Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Blaðsíða 78
Tímarit Máls og menningar
eðli mannlegrar skynjunar. Því býður hann líka þeim þátttakanda sem að
utan kemur, lesandanum, miklu fleiri möguleika á túlkun en sú orðræða
sem leitast við að vera einræð.
Varla getur skáldskap sem lætur minna yfir sér en náttúrulýrík; stundum
svo hrein að hún virðist einföldust alls — og öfugt. Fullkomnar að léttleika
eru margar japanskar tönkur og hækur:
Létt stigin fótspor
í sandinn á sjávarströnd
— langur vordagur.7
Vegna hinnar táknbundnu skynjunar mannsins er slíkt ljóð ekki endilega
náttúruljóð í merkingunni mynd náttúrunnar, stundum kannski allt annað
frekar, margvíslegrar merkingar. I táknmynd þess sem er honum nákomnast
er það vitnisburður manns um veruleika sinn, gert úr tilfinningum hans,
reynslu, stund hans og stað, öllu sem er hann. Jafnvel náttúrujjóð sem
túlkuð eru sem svo að náttúran sé beinlínis gerð að yrkisefni varða ekki hina
ytri náttúru sjálfa eða mynd hennar eina heldur renna maður og náttúra
saman í þeim, þau eru maðurinn í náttúrunni, eiginlega landslag hugar hans.
Náttúrulýrík einkennir mjög skáldskap Einars Braga. í samræmi við það
að í skáldskap eru raunveruleikatákn mannsins látin magnast upp og
myndbreytast kemur gjarnan í ljós í náttúru Einars annarlegur heimur, e. k.
abstrakt tímalaus kyrrleiki. Af þessu tagi eru t. d. „Landslag í Öræfum“
(82), „Við kvöldmál" (85) og „Þegar náttar“ (91). í „Stefi“ (75) bergmálar
margfalt frá raunveruleika um tákn og ljóð til lesanda sem kann að nema
aðeins fjarlægan óm af því sem orðin vísa til, náttúran orðin eitthvað allt
annað í vitund hans; fljót í fljóti í fljóti í fljóti:
Kvöldsnekkja snjóhvít.
Snortið oddrauðum vængjum
silfurfljót svefnhljótt.
Sytrandi dropum telur
eilífðin stundir okkar.
og sólin gistir
mig aftur
Einmitt af því að náttúruljóð eru ævinlega dularfullir samfundir manns og
náttúru vísa þau ákveðnar til samfélagsins en látleysi þeirra gefur til kynna. I
ljóðum Einars Braga er náttúran oftast friðsæl og falleg — góð:
476