Ægir

Volume

Ægir - 01.02.2013, Page 12

Ægir - 01.02.2013, Page 12
12 S J A L D G Æ F I R F I S K A R Bleikmjóri, Lycodes luetkeni Í júní veiddi Hrafn Sveinbjarnarson GK stærsta bleikmjóra sem frést hefur af við landið til þessa. Hann veiddist í botnvörpu á 420 m dýpi í Seyðisfjarðardjúpi (65°25’N - 11°35’V) og mældist 66 cm langur. Bleikmjóri er djúp- og botnfiskur í köldum sjó norðurhafa. Hann veiddist fyrst við Ísland, svo vitað sé, árið 1995, en nokkrir hafa veiðst síðan, allir í kalda sjónum norður og austur af landinu á 420-970 m dýpi. Svarthveðnir, Centrolophus niger Svarthveðnis varð vart við landið, m.a. veiddi Kleifaberg ÓF nokkra slíka í flotvörpu við makrílveiðar suður af Selvogs- banka. Þá veiddust tveir í botnvörpu á djúpkantinum vestur af landinu. Svarthveðnir er úthafs- og miðsævisfiskur sem flækist víða. Hann hefur veiðst víða í Atlantshafi, Kyrrahafi og Ind- landshafi allt frá yfirborðssjó og niður á 550 m dýpi og jafnvel dýpra. Við Ísland hefur hann veiðst allt frá austurmiðum suður á Íslands-Færeyjahrygg og vestur með Suðurlandi og allt vestur á Halamið. Bretahveðnir Schedophilus medusophagus Slæðingur af bretahveðni fékkst einnig við flotvörpuveiðar á makríl. Fréttist af honum bæði fyrir sunnan og vestan land. Bretahveðnir og svarthveðnir eru nokkuð áþekkir í útliti, þó er tiltölulega auðvelt að greina þá í sundur. Bretahveðnir er brún- leitur á baki meðan svarthveðnir er svartleitur, en vegna þess að fiskar veiddir í troll eru oft orðnir snjáðir, þá sést upphafleg- ur litur stundum ekki. Hins vegar er upphaf bakugga auðsætt kennileiti til að greina tegundirnar sundur. Á bretahveðni byrj- ar bakuggi fram á haus, vel framan við rætur eyrugga, en á svarthveðni byrjar hann aftan við eða á móts við eyruggarætur. Flundra, Platichthys flesus Í mars veiddi Hera ÞH flundru í dragnót á Skjálfanda (66°02’ N - 17°40’ V). Þetta var 32 cm langur hængur og 5 ára gamall. Flundran hefur verið að breiðast út smátt og smátt við landið, en ekki hefur frést af henni svo austarlega við Norðurland fyrr. Stórfiskar Hér á eftir er gerð grein fyrir nokkrum óvenju stórum fiskum sem fréttist af á árinu 2011. Hlýri, Anarhichas minor Páll Pálsson ÍS veiddi risahlýra á Halanum í september. Hann mældist 153 cm langur og 43 kg að þyngd slægður. Þetta er stærsti hlýri sem frést hefur af á Íslandsmiðum, sá næst stærsti var 144 cm og 31 kg á þyngd slægður. Hann veiddist í humar- vörpu á um 200 m dýpi á mörkum Lónsdjúps og Stokksnes- grunns í maí árið 2003. Í mars árið 1992 veiddist 142 cm hlýri á Papagrunni. Lúða, Hippoglossus hippoglossus Kleifaberg ÓF veiddi í desember risalúðu í Lónsdjúpi (63°38’ N - 14°40’ V ). Hún var 258 cm löng og vó 198 kg slægð. Svona stórar lúður eru fáséðar í dag, en á Íslandi er kunnugt um lúðu sem var 365 cm löng og 266 kg þung. Hún veiddist við norðanvert landið sumarið 1935. Hryggleysingjar Nornakrabbi Paromola cuvieri Ísak AK fékk nornakrabba í skötuselsnet á norðanverðum Faxaflóa (64°36.7’ N, 23°19.7’ V) í ágúst. Nornakrabbi er tegund sem lifir í austanverðu Norður Atlantshafi og Miðjarðarhafi, frá Angóla í suðri og norður til norðurhluta Norðursjávar á 10-1000 m dýpi. Við Ísland veiddist þessi krabbi fyrst á fjórða áratug síðustu aldar, en hans verð ekki aftur vart fyrr en 2003. Síðan þá hafa nokkur eintök veiðst undan suðurströnd landsins. Allmargar sjaldséðar tegundir veiddust í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Flestar tegundirnar veiddust á djúpslóð í haustralli og úthafskarfaleiðangri og eru þessar helstar: Slímáll (Myxine jespersenae), stuttnefur (Hydrolagus affinis), digurnefur (Hydrolagus mirabilis), langnefur (Harriotta raleighana), hvítaskata (Raja lintea), fjölbroddabakur (Polyacanthonotus rissoanus), skriðáll (Derichthys serpentinus), slétthaus (Bajacalifornia megalops), bersnati (Xenodermichthys copei), norræni silfurfiskur (Argyropelecus olfersi), broddatanni (Borostomias antarcticus), marsnákur (Stomias boa ferox), kolbíldur (Malacosteus niger), uggi (Scopelosaurus lepidus), trjónuhali (Caelorinchus caelorhincus), mjóhali (Coryphaenoides brevibarbis), loðhali (Coryphaenoides mediterraneus), svartdjöfull (Melanocetus johnsonii), surtur (Cryptopsaras couesii), trjónunefur (Gigantactis vanhoeffeni), bjúgtanni (Anoplogaster cornuta), úthafssogfiskur (Paraliparis bathybius), ennisfiskur (Platyberyx opalescens), bleikmjóri (Lycodes luetkeni) og nafnlausi mjóri (Lycodes squamiventer). Í öðrum leiðöngrum veiddust einnig sjaldséðar tegundir eins og t.d. fuðriskill (Icelus bicornis), guli brandáll (Gymnelus retrodorsalis), blettaálbrosma (Lycenchelys kolthoffi), álbrosma (Lycenchelys muraena), aurláki (Lycodonus flagellicauda), kambhríslungur (Chirolophis ascanii), flekkjaglitnir (Callionymus maculatus) og litli flóki (Phrynorhombus norvegicus). Þá veiddist dílakjafta (Lepidorhombus boschii) í humarleiðangri, líkt og verið hefur undanfarin ár. Helstu heimildir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. 2006. Íslenskir fiskar. Edda, Reykjavík. 336 bls. Saldanha, L. & M.L. Bauchot. 1986. Synaphobranchidae. Í: Fishes of the North-eastern Atlantic and the Mediterranean. 2: 586-592 Bleikmjóri sem Hrafn Sveinbjarnarson GK veiddi í Seyðisfjarðardjúpi.

x

Ægir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.