Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Side 52
Tímarit Máls og menningar
innihaldi sem er og getur rúmað takmarkalausar andstæður. Undir merkjum
hennar hófu menn snillinga á stalla og trúðu að öll frumleg sköpun væri
þeirra verk. En menn söfnuðu líka vísum og barnalegum sögum sem al-
þýðukerlingar kunnu, og kölluðu þjóðardýrgripi. Stundum gekk róman-
tíkin í þjónustu svartasta íhalds og einveldis. Stundum var hún afl í róttækri
lýðræðisbaráttu. Rómantísk skáld kveða bæði lífinu og dauðanum lof. Jónas
Hallgrímsson segir:
nú hef ég sjóinn séð um hríð
og sílalætin smá og tíð; —
munurinn raunar enginn er,
því allt um lífið vitni ber.
En um svipað leyti yrkir Grímur Thomsen:
Háum helst und öldum,
hafs á botni köldum,
vil ég lúinn leggja bein,
á hálu hvílast þangi
í hörðum sjávargangi,
undir höfði unnarstein.
Hið barnalegasta sakleysi er kallað rómantískt, en glæpasagan og hroll-
vekjan eru líka afsprengi rómantísku stefnunnar í bókmenntum.
II.
Þegar maður skilgreinir hugtakið rómantík svona vítt, þá er til lítils að nota
það nema í ákveðnu sögulegu samhengi. Rómantísk skáld ákveðins tíma
beita vissum listrænum vinnubrögðum (sem öðrum er ætlað að fjalla um í
þessu hefti) og rómantískar tilfinningar leita í ákveðnar áttir eftir aðstæðum.
Enski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm fjallar nokkuð rækilega um róm-
antík í Evrópusögu sinni 1789—1848, The Age of Revolution. Hann byrjar
að vísu á að viðurkenna að það sé erfitt að höndla rómantíkina og segja hvað
hún vildi. Samt efi enginn að hún hafi verið til, sjálfsörugg og herská
hreyfing í listum Evrópu og Norður-Ameríku á fyrri hluta 19. aldar.
Eiginlega er auðveldara að segja hvað rómantíkin vildi ekki, segir Hobs-
bawm, hún vildi ekkert miðjumoð. Hvert sem innihald hennar var, var hún
róttæk og öfgafull. Þó freistast Hobsbawm til þess að þrengja hringinn um
rómantíkina ofan í það að segja að þrennt hafi rómantíkusar einkum dýrkað
á því skeiði sem hann fjallar um: miðaldir, frumstætt mannlíf og stjórn-
arbyltinguna miklu í Frakklandi 1789.
450