Skessuhorn


Skessuhorn - 10.09.2014, Blaðsíða 26

Skessuhorn - 10.09.2014, Blaðsíða 26
26 MIÐVIKUDAGUR 10. SEPTEMBER 2014 Hugur löngum heyrir þá - hófasöngva þína Vísnahorn Eitt af því sem ég reyni alltaf að forðast við vísnaþáttaskrif er að láta mín eigin áhugasvið hafa of mikil áhrif á efnisvalið. Stundum getur þetta endað með því að þau málefni gjalda fyr- ir að ég skuli hafa ánægju af þeim sem er nátt- úrlega ekki gott svona líkt og það er slæmt ef tryggir flokksmenn verða að gjalda þess að vera í sama stjórnmálaflokki og ráðherrarnir. Mér var bent á það á dögunum að hestavísur hefðu orð- ið skammarlega útundan hjá mér og þar sem nú nálgast sá árstími sem hestar eru hvað mest not- aðir, allavega utan þéttbýlis, þá er kannski rétt að fjalla örlítið um hesta og fjallferðir, saman eða sitt í hvoru lagi eftir því sem verkast vill. Austur í Laugardal var aldraður maður lítilsháttar fatl- aður sem átti gæðingshest bleikan og bað Hjör- mund Guðmundsson að yrkja um sig og reið- hestinn. Hjörmundur kvað: Bleikur skeiðar yfir aur, urðir hraun og gjótur. Á honum situr gamall gaur gasalega ljótur. Ekki mun sá gamli hafa beðið um meira úr þeirri smiðju en ég held að um sama settið séu þessar vísur Páls á Hjálmsstöðum, bróður Hjör- mundar: Einn ég reika stað úr stað störfin veik mér létti. Læt ég bleikan gjarðaglað grípa feykispretti. Ljæ ég sprundum hófahund harða grund að stíga, þær mér stundum létta lund láta undan síga. Fleira þarf þó að gera við góða hesta en bara að hafa þá til að koma sér í mjúkinn hjá kven- fólkinu. Stundum þarf að huga að því að týna saman lærissneiðaefnið á haustin og getur orð- ið dálítið starf líkt og segir í rímu af Gunnari Bjarnasyni: Sauðfjárbúið sýnist valt, síst er gróði hollur leitt er að verða út um allt að elta hlauparollur. Skepnuvitið skapar nú skynvæðingu nýja, okkar líf er andatrú eða svínastía. Ég hef reyndar enga trú á að það yrði skemmtilegri smalamennska að smala svínum eða öndum upp um öll fjöll en það er nú ekki mikið að marka hvað mér finnst. Svo sem fleiri góðir menn fór Hjörmundur á Hjálmsstöðum oft í leitir en þá þarf stundum að ríða ógætilega ef menn hafa eitthvað til að gera það með. Jafnvel þarf þess stundum þó hvorki reiðskjóti né landslag bjóði uppá slíkt. Um einn gangnafélaga sinn kvað Hjörmundur: Fé úr haga fram þá rann fór ei bagalega. Við Tindaskagahornið hann hleypti agalega. Síðar leit Hjörmundur til baka yfir ævina og þetta þótti honum markverðast: Ég hef smalað manna mest mýrar dali og sundin stundum alið ungan hest og við hjalað sprundin. Eg hef skárað engjastör ekki sár í mundum brúkað klár í fjallaför og fengið tárið stundum. Eyjólfur Jónasson í Sólheimum þurfti einnig stundum á því að halda að beita hesti af nokk- urri einurð: Helvíti var holtið bratt ég hélt´ann myndi dala. Blesa er stundum illa att ef ég þarf að smala. Höskuldur Einarsson í Vatnshorni var sömu- leiðis einn þeirra sem gátu lent í þeirri stöðu að heppilegra var að reiðskjótinn væri ekki óhæfi- lega vegvandur: Mitt var happ og mín var fró mest í kappi stóru þessar klappir, þennan mó, þínar lappir fóru. Ekki man ég betur en þessi sé líka eftir Hösk- uld og væntanlega eftirmæli um einhvern reið- hesta hans: Þeir sem hresstu þreyttan gest þetta flestir greina. Þú varst bestur þegar mest þurfti á hest að reyna. Og í Gránavísum segir Páll á Hjálmsstöðum: Þegar njóta einir yls aðrir hljóta að vinna. Í nauðahótum norðanbyls naut eg fóta þinna. Margir þeir hestar sem dugðu best við erfiðar aðstæður voru ekki endilega auðtamdir eða fús- ir á að beygja sig undir vald mannsins. Um einn slíkan kvað Höskuldur Einarsson frá Vatns- horni: Eðli þjónar fantur fast, frekt sig kóninn hristir. Að ausa, prjóna og andskotast eru dónans listir. Það er ýmislegt sem liggur í ættum bæði hjá mönnum og skepnum. Sumt endist marga ætt- liði en annað þynnist og úrkynjast eins og geng- ur. Forfeður mínir á Mýrunum voru taldir myndarmenn þó sá eiginleiki hafi ekki erfst til mín frekar en aðrir góðir eiginleikar. Um einn forföður minn kvað Finnbogi Kristófersson í Galtarholti: Hleypti á fjallið fjörugur, fáknum allvel hröðum, gerðar-kallinn Guðmundur, gamli á Jallángsstöðum. Það var semsagt langalangafi minn Guð- mundur Erlendsson sem bjó á Jarðlangsstöðum sem fékk þessa vísu hjá Finnboga en framburður og málvenjur geta nú verið með ýmsum hætti. Það mun hins vegar hafa verið Helgi Björns- son á Staðarhöfða sem fékk lánaðan Skussa, reiðhest Eggerts í Bráðræði og skilaði honum með þessum orðum: Mundu þeir sem fengu fjúk fjörið meira en hinna, aldrei leiruljósan búk lét ég keyri finna. Þessi umfjöllun um hesta og smalamennskur gæti svo endað á lokavísunni úr eftirmælum Sokka eftir Pál Jónsson á Skeggjastöðum í Fell- um: Lífs á göngu er gerast fá gleðiföng og dvína hugur löngum heyrir þá hófasöngva þína. Þar sem ekki eru nú allir lesendur mín- ir bændur eða hestamenn eða allavega leyfi ég mér að vona að svo sé væri kannski rétt að launa þeim sem nennt hafa að lesa þrátt fyrir áhuga- leysi með haustvísu eftir Jón Ingvar Jónsson: Haustið rænir okkur yl, öllu fúst að granda. Úti maður berst í byl, bleytu og skúrafjanda. Sumarið er svifið til sólar- fokking landa. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is -segir Wioletta Maszota veðurathugunarmaður í Stykkishólmi „Góð og skemmtileg vinna sem hentar mér mjög vel“ Í Stykkishólmi er elsta veðurstöð landsins, hefur verið starfrækt óslit- ið frá 1845 þegar Árni Thorlacius kaupmaður hóf þar veðurathuganir. Árni var mikill áhugamaður um veð- ur og skrifaði m.a. kennslubók fyr- ir sjómenn sem hann hugði til leið- beiningar fyrir þá til að varast aftaka- veður. Sú kennslubók kom reynd- ar aldrei út en er engu að síður talin hafa verið hvatinn að því að Árni hóf reglubundnar veðurathuganir. Veð- urathugunarmenn hafa verið nokkr- ir í Hólminum um tíðina þótt marg- ir hafi enst lengi í því starfi. Síðustu sjö árin hefur gegnt starfinu kona af pólsku bergi brotin, Wioletta Mas- zota eiginkona Þrastar Auðunsson- ar sjómanns. Hún var einmitt að gá á mælana og taka veðrið við heim- ili sitt á Lágholti 1 í Stykkishólmi þegar blaðamaður Skessuhorns var staddur í Stykkishólmi um hádegis- bil síðastliðinn fimmtudag. Yfirleitt besta veðrið í Hólminum Wioletta segir að yfirleitt sé besta veðrið í Stykkishólmi. Hún hafi séð það vel á dögunum þegar hún komst aðeins frá og skrapp til Reykjavíkur og einnig fór hún um það leyti í aðra ferð til tann- læknis í Ólafsvík. „Það var gott veður hérna í bæði skiptin, en fór svo að þykkna upp og rigna þeg- ar ég kom bæði til borgarinnar og Ólafsvíkur. Reyndar hefur verið ansi lítil sól hérna í sumar,“ seg- ir Wioletta. Hún segir að í næsta mánuði verði 19 ár liðin frá því hún kom til landsins og lengst af hefur hún búið í Stykkishólmi. „Stykkishólmur er minn staður. Ég vildi ekki búa annars staðar,“ segir Wioletta. Skemmtilegt en mjög bindandi Þegar Wioletta er spurð hvernig það hafi orsakast að hún tók við starfi veðurathugunarmanns í Stykkis- hólmi, segist hún hafa séð starfið auglýst. „Þetta er ofsalega góð og skemmtileg vinna en reyndar mjög bindandi. Þetta hentar mér ágæt- lega, ekki síst var það þannig þeg- ar ég byrjaði fyrir sjö árum, því þá var ég hvort eð er bundin heima yfir börnunum. Þröstur maðurinn minn hefur komið á móti mér í þessu þeg- ar hann hefur verið heima í fríum en ég sá hann nú lítið í sumar þeg- ar hann var á sínum báti á makríln- um,“ segir Wioletta. Veðurathug- unum er sinnt átta sinnum á sólar- hring, á þriggja tíma fresti. „Þetta er ansi töff hjá mér á skólatímanum hjá krökkunum, þegar ég tek veðrið um miðnættið og síðan klukkan þrjú um nóttina og sex um morguninn. Síð- an þarf ég að vakna með krökkunum í skólann klukkan hálf átta.“ Oft litabrigði í skýjunum Veðurathugunarmaðurinn þarf auk þess að lesa á mæla með úrkomu og vindstyrk og meta skýjafar og skyggni. Wioletta segir að það sé ekki stórmál að meta hvort skýj- að er eða hálfskýjað. Verra væri að meta skyggnið svo sem lengd þess í hundruðum metra eins og oft heyr- ist í veðurskeytum. „Það er sér- staklega á nóttunni sem það getur reynst erfitt. Maður reynir að miða skyggni við fjöllin hérna í nágrenn- inu en í hríðarkófi yfir veturinn er ekki gott að gefa upp tölur um það,“ segir Wioletta. Hún segist stund- um gefa sér góðan tíma til að taka veðrið þegar himinn sé fallegur og litabrigði í skýjunum. Tunglið geti líka verið mjög fallegt ekki síst þeg- ar svokallaður halohringur er kring- um tunglið, einskonar geislabaugur. „Svo eru norðurljósin líka oft gríðar- lega falleg, þannig að oft er ég ekk- ert að flýta mér inn ef nógur tími er til að senda upplýsingarnar til Veð- urstofunnar,“ segir Wioletta. þá Wioletta Maszota sem starfar á elstu veðurathugunarstöð landsins í Stykkishólmi.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.