Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Side 102
Ingunn Ásdísardóttir
Yfirlit
yfir íslensk atvinnuleikhús á liðnu leikári
Leiklist á Islandi hefur blómgast mjög síðari árin. Umfjöllun um hana er þó
að mestu bundin við dagblöð, þar sem aðallega er fjallað um einstök verk og
einstaklinga innan leiklistarinnar. Umfjöllun í hvaða formi sem hún birtist
er af hinu góða en yfirlitsgrein eða samantekt eins og þessari grein er ætlað
að vera, tel ég tímabæra á þessum uppgangstímum. Slík grein er jafnframt
vettvangur fyrir vangaveltur um eðli listgreinarinnar og hlutverk og hvernig
leiklistin í landinu er sett gagnvart þessum hugtökum.
Listin er spegill þjóðar sinnar og samtíðar, — hver listgrein hefur sinn
tjáningarmáta og form, en allar eiga þær grundvöll sinn í samfélaginu sem
elur þær. Leikhúsið er þó líklega sá miðill sem kemst því næst að sameina
hinar ýmsu listgreinar í eina heild, þar sem hver og ein fær að njóta sín um
leið og hún lyftir hinum í hærri hæðir. Þannig gefur tónlist í leiksýningu leik
leikarans, leikmynd myndlistarmannsins og ljósum ljósahönnuðarins mikið
gildi, — leikmyndin gerir hið sama fyrir tónlistina, ljósin og leikinn, og
þannig áfram allan hringinn. Hver er öðrum háður og þegar vel tekst til er
órjúfanlegt samræmi milli allra hinna ýmsu þátta leiksýningarinnar. Og allt
er þetta gert fyrir leikritið sem er umgjörð og undirstaða í senn.
Leikhús verður fyrir áhrifum af andlegum og tæknilegum hræringum
samtíðarinnar jafnframt því að geta moðað úr því sem fortíðin hefur gefið
gegnum aldirnar. Leikhúsið tekur mið af öllum nýjungum, á sviði tækni,
vísinda eða andlegra afreka og fjallar um þær og þannig að áhorfandinn hafi
nautn af.
Þá erum við komin að spurningunni hvert sé hlutverk leikhúss.
Að mínu mati er helsta hlutverk leikhúss að veita njótandanum þá nautn
sem hann sækist eftir þegar hann kemur í leikhúsið. Sú nautn getur verið
margs konar en þó held ég að grundvallaratriðið sé að hún snerti áhorfand-
ann/njótandann tilfinningalega. Hann hrífst. Leiksýning hrífur hann með
sér upp í hæstu hæðir gleðinnar eða niður í dýpstu lægðir sorgarinnar,
snertir yfirborðskennda skemmtanafíkn og innstu og myrkustu taugar
mannlegs eðlis.
500