Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Blaðsíða 37
Ævintýr af Eggerti Glóa
þetta skyldi ég fá á hvurjum degi, því ég væri ekki annað en
ónytjungur.
Alla nóttina var ég að gráta, mér fannst ég vera svo munaðarlaus,
ég kenndi svo í brjóst’ um mig, að ég vildi deyja. Ég kveið fyrir
birtingunni, ég vissi ekki neitt hvað ég skyldi taka til bragðs; ég
óskaði mér allrar lagni sem til er, og skildi ekkert í, hvursvegna ég var
fáráðari en önnur börn sem ég þekkti. Mér lá þá við að örvinglast.
Þegar dagur ljómaði, fór ég á fætur og lauk upp hurðinni fyrir
kotinu næstum því óafvitandi. Eg var óðara komin útí haga og þaðan
í skóg, sem varla var farið að birta í. Ég hljóp það sem aftók, og leit
ekki til baka; ég fann ekki til þreytu, því ég hélt einlægt, að faðir
minn mundi ná mér aftur, og verða enn harðari við mig fyrir það ég
hafði strokið.
Þegar ég kom út úr skóginum aftur, var sólin þegar hátt á lofti; þá
sá ég eitthvað dökkleitt fram undan mér, og þar yfir dimma þoku.
Ymist varð ég að klifrast yfir hóla eða krækja milli kletta, og réði ég
nú í, að ég yrði að vera komin upp í fjall, og fór að verða hrædd að
vera þarna ein; því niðrá láglendinu hafði ég aldrei séð fjall, og ef ég
heyrði fjall nefnt, þótti mér það voðalegt orð. Eg hafði ekki hug til að
snúa aftur, heldur hélt ég áfram af tómri hræðslu. Einatt hrökk ég
saman og leit til baka þegar vindurinn þaut í trjánum yfir mér eða
viðarhögg heyrðist langt að í morgunkyrrðinni. Þegar kolamenn og
námufólk mættu mér og ég heyrði ókunnugt málfæri, var nærri liðið
yfir mig af ótta.
Þér fyrirgefið hvað ég er langorð; hvurt sinn að ég tala um þessa
sögu verð ég málóð á móti vilja mínum, og Eggert, sá eini maður sem
ég hef sagt hana, hefir komið mér uppá það með sinni eftirtekt.
Ég kom í nokkur þorp og beiddi að gefa mér, því ég var orðin svöng
og þyrst; þegar ég var spurð, leysti ég úr því nokkurnveginn. Svona
hafði ég haldið áfram eitthvað fjóra daga, og kom nú á dálitla afgötu,
sem leiddi mig alltaf lengra og lengra útaf aðalveginum. Klettarnir í
kringum mig fóru að verða öðruvísi, og miklu undarlegri en áður.
Þeim var hrúgað hvurjum ofaná annan, og litu út einsog fyrsti
vindbylur myndi feykja þeim í sundur. Ég vissi ekki hvurt ég átti að
fara lengra. Ég hafði alltaf sofið í skóginum á næturnar, því það var
um há-sumar; hér fann ég alls öngvar mannabyggðir, og bjóst ekki
heldur við því í þessum óbyggðum. Klettarnir voru alltaf að verða
435