Fréttablaðið - 07.11.2013, Blaðsíða 48
7. nóvember 2013 FIMMTUDAGUR| MENNING |
BÆKUR ★★★★ ★
Skuggasund
Arnaldur Indriðason
VAKA-HELGAFELL
Aðdáendur Arnaldar, sem eru
ósáttir við brotthvarf Erlendar
sviðahausamanns úr sviðsljósi
bóka hans, ættu að geta tekið
gleði sína á ný við lestur Skugga-
sunds. Hér er mættur glænýr
lögreglumaður, reyndar kom-
inn á eftirlaun, Konráð að nafni
og eftir öllum sólarmerkjum að
dæma eiga lesendur eftir að kynn-
ast honum nánar í næstu bókum.
Hann á líka erfiða barnæsku að
baki og einhver ævintýri sem ýjað
er að en ekki farið nánar út í. Við
bíðum spennt.
Raunar eru lögreglumennirnir
í forgrunninum þrír því hér fer
fram tveimur sögum; morðum
bæði árið 1944 og í nútímanum,
og þeir Flóvent og Thorson sem
rannsaka fyrra morðið eru sömu-
leiðis vel dregnar og áhugaverðar
persónur sem við því miður fáum
sennilega ekki að kynnast betur.
Og þó, hver veit?
Aðalsmerki Arnaldar sem
glæpasagnahöfundar er hversu
vænt honum þykir um persónur
sínar. Bæði rannsakendur og
fórnarlömb verða ljóslifandi í
huga lesandans og glæponar og
grunaðir sömuleiðis. Á því verð-
ur ekki breyting í Skuggasundi
og þrátt fyrir ljótleika glæpanna
eru ólánsmennirnir sem fremja
þá dregnir mannelskum dráttum
sem gera lesandanum ómögulegt
að hata þá, alla nema einn.
Sagan frá 1944 er aðalgáta
rannsóknarinnar enda kemur á
daginn að samtímamorðið teng-
ist því máli beint. Arnaldur lýsir
aldar fari og aðstæðum fólks á
stríðsárunum óhemju vel og með
því að hafa annan rannsóknar-
manninn kanadískan Vestur-
Íslending sem takmarkað þekkir
til staðhátta tekst honum að lauma
inn alls kyns vangaveltum um
þau mál sem efst eru á baugi árið
1944 í formi samtala þeirra Fló-
vents án þess að það verði þvingað
og á skjön við söguna. Öll fram-
vinda málanna er líka trúverðug
í gegn, öfugt við það sem oft vill
verða í glæpasögum, og lesand-
inn lifir sig inn í rannsóknirnar
af áður óþekktri innlifun. Hver
morðinginn er er hálfgert auka-
atriði, það er líf þess fólks sem við
sögu kemur sem skapar áhugann
og spennuna.
Bygging sögunnar er með ein-
dæmum faglega unnin. Sögusvið-
in tvö flæða hvort inn í annað
algjörlega áreynslulaust og flétt-
unin er hnökralaus. Stíllinn er
árgangs Arnaldur, ekkert flúr
eða stælar og samtölin eru betur
unnin en oft áður, vottar ekki
fyrir bókmáli eða uppskafningi
og maður trúir hverju orði.
Skuggasund markar engin
skil á ferli Arnaldar, hann hefur
undan farin ár verið að þróa bæði
stíl og byggingu í þessa átt, en
þetta er vel unnin og þrauthugsuð
saga sem hreyfir við lesandanum
á margan hátt og vekur hann til
umhugsunar um þá gömlu spurn-
ingu hvort við höfum í raun geng-
ið til góðs þessi ár sem Ísland
hefur verið lýðveldi.
Friðrika Benónýsdóttir
NIÐURSTAÐA: Vel unnin og þraut-
hugsuð saga á tveimur tímaplönum.
Sögusvið, persónusköpun og bygging
haldast í hendur við að gera Skugga-
sund að einni bestu bók Arnaldar.
Harmleikur í þátíð og nútíð
Við erum alltaf með sviðsett atriði
á tónleikum okkar,“ segir Rósa-
lind Gísladóttir, einn söngvaranna
sem stíga á svið í veislunni,
spurð hvort það sé vaninn hjá
hópnum að vera með leikstjóra á
tónleikum hjá sér. „Í þetta sinn er
um alveg samhangandi sýningu
að ræða. Við erum í búningum
og með ljósameistara og Sveinn
Einarsson, leikstjórinn okkar,
samdi handrit sem tengir atriðin
saman þar sem farið er yfir sögu
Verdis.“
Í kynningu á tónleikunum
vekur það sérstaka athygli að
Verdi sjálfur hyggist vera við-
staddur veisluna, hvernig gengur
það upp? „Hann mætir að sjálf-
sögðu í eigin afmælisveislu,“
segir Rósalind og hlær. „Það
kemur í hlut Randvers Þorláks-
sonar að ljá honum líkama og
rödd, en þetta er vissulega Verdi.“
Auk Rósalindar koma fram
söngvararnir Bylgja Dís
Gunnarsdóttir, Egill Árni Páls-
son, Erla Björg Káradóttir, Hörn
Hrafnsdóttir, Jóhanna Héðins-
dóttir og Valdimar Hilmars-
son. Meðleikari og æfingastjóri
er Antonia Hevesi, sem er einn
af stofnendum hópsins og hefur
fylgt honum á þeim rúmlega 30
sýningum, tónleikum og upp-
ákomum, sem hópurinn hefur
staðið fyrir. Rósalind segir kven-
hluta hópsins hafa verið hinn
sama alveg frá upphafi en „strák-
arnir“ hafi komið og farið. „Svo
fáum við líka leynigest í eitt
atriðið,“ segir hún leyndardóms-
full og neitar að segja meira um
það mál.
En er það vaninn að svona mikill
viðbúnaður sé hafður á tónleikum
hópsins? „Já,“ segir Rósalind. „Við
höfum undanfarin ár unnið með
leikstjórum og verið með svið-
settar senur. Auk þess settum við
upp óperu Puccini, Suor Angelica
í fyrra og Svar Maríu nú fyrr á
þessu ári, þannig að við erum vax-
andi hópur. Í vor ætlum við að setja
upp barnaóperuna „Hans og Grétu“
eftir Engilbert Humperdinck.“
Leikstjóri í Salnum annað
kvöld verður Sveinn Einarsson,
en Páll Ragnarsson, fyrrverandi
ljósameistari Þjóðleikhússins
og Íslensku óperunnar, hannar
lýsinguna. Samkvæmið hefst
klukkan 20. fridrikab@frettabladid.is
Halda upp á 200 ára
afmæli Verdis
Óp-hópurinn og Vonarstrætisleikhúsið efna til söngveislu í Salnum annað kvöld í
tilefni af 200 ára afmæli Verdis. Þrátt fyrir að hafa látist árið 1901 mun afmælis-
barnið sjálft verða viðstatt veisluna þar sem fl utt verða atriði úr óperum hans.
METNAÐARFULL Óp-hópurinn leggur mikinn metnað í sýningar sínar og nýtur í þetta sinn leiðsagnar Sveins Einarssonar leik-
stjóra. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR