Fréttatíminn


Fréttatíminn - 24.04.2015, Page 30

Fréttatíminn - 24.04.2015, Page 30
Vorkoman 2045 P Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri, er kominn á tíræðisaldur – en ern vel og enn er til hans leitað sem eins helsta sérfræðings í veðurfari – ekki síst þegar hugað er að framtíðarspám. Veðurfar nýliðins vetrar hefur verið einkar leiðinlegt. Þegar slíkt gerist í kjölfar tveggja rigningarsumra, að minnsta kosti sunnan heiða, setur það mark sitt á lundarfar fólks. Ekki skán- aði það þegar Páll, af hyggjuviti sínu og lærdómi, sagði í viðtali við Fréttatímann nýverið að sennilega væri 30 ára hlýinda- skeiði að ljúka og við á leiðinni inn í jafn langt kuldaskeið. Léttan hroll setur jafn- vel að bjartsýnustu mönnum við þá til- hugsun að það vori hér á landi á ný árið 2045, eða þar um bil. Annar virtur og margreyndur veður- fræðingur, Trausti Jónsson, benti hríð- skjálfandi löndum sínum á það, á veður- bloggsíðu sinni í vikubyrjun, að svala loftið sem hefur leikið um okkur í vetur hafi aðallega verið ættað frá Kanada. Nú í sumarbyrjun bregði hins vegar svo við að norrænn kuldi sæki að okkur, beint úr Norður-Íshafinu. Á þessum árstíma geti kuldapollar í norðurhöfum tekið á rás suð- ur á bóginn, stundum til okkar, stundum til Skandinavíu eða eitthvert annað. Veturinn kveður okkur því með sínu lagi og sumarið fagnar okkur með norðanátt og frosti. Ekki líst öllum vel á byrjunina og blogg- viðmælandi Trausta segir ósköp einfald- lega um veðráttuna nú að hún fari að slá út vorhretið 1963, sem hafi verið upphafið að kuldaskeiði – væntanlega til þrjátíu ára. „Það skyldi þó ekki vera að spá Páls Berg- þórssonar skuli vera að ganga eftir,“ bætir maðurinn við. Ég man eftir þessu fræga óveðri sem skall á 9. apríl 1963, þá á ellefta ári, al- ræmdasta páskahreti síðari áratuga. Þá ruddist heimskautaloft suður með Græn- landsströnd hingað til lands með hörku- frosti og stormi en blíða hafði verið dagana á undan. Gróður hafði tekið vel við sér en fór illa. Ég fann nokkuð fyrir því vegna þess að nokkru áður hafði ég haft frum- kvæði að aspakaupum á mínu bernsku- heimili. Aspir voru þá nokkur nýlunda í íslensku umhverfi en Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, hafði haft forgöngu um innflutning aspa eða aspa- fræja frá Alaska. Þessi tré spruttu hraðar en önnur og það vakti athygli mína, þótt ungur væri að árum. Því vildi ég eignast ösp og gróðursetja í okkar garði. Foreldrar mínir létu þetta eftir mér og úr varð að þeir keyptu eina ösp handa hverju okkar systkinanna sem gróðursettar voru í garðinum heima. A s p i r n a r t ók u vel við sér og spruttu upp bein- vaxnar og fagr- ar, að minnsta kosti að mati hins unga áhugamanns um skógrækt. Erlendur uppruni aspanna kom þeim hins vegar í koll í þessu alræmda hreti. Birkið hafði vara á sér, þekkti duttlunga íslensks veðurfars og beið eftir raun- verulegu vori. Aspirnar þutu hins vegar af stað í blíðunni en fengu heldur betur á baukinn. Þær kól niður í rót. Þar með taldi ég að skógræktarátaki mínu væri lokið en, merkilegt nokk, aspirnar lifnuðu við á ný. Mín varð hins veg- ar tvístofna í kjölfar áhlaupsins. Aspir hafa síðan vakið upp ýmsar kenndir. Þær virðast hafa lært á íslenskt veðurfar en vaxa enn miklu hraðar en önnur tré í íslenskri mold – og geta stofnar þeirra orðið gildir og laufkrón- ur miklar, auk þess sem ræturnar skjóta sér út um allt. Þessi hraði vöxtur gleður ákafamenn í skógrækt en veldur öðrum ókæti. Reynslan hefur sýnt að aspir eiga illa við í görðum þéttbýlisins, skyggja á sól hjá nágrönnum þeirra sem leyfa ris- unum að vaxa, auk þess sem rætur stærstu ófreskjanna lyfta gangstéttarhellum og malbiki. Runnar af ýmsum gerðum henta því betur á mörkum þéttbýlislóða en hin hávöxnu tré, en aspirnar hafa sannað gildi sitt í sveitum landsins þar sem pláss er nóg og þörf er á skjólbeltum fyrir annan og við- kvæmari gróður. En aftur að sumrinu sem byrjaði í gær. Það var svo sannarlega íslenskt. Hann var að norðan og það var kalt, víða él og vægt frost, þó skárra á suðurhelmingi landsins en þeim nyrðri. Lærin á skátunum voru því blá og herkja í munnvikum lúðrasveit- arbarna. Blöðrubólga er því óhjákvæmi- leg hjá ungu kynslóðinni og hætta á nef- rennsli. Það jafnar sig samt, það vitum við af reynslu, þó varla um helgina því í dag, föstudag, og á morgun, laugardag, er spáð stífri norðanátt og frosti um allt land. Það verður að vísu þurrt sunnantil en annars snjókoma og él. Norðanáttin helst á sunnudag og þá snjóar fyrir norðan. Það geta ekki margar þjóðir boðið upp á svo hressilega sumarkomu og ætti vitaskuld að auglýsa slíka viðburði ytra, ókeypis lærabláma, kvef, hálsbólgu og hæsi. Enn einn veðurfræðingurinn, Haraldur Eiríksson, sagði í viðtali við Moggavefinn að svona væri vorið bara á Íslandi. „Það koma hret og vorið er ekkert alltaf komið til að vera. Ég man eftir mjög fáum vorum þar sem ekki hefur verið eitthvert hret en þetta er svona frekar í harðari kantinum sýnist manni. Þetta er bara ekta vorhret,“ sagði fræðingurinn og klykkti svo út með því að engin hlýindi væri heldur að sjá eftir helgina. „Við verðum bara að harka þetta hret af okkur,“ sagði hann. Gott hjá honum, þótt hann gangi ekki alveg eins langt og sá veðurreyndi Páll Bergþórsson sem sér vorið koma á ný það sæla framtíðarár 2045. Gangi það eftir verður pistilskrifarinn kominn á aldur við Pál nú, sem sagt yfir nírætt, þegar aftur vorar á landinu bláa. Frumburður okkar hjóna verður 72 ára það sama vor og elsta barnabarnið komið á fimmtugsaldur. Gleðilegt sumar! Jónas Haraldsson jonas@ frettatiminn.is HELGARPISTILL Te ik ni ng /H ar i Bíldshöfða 18 - 110 Reykjavík - sími: 557 9510 - www.patti.is Opið virka daga kl. 10-18 laugard. 11-16 Torino Rín ÍSLENSKIR SÓFAR SNIÐNIR AÐ ÞÍNUM ÞÖRFUM Mósel Kansas Basel Nevada Roma SKRÁÐU ÞIG Á PÓSTLISTANN HJÁ OKKUR OG FÁÐU 50 ÞÚSUND KR INNEIGN SENDA MEÐ TÖLVUPÓSTI GJAFABRÉF GJAFABRÉFATILBOÐI LÍKUR 30. APRÍL 30 viðhorf Helgin 24.-26. apríl 2015

x

Fréttatíminn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.