur skipað stóran
sess í utanríkismálum Íslands síðustu
árin. Er að vænta stefnubreytingar frá
síðasta kjörtímabili? „Norðurslóðastefna
hlýtur alltaf að vera kvik og í stöðugri
endurskoðun og við erum að sjálfsögðu
að skoða hvernig við getum styrkt þetta
samstarf. Við ætlum okkur að sjálfsögðu
að vera þátttakendur í þessu starfi. Hvað
varðar stefnubreytingu, þá eru allir að
þróa sig í þessum málum og við munum
fylgja því eftir og gæta hagsmuna Íslands.
Við eigum ákveðin sóknarfæri, til dæmis
hvað varðar miðstöð til leitar og björgun-
ar, sem við munum horfa á áfram. Það er
mikilvægt að halda áfram að styrkja sam-
starf og samráð við þau ríki sem þar eru,
en við erum strandríki og munum ekki gefa
það eftir að koma að borðinu þegar strand-
ríki hittast og teljum að við getum átt góða
bandamenn þar á ýmsum stöðum.
Norðurslóðir eru einn af stóru áherslu-
punktunum í utanríkisstefnunni næstu ár
en það góða í þessum málaflokki er að það
hefur verið mikil samstaða um stefnuna
inni á Alþingi. Það er mikilvægt að halda
því þannig, þó að ef til vill kunni að koma
upp skiptar skoðanir um einstök mál.“
Þorgils
Jónsson
thorgils@frettabladid.is
Allt frá fjöru til fjalla
lÍs en kus
Faxafeni 8 // 108 Reykjavík // Sími 534 2727 // www.alparnir.is
| FRÉTTAVIÐTAL | 20. júní 2013 FIMMTUDAGUR10
UTANRÍKISMÁL
Ég held að það sé
óumflýjanlegt, ef við
ætlum að vera áfram í
þessu samstarfi og nálgun
ESB verður óbreytt, að við
þurfum að gera ákveðnar
breytingar á stjórnar-
skránni hjá okkur.