Ægir

Árgangur

Ægir - 01.07.2002, Blaðsíða 42

Ægir - 01.07.2002, Blaðsíða 42
42 Raja (amblyraja) radiata Tindaskata F R Ó Ð L E I K U R O G S K E M M T U N K R O S S G Á TA N Tindaskata er þunnur og flatur brjóskfiskur með stutta og snubbótta trjónu. Eyruggarnir, sem kallaðir eru börð, eru samvaxnir haus og bol og mynda þannig flata skífu. Augun eru smá og liggja ofan á haus. Aftan við þau eru innstreymisop sem tindaskatan andar inn um og spýtir svo sjónum út um fimm tálknaop sem eru hvoru megin neðan á skífunni. Þar eru einnig nasaop og smár kjaftur. Á skoltum eru margar og smáar tennur í röðum. Kviðuggar eru allangir og hjá hængum eru þeir ummyndaðir í svokallaða göndla eða sáðrennur. Stirtlan myndar eins konar hala og á honum eru tveir smáir bakuggar og lítil sporð- blaðka. Tindaskatan er mógrá á lit með ljósum eða dökkum blettum að ofan en ljós að neðan. Hún er slétt að neðan en að ofan er hún hrufótt af smá- um og stórum göddum sem eru með geislagáróttan fót og afturstæðan hvassan odd. Á bakinu og á halanum er röð af 12-19 göddum. Einnig eru gaddar í kringum augun og utan til á baki. Tindaskata getur orðið um 100 cm að stærð en algengust er hún 40- 70 cm löng. Lengsta tindaskata sem mælst hefur hér við land var 100 cm. Heimkynni tindaskötu er beggja vegna Norður-Atlantshafsins. Hún er frá Svalbarða í Barentshafi og Hvítahafi meðfram strönd Noregs og allt að Eystrasalti. Hún er í Norðursjó, við Bretlandseyjar suður að Ermasundi og við Færeyjar. Hún er algeng við Suður-Grænland og við Norðaustur-Ameríku allt suður til Bandaríkjanna. Einnig hefur hún fundist við Suður-Afríku. Tindaskata er hér allt í kringum landið, bæði grunnt og djúpt, og er hún langalgengasta skötu- og brjóskfisktegund á Íslandsmiðum. Hún er botnfiskur og er oftast á 30-200 metra dýpi. Hún finnst þó oft á meira dýpi og er oftast dýpra á veturna en sumrin. Hún heldur sig mest við sand- og leirbotn. Sennilega vex tindaskatan hægt en talið er að hún geti náð að minnsta kosti 20 ára aldri. Hún étur aðallega alls kyns botndýr svo sem burstaorma, krabbadýr og skeldýr, en einnig ét- ur hún smáfiska eins og sand- og marsíli. Tindaskatan gýtur eggjum, svokölluðum pétursskipum, sem eru 4- 6,5 cm löng og 2,5 cm breið og með hornum eða þráðum sem festa þau við botninn eftir gotið. Nokkrum mánuðum áður hafa hængarnir frjóvgað eggin í hrygnunum. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær á árinu þessum eggjum er gotið en hugsanlega allt árið um kring. Hámarki er þó náð að sumri. Seiðin skríða svo úr eggjunum 9-11 cm löng. Lítið hefur verið veitt af tindaskötu, þó meira seinni árin, aðallega vegna skorts á skötu undanfarin ár og hefur tindaskatan verið nýtt í hennar stað. Reynt hefur verið að koma henni í verð á erlendum mörk- uðum. Tindaskata veiðist sem aukaafli í dragnót, á línu, í net og í botn- vörpu.

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.