Læknablaðið - 15.09.2005, Qupperneq 8
RITSTJÓRNARGREINAR
Skráning krabbameina
Jóhannes
Björnsson
Höfundur er meinafræðingur
á Landspítala.
Lýðgrunduð (population-based) skráning illkynja
meinsemda er forsenda þess að fylgja megi
eftir breytingum sem verða á nýgengi krabba-
meina, þannig að meðal annars megi draga
ályktanir um orsakaþætti þessa sjúkdómaflokks.
Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags íslands var
stofnuð 10. maí 1954. Framvirk skráning ný-
greininga hófst 1. janúar 1955, og hafa, þegar
þetta er ritað, ríflega 32.000 sjúkdómsgreiningar
verið skráðar. Heimtur og nákvæmni í skráningu
krabbameina hérlendis eru af augljósum ástæð-
um auðveldari en víðast hvar annars staðar, en
árlega nýgreinast á íslandi ríflega 1100 illkynja
meinsemdir. Skilgreining skrárinnar er um tvennt
sérstök. í fyrsta lagi er þeirri reglu fylgt, eins og
víðast annars staðar, að grunnfrumukrabbamein
(carcinoma basocellulare) í húð eru ekki skráð, en
gróflega áætlað greinast rúmlega 200 þessara æxla
hérlendis á ári hverju. Vafalaust má deila um þessa
ráðstöfun, en sárasjaldgæft er að æxli þessarar
gerðar meinverpist, þótt slíkt sé þekkt. í öðru lagi
hefur Krabbameinsskrá KI frá upphafi tekið með
góðkynja æxli í heilabúi, þar með talið heilabast-
æxli (meningioma), en á íslandi greinast árlega
um það bil 20 sjúklingar með æxli þeirrar gerðar.
Margar erlendar krabbameinsskrár fara eins að.
Rétt er að hafa þessar tvær undantekningar í huga
þegar rætt er um tölfræði krabbameina á íslandi
en þær breyta þó engu um innihald og notagildi
skrárinnar.
Auk nokkurn veginn fullkominna heimta er
íslenzka krabbameinsskráin að ýmsu leyti sér-
lega vönduð. Vefjagreiningar liggja að baki
meira en 95% færslna í skrána, en það er hærra
hlutfall en annars staðar. Sérmenntað starfslið
skrárinnar fer yfir hverja sjúkdómsgreiningu og
viðkomandi vefjasýni eru endurskoðuð ef þurfa
þykir. Krabbameinsskráin er að auki unnin í nánu
samstarfi við Landlæknisembættið og Hagstofu
íslands, sem sér um færslu dánarvottorða. I ljósi
alls þessa er óhætt að fullyrða, að íslenzka krabba-
meinsskráin sé óvenju nákværn og fullkomin.
Notagildi hennar er augljóst, sérlega þegar kann-
aðar eru nýgengisbreytingar í rás tímans, en þær
tengjast aftur orsaka- eða umhverfisþáttum, sem
oft geta verið torræðir. Má þannig nefna til aukna
tíðni sortuæxla (malignant melanoma) meðal
íslenzkra flugmanna þar sem ástæðurnar virðast
engan veginn augljósar (1). Sömuleiðis hnikun
innan æxlisflokka, til dæmis þá staðreynd, að hlut-
fall Hodgkin’s sjúkdóms af eitilsarkmeinum (mal-
ignant lymphoma) hefur farið stöðugt lækkandi
hérlendis undanfarna tvo áratugi (2). Samkeyrsla
ættargrunna við Krabbameinsskrá hefur og leitt í
ljós ættarknippun krabbameina sem hingað til hafa
talizt með öllu óskyldir sjúkdómar (3).
Krabbameinsskrá varð fimmtug árið 2004. í
tilefni þess gaf Krabbameinsfélag íslands út, og
hefur til sölu, ritið Krabbamein á Islandi, sem
Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir Krabba-
meinsskrár, og Laufey Tryggvadóttir framkvæmda-
stjóri ritstýrðu. Auk þess að rekja sögu krabba-
meinsskráa á Islandi og annars staðar, fjallar ritið
um aðferðafræði við krabbameinsskráningu, töl-
fræðinotkun og svo framvegis. Sá hluti bókarinnar
er þó athyglisverðastur sem tekur til mismunandi
æxlishópa, flokkaðra eftir upprunalíffæri. Hér er
fyrir hvern æxlisflokk fjallað um æxlið sjálft, orsak-
ir og áhættuþætti, einkenni, greiningu og meðferð.
Sömuleiðis eru tilfærðar tíðnitölur, þar með talið
nýgengi, dánartíðni og 5 ára horfur. Framsetningin
er einföld og auðskilin, þannig að leikmenn geta
lesið þennan hluta bókarinnar sér til gagns. Engu
að síður er hvergi hnikað frá fræðilegri nákvæmni.
Sá sem þetta ritar nýtir sér þessa bók í daglegu
starfi og hikar ekki við að mæla með henni við
alla lækna, því öll komum við með einhverjum
hætti að greiningu, meðferð og umönnun krabba-
meinsveiks fólks. Þótt bókin nýtist helzt læknum
og starfsliði annarra heilbrigðisstétta, er óhætt að
mæla með henni til almenningsfræðslu. Rétt er
þó að hafa ætíð í huga þann fyrirvara, að tölfræði
tekur til hópa sjúklinga, en sjúkdóm hvers og eins,
þar með taldar horfur, verður að túlka með tilliti til
hvers sjúklings og sjúkdóms hans.
Heimildir
1. Rafnsson V, Hrafnkelsson J, Tulinius H. Incidence of cancer
among commerical airline pilots. Occup Environ Med 2000; 57:
175-9.
2. Agnarsson BA. Non-Hodgkin’s lymphoma og Hodgkin’s
sjúkdómur á fslandi 1989-1997. Tíðni og dreifing æxla.
(Ráðstefna SKI um krabbameinsrannsóknir á Islandi, 20.-21.
marz 1998.)
3. Amundadottir LT, Thorvaldsson S, Gudbjartsson DF, Sulem
P, Kristjansson K. Gulcher JR. et al. Cancer as a Complex
Phenotype: Pattern of Cancer Distribution within and beyond
the Nuclear Family. PLoS Med 2004; 1:229-36.
644 Læknablaðið 2005/91