Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Blaðsíða 11
Eftirmáli við Raunir Werthers
uppreisnaranda sem lá í loftinu og átti eftir að brjótast út í stjórnarbylting-
unni frönsku tæpum tveim áratugum síðar. í bókinni um Werther unga er
einmitt sýnt, hvernig söguhetjan gefur tilfinningasemi sinni lausan tauminn,
þannig að leiðir til árekstra við ríkjandi aðstæður og að lokum á rökréttan
og sannfærandi hátt til sjálfsmorðs og flótta úr þessum heimi allra heima.
Þessi endalok voru að sjálfsögðu ekki litin hýru auga af kirkjulegum
yfirvöldum, sem álitu þess háttar framferði höfuðsynd, og raunar höfðu
einnig veraldleg yfirvöld sitthvað við það að athuga, ekki síst eftir að
æskumenn, sem þóttust standa í sömu sporum og Werther, fóru að taka
hann sér til fyrirmyndar og stytta sér aldur. Þetta leiddi jafnvel til þess, að
bókin var bönnuð í vissum löndum, því yfirvöldum hefur sjálfsagt þótt það
sæmra ungum mönnum að falla í valinn á vígvellinum en í einhverju pukri í
stofunni heima hjá sér og það fyrir eigin hendi.
En öllum þeim sem þannig létu lífið fyrir aldur fram að hætti Werthers
hefur bersýnilega gleymst sú staðreynd að höfundur hans, Johann Wolf-
gang Goethe, var sjálfur sprelllifandi og meira að segja á uppleið fremur en
hitt og auðsjáanlega ekkert á því að sýna það í verki að hann ætti við sömu
harmkvæli að stríða og söguhetja hans. Að vísu gefur hann það í skyn síðar,
í sjálfsævisögu sinni, að hann hafi sjálfur verið kominn á fremsta hlunn með
að fylgja fordæmi Werthers: „Meðal gripa í álitlegu vopnasafni, sem ég átti í
eigu minni, var verðmætur, flugbeittur rýtingur. Eg var vanur að leggja
hann við hliðina á rúmi mínu, áður en ég slökkti ljósið og vildi gá að því
hvort ég gæti stungið oddinum nokkra þumlunga inn í brjóst mitt. En mér
tókst það aldrei og endaði með því að hlæja að sjálfum mér og bægja á brott
öllum hugarórum, og ákvað að lifa.“3 En til þess að bægja þessum órum frá
að fullu þurfti meira, og þar kom einmitt skáldgáfa Goethes í góðar þarfir,
því með Werther má segja að hann hafi skrifað sig frá ástarraunum er
stríddu á huga hans. Honum fannst því að vonum skjóta skökku við að bók,
sem varð honum að einhverju leyti lífgjafi, skyldi verða öðrum hvatning í
öfuga átt. Enda kemur það og lítt heim við góðar og gildar aristótelískar
kenningar um þann hugarlétti og útrás sem tragískur skáldskapur á að veita
áheyrendum eða lesendum — eða hafði þá Platon þrátt fyrir allt á réttu að
standa, þegar hann taldi skáldskapinn skaðlegan og óalandi, með því að
hann æsti upp tilfinningar manna í stað þess að sefa þær?
Bókin um Werthers raunir gerði meira en að létta tilfinningum af Goethe,
hún varð og til þess að afla honum frægðar og veraldargengis og beina lífi
hans á brautir sem hlutu að leiða hann frá allri sjálfshyggju og slæpingshætti
sem einkenndi söguhetju hans Werther hinn unga. Við stjórnsýslu sína,
ritstörf og fræðiiðkanir í Weimar við hirð Karls Agústs hertoga tók hann
stefnu í öfuga átt við Werther og varð sýnu langlífari en hann, ekki einungis
409