Ský - 01.10.2006, Page 47
Veiði
ský 47
öðrum brag. Enginn vafi er á því að laxagengd var miklu meiri en
nú er tíðast. Lax var í háu verði og margir veiðimenn gátu haft tekjur
af því að selja aflann og sumir höfðu vel fyrir veiðileyfunum. Eins
og menn vita er þetta allt með öðrum brag nú. Eldislax er jafnvel
ódýrari í búðunum en ýsuflök og ekki mikil spurn eftir villtum laxi,
þótt flestum þyki hann ólíkt betri. Einn af þeim sem á árum áður
höfðu drjúgar tekjur af sölu afla er Þórarinn Sigþórsson tannlæknir,
sem margir kalla „Tóta tönn“. Ekki veit ég hversu vel honum geðjast
viðurnefnið en eitthvað hefur hann þurft að hafa upp úr ánum til
þess að geta varið þann tíma sem hann stundaði ekki viðgerðir og
tanndrátt heldur dró þann silfraða á land.
Ekki bara Íslandsmeistari
Reyndar má segja að enginn komist með tærnar þar sem Þórarinn er
með hælana. Um þetta eru líka til tölur. Í æviágripi Þórarins á heima-
síðu Tannlæknafélags Íslands segir til dæmis að hann hafi dregið 812
laxa á land árið 1976! Þegar horft er til þess að laxveiðitímabilið er að
jafnaði 90 dagar er auðvelt að reikna út að hann hefur að meðaltali
landað níu löxum á dag alla daga tímabilsins. Suma daga mun veiðin
þó hafa verið miklu meiri. Á námsárunum stundaði hann laxveiði
sem sumarvinnu. Sagt er að hann hafi yfirleitt haft fyrir veiðileyfinu
á fyrsta kortérinu. Að sögn heimildarmanna hefur Þórarinn Sigþórs-
son veitt um 18.000 laxa þau ár sem hann hefur stundað veiði. Ef
reiknað er með þriggja kílóa meðalþunga eru þetta 54 tonn! Óhætt er
að segja að enginn íslenskur veiðimaður komist í hálfkvisti við þessa
veiði. Og raunar víst að enginn í heiminum hefur náð neinu í likingu
við þetta. Því er hægt að fullyrða að Tóti á ekki bara Íslandsmet í
laxveiði heldur heimsmet, þótt ekki sé það skráð. Og það sem meira
er: Engin líkindi eru til þess að þetta met verði nokkru sinni slegið.
Þar kemur margt til en kannski helst að stofn Atlantshafslaxins er
nú margfalt minni en áður var, göngur því litlar og veiði manna
takmörkuð.
Meistari og heiðursmaður
Eitt sumarið var Þórarinn við veiðar í Laxá í Kjós. Veiðivörður var
Jón Erlendsson, landskunnur veiðimaður og fluguhnýtari. Jón kast-
aði því fram við Þórarin að hann mundi gefa honum viskíflösku ef
hann næði ekki 100 löxum á þeim þrem dögum sem hann var við
veiðar. Þórarinn kvaðst á móti gefa Jóni flösku ef markið næðist. Jón
fékk viskíið. Jón segir reyndar eins og fleiri að Þórarinn sé afburða
veiðimaður, bæði ötull og prúður. Hann hafi ævinlega verið liðlegur
ef svo stóð á að koma þyrfti lánlitlum veiðimönnum á vænlega
veiðistaði og hliðrað til svo það gæti orðið. Og sögur um metveiði
Þórarins eru ótalmargar. Sjálfur er hann hlédrægur og fámáll um
þetta. En samkvæmt frásögnum áreiðanlegra manna á Þórarinn
veiðimet í mörgum helstu ám landsins. Þar má nefna Laxá á Ásum,
Laxá í Aðaldal og Laxá í Dölum. Allir sem kynnst hafa Þórarni bera
honum vel söguna. Hann er vissulega duglegur veiðimaður og gefur
aldrei eftir en jafnframt háttvís og prúður, góður veiðifélagi, heiðurs-
maður. Hann er keppnismaður enda margfaldur Íslandsmeistari í
bridge og fyrsti íslenski stórmeistarinn í þeirri íþrótt. Sumir halda
því fram að hann hafi stundum jafnvel spilað um veiðistaði í ám. En
þetta er óstaðfest.
Nýir siðir
Eins og fyrr var sagt kynntust Íslendingar fluguveiði á seinni hluta
nítjándu aldar. Það voru Bretar sem kynntu okkur þessa veiðiað-
ferð, þótt sumir þykist sjá þess stað í fornritum að forfeður okkar
hafi kunnað skil á þessu agni. Flestir Íslendingar beittu þó maðki
eða spún í viðureigninni við konung ánna. Smátt og smátt óx þó
fluguveiði ásmegin og nú er svo komið að langflestir laxar veiddir á
stöng láta ginnast af flugu. Minnkandi ganga hefur líka orðið til þess
að í flestum ám er eingöngu veitt á flugu og víða tíðkast að veiða
og sleppa. Stundum hafa fluguveiðimenn talað dólgslega til þeirra
sem veiða á maðk. Þórarinn Sigþórsson hefur ekki farið varhluta
af því, þótt allt hafi það sjálfsagt frá þeim komið sem þekkja hann
ekki nema af afspurn. En hér er ekki allt sem sýnist. Þórarinn hefur
vissulega veitt flesta laxa sína á maðk og sennilega fleiri en nokkur
annar maður. En maðkaveiði er líka íþrótt. Til þess að ná árangri
þurfa menn að þekkja vatnið og gera sér grein fyrir atferli fisksins. Í
þessu er Þórarinn afburðamaður. Og íþróttamennskan hefur komið
berlega í ljós eftir að hann lagaði sig að kröfum tímans og fór að veiða
á flugu. Hann hefur ekki náð síðri tökum á þeirri eðlu íþrótt. Má
fullyrða að hann sé einn af bestu flugumönnum landsins.
40 punda klúbburinn
Sumarið 2005 náði Þórarinn, ásamt veiðifélaga sínum Ingólfi
Ásgeirssyni, 70 löxum á þrem dögum í Norðurá. Ingólfur sagði mér
að flestum hefði verið sleppt. Þórarinn hefur líka farið til veiða í
Rússlandi í ánum Yokanga og Ponoi og gengið vel. Í sumar komst
hann svo í klúbb afburðamanna í Altaánni í Noregi þegar hann
veiddi þar fisk sem var 44 pund. Laxinn tók norska útgáfu af flug-
unni Gary dog og var sleppt að lokinni viðureigninni.
Þórarinn Sigþórsson er nú að nálgast sjötugt, hann er fæddur
í janúar 1938. Hann hefur stundað laxveiðar í meira en hálfa öld
og veitt að jafnaði um eitt tonn á ári. Og hann er ekki hættur, þótt
sjálfsagt verði aflinn ekki eins mikill og áður fyrr. Engu að síður er
ljóst að met hans verður ekki slegið. Hann er mesti laxveiðimaður
Íslandssögunnar.
Glímt við 44 pundarann.
sky
,
SK<00DD> 4.tbl 2006.indd 47 28.9.2006 10:57:51