Fréttablaðið - 29.06.2013, Page 24
29. júní 2013 LAUGARDAGUR| HELGIN | 24
Kjartan
Guðmundsson
kjartan@frettabladid.is
Handhafar Samfélags-verðlauna Fréttablaðs-ins í flokknum Til atlögu gegn fordómum, sem afhent voru í apríl síðastliðnum, eru sam-
tökin Projekt Polska á Íslandi. Um
er að ræða hóp ungra Pólverja sem
vinnur að aðlögun og eflingu félags-
starfs og bættum aðstæðum inn-
flytjenda á Íslandi og meðal þeirra
atkvæðamestu í hópnum eru lög-
gilti skjalaþýðandinn Joanna Dom-
iniczak og tölvunarfræðingurinn
Tomasz Chrapek.
Hvenær voru samtökin stofnuð?
Joanna: Projekt Polska á Íslandi
voru stofnuð í október á síðasta ári,
svo við höfum ekki verið lengi starf-
andi, en það hefur gengið mjög vel
á þessum fáu mánuðum. Projekt
Polska eru í raun nokkurs konar
alþjóðleg samtök sem voru stofnuð
á tíunda áratug síðustu aldar og við
erum Íslandsarmur þeirra.
Tomasz: Það eru nokkrar deildir
samtakanna í Evrópu, en líka
í Bandaríkjunum og víðar. Við
erum í miklum samskiptum við
höfuðstöðvar samtakanna í Póllandi
og fulltrúi okkar sækir til að mynda
fundi þar reglulega.
Hvernig kom til að þessi Íslands-
armur var stofnaður?
Joanna: Nokkur okkar höfðu lengi
velt fyrir sér að stofna til svona
félagsskapar, af ýmsum ástæðum.
Ég flutti sjálf til Íslands árið 2004
og þekkti fyrst í stað enga Pólverja,
bara Íslendinga og aðra útlendinga.
Í um það bil hálft ár þráði ég afar
heitt að fá að tala pólsku og það
gekk svo langt að eitt sinn þegar ég
var að bíða eftir strætó og heyrði
mann tala á pólsku í símann stökk
ég á hann og bað hann um að spjalla
við mig. Ég fylgdist vel með allri
umfjöllun um Pólverja í fjölmiðlum
og kynntist fljótlega nokkrum. Þá
kom í ljós að þau félög Pólverja sem
voru starfandi hentuðu okkur ekki
og allt sameiginlegt félagslíf hér á
landi var í daufari kantinum.
Tomasz: Ég kom til Íslands 2007
og tók eftir þessu sama. Okkur þótti
tilvalið að stofna samtök sem hefðu
það að markmiði að sýna Pólverja
og pólska menningu frá mörgum
mismunandi hliðum. Til að mynda
þykir okkur mikilvægt að kynna
nútímalegri hliðar Póllands fyrir
Íslendingum en bara þær sem snúa
að gamalli danslist og matargerð.
Við erum á móti staðalímyndum
og viljum breyta þeim. Við teljum
líka að innflytjendur beri nokkra
ábyrgð á því sjálfir að bæta hag sinn
og ákváðum því að vera virk, meðal
annars við að skipuleggja pólska
listviðburði og kynna þá fyrir eins
mörgum Íslendingum og hægt væri.
Joanna: Við ákváðum strax að
starfsemin myndi fyrst og fremst
byggjast á því að sækja um styrki,
til dæmis frá yfirvöldum, Reykja-
víkurborg og Evrópusambandinu,
til að standa fyrir alls kyns
menningar legum viðburðum. Fyrsti
fundur inn fór fram á Rósenberg og
þar gerðum við grófar áætlanir.
Strax daginn eftir fórum við í það að
skrá okkur í fyrirtækjaskrá, sækja
um bankareikning og þar fram eftir
götunum, svo þetta hefur gengið
fremur hratt fyrir sig.
Tomasz: Þeir meðlimir sem taka
mjög virkan þátt í starfinu eru um
þrjátíu talsins og þeir borga þrjú
hundruð krónur á mánuði sem eru
notaðar í bakkelsi á fundum og slíkt,
en svo eru yfir þúsund manns sem
fylgjast með okkur á Facebook og
bætist við á hverjum degi. Við erum
mjög ánægð með viðtökurnar sem
samtökin hafa fengið.
Áhugi erlendis frá
Eru það eingöngu Pólverjar og fólk
af pólskum uppruna sem sýnir sam-
tökunum áhuga eða kemur áhuginn
víðar að?
Tomasz: Það er allur gangur
á því. Markmið okkar er að vera
mjög sjáan leg og til að mynda hafa
erlendir fjölmiðlar sýnt okkur
áhuga, til dæmis í Póllandi og Sví-
þjóð. Við fáum mikið af símhring-
ingum og tölvupósti frá fólki sem
hefur áhuga á starfseminni.
Joanna: Við erum tiltölulega
nýbyrjuð og enn að prófa okkur
áfram, en það er vissulega á stefnu-
skránni að gera starfsemi samtak-
anna viðameiri og verða enn sýni-
legri. Við fáum mörg tilboð um alls
kyns samstarf en það er stundum
erfitt því við erum öll í annarri
vinnu og gerum þetta eingöngu af
áhuga. Til dæmis væri gaman að
geta haft einn starfsmann sem sinn-
ir eingöngu samtökunum og einnig
yrði mikið til bóta að fá skrifstofu,
en núna ætlum við að einbeita okkur
að því að klára þau verkefni sem
standa fyrir dyrum og svo sjáum
við til hvað næsta ár ber í skauti sér.
Hver eru helstu verkefnin sem
Projekt Polska á Íslandi hefur stað-
ið fyrir?
Joanna: Einna skemmtilegastur
var viðburður sem stóðum fyrir
í samstarfi við mannréttinda-
skrifstofu Reykjavíkur og Reykja-
víkurborg á Alþjóðlega mann-
réttindadeginum í desember
síðastliðnum. Þá gáfum við fólki
skýjaluktir sem kveikt var á og látn-
ar líða um himininn í nafni mann-
réttinda. Jón Gnarr borgarstjóri tók
þátt og þetta var virkilega gaman.
Tomasz: Svo höfum við staðið
fyrir menningarviðburðum, meðal
annars í Ráðhúsinu, og til dæmis
einum þar sem Íslendingum gafst
tækifæri til að spjalla við Pól-
verja sem heppnaðist mjög vel.
Við höfum líka verið dugleg við að
skrifa greinar í blöðin og rekum
fjölskyldugarð þar sem meðlimir
samtakanna hittast og vinna saman
í. Einn meðlimurinn er garðyrkju-
fræðingur og hann hélt námskeið
þar sem hann útskýrði fyrir okkur
hvernig best væri að rækta hér á
landi, hver munurinn á Póllandi og
Íslandi er í þeim efnum og svo fram-
vegis.
Okkur þykir mjög mikilvægt að
geta gefið félagsmönnum okkar
tækifæri til að deila sinni sér-
fræðiþekkingu, sem er í mörgum
tilvikum talsverð og jafnvel af því
tagi sem skortur er á hér á landi.
Við viljum búa til jákvætt andlit á
Pólverja.
Kennir pólsku í vinnunni
Og hvað er á döfinni hjá Projekt
Polska á Íslandi á næstunni?
Joanna: Við höfum sótt um styrk
til að setja á fót nokkurs konar Pól-
landstorg þar sem ræktaðar yrðu
pólskar kryddjurtir og blóm, og yrði
einnig nýtt sem samkomustaður þar
sem sýnt yrði pólskt brúðuleikhús,
grillaðar pólskar pylsur og fleira í
þeim dúr. Vonandi verður af því.
Tomasz: Svo ætlum við að flytja
inn vinsæla pólska hljómsveit,
Domowe Melodie, til landsins og
okkur langar líka til að leiða saman
pólska og íslenska listamenn í þeim
tilgangi að vinna saman og standa
fyrir pólskukennslu fyrir Íslend-
inga. Það er ýmislegt á döfinni.
Joanna: Ég kenndi pólsku í eina
önn við Menntaskólann við Hamra-
hlíð fyrir nokkrum árum og þá voru
nítján manns í bekknum. Einn flutti
til Póllands í kjölfarið.
Tomasz: Ég kenni pólsku í
vinnunni á hverjum degi. Þar segja
allir cześć í staðinn fyrir halló.
Þið talið um að búa til jákvætt
andlit á Pólverja á Íslandi. Er það
neikvætt í dag?
Joanna: Við óttumst að margir líti
bara á Pólverja sem ódýrt vinnuafl.
Tomasz: Við viljum breyta þeirri
staðalímynd að Pólverjar séu hér
bara til að vinna og fara svo með
peninga aftur til Póllands. Auðvitað
er hópur sem gerir það en alls ekki
allir.
Joanna: Við borgum skatta hér og
stofnum fyrirtæki, viljum kjósa og
taka þátt í öllu daglegu lífi.
Tomasz: Þegar við komum fyrst
til Íslands fundum við mjög vel
fyrir því að þessi steríótýpa var
mjög sterk.
Hafið þið orðið fyrir fordómum?
Joanna: Fordómarnir koma
stundum upp. Til dæmis ef ég er
stödd í verslun með pólskri vinkonu
minni og við tölum saman á pólsku,
þá horfir afgreiðslufólkið oft stíft á
okkur til að passa upp á að við séum
ekki að stela.
Tomasz: Ég finn ekki mikið
fyrir fordómum í kringum mig, en
kannski helst í fjölmiðlum.
Joanna: Það sést til dæmis á því
að þegar Pólverjar eða Litháar gera
eitthvað af sér er þjóðerni þeirra
alltaf tekið fram í fréttum, en ekki
ef um er að ræða aðra útlendinga.
Tomasz: Ég vann sjálfur sem
fréttamaður í Póllandi og veit að
það er hægt að gera betur.
Hefur þetta breyst á þeim árum
sem þið hafið búið hér?
Joanna: Líklega er þetta á réttri
leið og það sést meiri umfjöllun um
útlendinga í íslenskum fjölmiðlum í
dag en fyrir áratug. Við ætlum ein-
mitt að setja á fót óformlegan fjöl-
miðlahóp sem grandskoðar fréttir
sem tengjast Póllandi í íslenskum
fjölmiðlum í eitt ár, jákvæðar og
neikvæðar. Það verður gaman að
sjá útkomuna úr þeirri vinnu.
Vilja búa til jákvæða ásýnd
Projekt Polska á Íslandi er hópur ungmenna sem vinnur að eflingu félagsstarfs Pólverja á Íslandi og hlaut Samfélags-
verðlaun Fréttablaðsins í vor. Þau Joanna Dominiczak og Tomasz Chrapek segja frá starfseminni.
PROJECT POLSKA Izabela Sobczak, Tomasz Chrapek, Aleksandra Orzylowska, Lukasz Slesak, Olga Knasiak og Kamil Kluczynski
eru öll starfandi meðlimir í Projekt Polska. Viðmælandinn Joanna Dominiczak var vant við látin við myndatökuna.
FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Fordómarnir koma
stundum upp. Til dæmis ef
ég er stödd í verslun með
pólskri vinkonu minni og
við tölum saman á pólsku,
þá horfir afgreiðslufólkið oft
stíft á okkur til að passa upp
á að við séum ekki að stela.
Laugavegi 13, 101 Reykjavík,
Dunhaga 5, 107 Reykjavík,
sími 515 5800, rannis@rannis.is
www.rannis.is