Skessuhorn


Skessuhorn - 20.06.2013, Blaðsíða 29

Skessuhorn - 20.06.2013, Blaðsíða 29
29FIMMTUDAGUR 20. JÚNÍ 2013 Fækkun atvinnulausra LANDIÐ: Skráð atvinnuleysi í maí sl. var 4,3%, en að meðaltali voru 7.515 atvinnulausir í mánuðinum og fækkaði um 483 að meðaltali á landinu öllu frá apríl eða um 0,6 prósentustig. Þetta kemur fram í mánaðarlegu yfirliti Vinnumála- stofnunar en atvinnuleysi nú mælist það minnsta frá haustmánuðum 2008. Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 229 á höfuðborgar- svæðinu en um 254 á landsbyggð- inni. Atvinnuleysi á Vesturlandi var 2,3% í maí og lækkaði um hálft prósentustig frá apríl. Atvinnuleys- ið var 4,8% á höfuðborgarsvæð- inu og minnkaði úr 5,3% í apríl. Á landsbyggðinni var það 3,5% og minnkaði úr 4,1% í apríl. –þá Árlegar tekjur gætu orðið 3-5 milljarðar LANDIÐ: Greiningardeild Ar- ion banka telur litlar líkur á því að þolmörkum innviða, þ.e. gistirým- is, samgangna o.s.fv., verði náð í bráð í ljósi þess hve sveigjanlegir og þenjanlegir innviðir ferðaþjón- ustunnar eru. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu ferðaþjón- ustunnar á Íslandi sem deildin gaf út í gær. Segir í skýrslunni að mik- ið vannýtt svigrúm sé til staðar í innviðum greinarinnar. Hins vegar gæti ferðamennska hér á landi ver- ið farin að nálgast þolmörk náttúru og samfélags á ákveðnum svæð- um. Möguleg lausn telja skýrslu- höfundar að geti falist í svæðis- bundinni gjaldtöku á ferðamanna- stöðum eða með öðru sniði. Segir í skýrslunni að tekjur af slíkri gjald- töku gætu hæglega numið á bilinu 3-5 milljarðar króna árlega. –hlh Aflatölur fyrir Vesturland 8. – 14. júní. Tölur (í kílóum) frá Fiskistofu: Akranes 27 bátar. Heildarlöndun: 39.490 kg. Mestur afli: Ársæll Sigurðsson HF: 4.498 kg í fjórum löndunum. Strandveiði: Sæli AK: 2.123 kg í fjór- um löndunum. Arnarstapi 22 bátar. Heildarlöndun: 39.550 kg. Mestur afli: Oliver SH: 3.517 kg í fjór- um löndunum. Strandveiði: Sami bátur. Grundarfjörður 49 bátar. Heildarlöndun: 180.400 kg. Mestur afli: Vörður EA: 39.501 kg í einni löndun. Strandveiði: Sif SH: 3.191 kg í fjórum löndunum. Ólafsvík 43 bátar. Heildarlöndun: 130.754 kg. Mestur afli: Guðmundur Jensson SH: 19.938 kg í þremur löndunum. Strandveiði: Jón í Ártúni SH: 3.862 kg í fjórum löndunum. Rif 42 bátar. Heildarlöndun: 361.513 kg. Mestur afli: Tjaldur SH: 134.936 kg í tveimur löndunum. Strandveiði: Jói á Nesi SH: 3.288 kg í fjórum löndunum. Stykkishólmur 42 bátar. Heildarlöndun: 100.024 kg. Mestur afli: Fjóla SH: 9.761 kg í þremur löndunum. Strandveiði: Elín SH: 2.084 kg í fjór- um löndunum. Topp fimm landanir á tímabilinu: 1. Tjaldur SH – RIF: 73.002 kg. 8. júní. 2. Örvar SH – RIF: 62.075 kg. 11. júní. 3. Tjaldur SH – RIF: 61.934 kg. 13. júní. 4. Rifsnes SH – RIF: 46.168 kg. 11. júní. 5. Vörður EA – GRU: 39.051 kg. 13. júní. sko Friðrik Jónsson hefur komið víða við á lífshlaupinu. Sem ungur pilt- ur starfaði hann meðal annars sem þingsveinn á Alþingi þar sem hann hljóp inn í þingsal og lét þingmenn vita ef þeir fengu símtal. Lengst af starfaði Friðrik hins vegar hjá Sem- entsverksmiðjunni á Akranesi, var fyrsti skipstjóri á Freyfaxa og síðar útgerðar- og sölustjóri verksmiðj- unnar. Eftir 25 ára dvöl á Akra- nesi flutti hann aftur á höfuðborg- arsvæðið þar sem hann hóf nám við Myndlistarskóla Kópavogs, þá kominn á áttræðisaldur. Þar stund- aði hann samfellt nám í 18 ár þeg- ar hann var gerður að heiðursfélaga við skólann. Hann hefur haldið tíu einkasýningar og hélt meðal ann- ars sýningu hjá Bílási á Akranesi þegar fyrirtækið fagnaði 30 ára af- mæli sínu á dögunum. Blaðamað- ur Skessuhorns leit í heimsókn til Friðriks í liðinni viku og spjallaði við þennan síunga listamann. Byrjaði að vinna tíu ára „Ég fæddist á Akureyri árið 1921 en var ekki nema tveggja ára þegar fjöl- skyldan flutti til Reykjavíkur,“ segir Friðrik í byrjun spjalls er við kom- um okkur fyrir í íbúð hans í Kópa- voginum. „Systkinahópurinn var ansi stór. Alls vorum við tíu og níu okkar komust til manns. Þegar jafn stór barnahópur er á heimilinu þarf auðsjáanlega töluverða fjármuni til þess að fleyta fjölskyldunni áfram svo við lærðum snemma að bjarga okkur sjálf. Þetta var á kreppuárun- um milli stríða og hef ég því kynnst alvöru kreppu, ekki eins og þeirri sem Íslendingar gengu nýlega í gegnum. Ég byrjaði ungur að selja og bera út blöð, þá bjó ég til jóla- poka, bolluvendi og steypti tindáta sem ég síðan fékk að selja hjá kaup- manninum,“ segir Friðrik en tíu ára gamall byrjaði hann að vinna fyrir sér hjá Mjólkurfélagi Reykjavík- ur sem þá var niðri í Hafnarstræti 5. „Uppi í risinu var þá kornmylla og bændur komu þangað til þess að kaupa korn. Á þeim árum var eng- inn sími innanhúss og fólst mitt starf í því að hlaupa með afgreiðslu- seðlana upp í ris þegar bændurnir höfðu greitt fyrir kornið. Ellefu ára var ég síðan lyftuvörður hálfan dag- inn hjá sama fyrirtæki.“ Tekinn á teppið á Alþingi Friðrik var tekinn úr skóla þrett- án ára gamall og fór þá að vinna sem þingsveinn á Alþingi þar sem hann starfaði lengur en margir þingmenn, eða í fimm þing. Blaða- manni lék forvitni að vita hvað hafi falist í starfi þingsveins. „Alls vor- um við átta strákar sem störfuð- um sem þingsveinar en við vor- um í raun sendisveinar fyrir þing- mennina. Við fylgdumst til dæmis vel með símanum en ef þingmað- ur fékk símtal þá hljóp maður inn í þingsal og lét hann vita. Þingsvein- arnir stofnuðu félag og gáfu meðal annars út blað. Ég ritstýrði því um tíma og var eitt sinn tekinn á teppið hjá skrifstofustjóranum fyrir að láta einhvern starfsmann heyra það á síðum blaðsins,“ rifjar Friðrik upp. Hann langaði hins vegar alltaf til sjós en átti erfitt með að fá pláss á skipi. Faðir hans sem var hvata- maður að stofnun Slysavarnafélags- ins hér á landi hjálpaði honum síð- an, að undangengnum krókaleið- um að komast inn í Sjómannafélag Reykjavíkur og fékk hann þá pláss á björgunarskútunni Sæbjörgu sem síðar var tekin á leigu hjá Land- helgisgæslunni. Þar með var sjó- mannsferill Friðriks hafinn. Skipstjóri hjá Ríkisskipum Árið 1947 útskrifaðist hann úr far- mannadeild Stýrimannaskólans en því miður var ekki hlaupið að því að fá stýrimannspláss að lokinni skóla- göngunni. Fyrsta stýrimannspláss- ið var hins vegar á Foldinni sem var frystiskip sem flutti frosinn íslensk- an fisk til útlanda. Þar var hann í tvö ár eða þar til hann gifti sig. „Í síðasta túrnum mínum fórum við með fisk til Ísraels. Þaðan fluttum við fisk til Englands og þaðan aft- ur til Ísraels. Þarna var ég nýgift- ur maður og hafði verið að heim- an í tvo mánuði. Þegar ég bað um frí var mér sagt að ég yrði sjálf- ur að útvega mann til að leysa mig af. Ég gerði það og fór síðan heim með togara. Foldin kom hins veg- ar ekki heim í hálft annað ár,“ seg- ir Friðrik. Þegar í land var komið fékk hann vinnu við að sópa gólf á verkstæðinu hjá Vélsmiðjunni Héðni. Á stutt- um tíma háttaði hins vegar þannig til að Friðrik fékk sína fyrstu skip- stjórastöðu á innrásarpramma þeg- ar hann sigldi með breska olíuskip- ið Clam aftur til Reykjavíkur úr við- gerð, en það strandaði við Reykja- nes árið 1950. Eftir þetta starf- aði Friðrik sem afleysingaskipstjóri á mörgum skipum, til að mynda öllum skipum Ríkisskipa nema Heklunni. Hann var því kunnug- ur flestum höfnum landsins þeg- ar hann var ráðinn skipstjóri Frey- faxa hjá Sementsverksmiðjunni árið 1966. Fullkomnasta sementsflutningaskip heims „Þá flutti ég upp á Skaga með alla fjölskylduna,“ segir Friðrik en þau hjónin eignuðust alls fimm börn. „Árið 1970 er ég síðan gerður út- gerðar- og sölustjóri hjá Sements- verksmiðjunni og endaði sem deild- arstjóri dreifingar og sölu þegar ég hætti um áramótin 1991-1992. Mig langar nú að taka það fram að þeg- ar skipið Freyfaxi var afhent í Nor- egi þá stóð í norskum blöðum að tæknilegasta og fullkomnasta sem- entsflutningaskip heims hafi nú verið afhent frá þessari skipasmíða- stöð. Ekkert var hins vegar minnst á þetta í íslenskum blöðum. Ég klippti hins vegar út eina síðu úr blaðinu, lét innramma og gaf upp á byggðasafn. Einn af síðustu dögun- um sem ég vann hjá Sementsverk- smiðjunni fór ég einnig með líkan af Freyfaxa og gaf safninu. Grein- inni höfðu þeir hins vegar týnt ein- hvers staðar í geymslu,“ segir Frið- rik. „Þetta var mjög góður vinnu- staður og starfsfólkið var það gott á skrifstofunni að það lá við að mað- ur fengi kökk í hálsinn þegar mað- ur gekk út,“ segir hann um árin hjá Sementsverksmiðjunni á Akranesi. Skagamenn hafi hins vegar ver- ið sérlundaðir að því leytinu til að aldrei var hægt að vinna þegar ver- ið var að spila fótbolta. Sandgryfjurnar verði grænt svæði Friðrik tók virkan þátt í bæjarlíf- inu þegar hann bjó á Akranesi, sat í atvinnumálanefnd í átta ár og var þar af formaður í tvö ár. Þá var hann formaður þjóðhátíðarnefndar í þrjú ár. Hann segir leiðinlegt að horfa upp á sorgleg örlög Sements- verksmiðjunnar en hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig megi nýta svæðið til framtíðar. „Plássið þar sem sandgryfjurnar eru ætti að gera að grænu svæði því það er á móti suðri og í skjóli fyrir norðanátt- inni. Þá væri hægt að tengja það við Langasand. Þarna er tækifæri til að gera eitthvað í þessa veru fyrir bæj- arbúa en menn verða að passa sig á því að hlaupa ekki til og gera ein- hverja vitleysu heldur hugsa mál- ið vandlega. Ég held til dæmis að íbúabyggð væri ekki æskileg þarna. Það liggur ekkert á að brjóta bygg- ingarnar niður en það er vel hægt að finna þeim nýtt hlutverk,“ seg- ir Friðrik. Á skólabekk á áttræðisaldri Þegar Friðrik flutti aftur suður var hann það frískur að hann gat ekki hugsað sér að hanga heima og gera ekki neitt. „Þá var maður hérna í byggingunni sem stakk upp á því að við færum bara í myndlistarskólann, svo við fórum báðir að læra. Ég hef því verið í þessu námi í samtals átj- án ár en þá fannst mér nóg kom- ið. Ég var síðan gerður að heiðurs- félaga og þegar skólinn varð 25 ára í vor bauð skólastjórinn mér að taka eina önn i viðbót fram á vorið. Svo ég féllst á það og þegar nemenda- sýningin var haldin í Gerðasafni fékk ég að vera með tvær myndir á sýningunni í stað einnar. Ég hef haldið tíu einkasýningar og verið með í samsýningum en síðasta sýn- ingin mín var niðri á Laugavegi 67 þar sem ég fékk að sýna tíu myndir og stóð hún í einn mánuð. Þar með held ég að sýningarhaldi sé lokið hjá mér,“ segir Friðrik Jónsson að lokum. ákj Friðrik við nokkrar mynda hans í Bílási 1. júní sl. Ljósm. óó. Kunnugur flestum höfnum landsins Rætt við Friðrik Jónsson listmálara og fyrrum skipstjóra Friðrik Jónsson á heimili sínu í Kópavogi. Ljósm. ákj. Gestir við opnun afmælissýningar Bíláss í upphafi mánaðarins. Nokkrar myndir eftir Friðrik prýddu veggina. Ljósm. mm.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.