Morgunblaðið - 15.01.2015, Page 67
67
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. JANÚAR 2015
www.ferdin.is
Alla daga - Allt árið
Páskatilboð
til Thailands
20. mars til 8. apríl 2015
Íslensk fararstjórn
Verð 495.000
Jón Agnar Ólason
jonagnar@mbl.is
„Meðal þess sem er framundan
er ákveðin áherslubreyting á eldri
áfangastað hjá okkur, sem er Costa
Del Sol,“ útskýrir Þyri. „Þar erum
við í raun að bjóða upp á fjóra
áfangastaði í staðinn fyrir einn og
um leið að dreifa fólki aðeins um
svæðið. Við höfum verið með Costa
Del Sol frá upphafi enda um að
ræða einn af okkar vinsælustu
áfangastöðum, og höfum hingað til
einbeitt okkur að Torremolinos. En
núna erum við með eina þrjá bæi til
viðbótar. Það eru Benalmadena,
Fuengirola og Marbella.“
Eins og Þyri bendir á hafa allir
þessir sumarleyfisstaðir eitthvað
sérstakt við sig og gerir úrvalið
Heimsferðum kleift að koma betur
til móts við óskir og þarfir hvers og
eins. „Benalmadena er þekkt fyrir
glæsilega snekkjubátahöfn, Puerto
Marina, og ströndin þar hefur ár
eftir ár verið valin hreinasta strönd
Evrópu. Fuengirola býður upp á
svolítið „lókal“ stemningu enda var
bærinn áður fyrr lítið sjávarþorp en
hefur þróast í líflegan og skemmti-
legan strandbæ með mikinn karakt-
er. Þar eru góðir tapas-staðir og
góð spænsk vín eru aldrei langt
undan. Marbella er svo auðvitað
heimsfrægur lúxusdvalarstaður,
þekktur til dæmis fyrir gamla bæ-
inn, sem er heillandi sambland
gamalla húsa, þröngra andalúsískra
stræta, veitingastaða, verslana og
mannlífs sem er einstakt í Evrópu,
og hina frægu snekkjubátahöfn Pu-
erto Banús, þar sem glæsilegustu
snekkjur heimsins liggja við akkeri
yfir sumartímann. Loks er það svo
gamli góði áfangastaðurinn, sjálfur
Torremolinos sem landinn þekkir
vel enda hafa Íslendingar sótt
þangað, aftur og aftur, síðan sólar-
landaferðir hófust hér af krafti á
árunum upp úr 1970.“
Marokkó heillar landann
Meðal nýrra og áhugaverðra
staða sem Heimsferðir bjóða upp á
er Agadir í Marokkó, eins og Þyri
bendir á. „Við fórum þangað í
október og erum með aðra ferð
þangað skipulagða í maí næstkom-
andi. Haustferðin sló algerlega í
gegn og sú sem farin verður í ár
verður aðeins lengri, eða 13 nætur.
Þetta er svona „einu sinni á æv-
inni“-ferð, hreinasta ævintýri sem
er ógleymanlegt öllum sem það
upplifa.“ Þyri segir aðdráttarafl
Marokkó felast einna helst í þeirri
staðreynd að þarna er um að ræða
land sem er í senn framandi og
öruggt. Hún bætir við að Agadir sé
einn þekktasti sólar-áfangastað-
urinn í Marokkó enda þjón-
ustustigið sérstaklega hátt á hót-
elunum þar og ekki spilli að fræga
fólkið hafi sótt þangað í stórum
stíl. „Þarna er allt til alls fyrir sól-
ardvalarstað, stór og breið strönd,
en það sem gerir þennan áfanga-
stað sérstakan eru andstæðurnar.
Þarna upplifir maður yndislegt frí
með góðu veðri, frábærum mat og
víni og virkilega góðum hótelum,
en um leið þarf ekki að fara langt
til að komast í beina snertingu við
marokkóska stemningu, með mörk-
uðum sem heimamenn eru svo
þekktir fyrir, úlfaldar á ferð og
annað í þeim dúr. Þetta er upplifun
í það heila sem ekki gleymist og
talsvert meiri upplifun en dæmi-
gerð ferð á sólarströnd.“ Þyri segir
ennfremur að ýmiskonar kynn-
isferðir séu í boði og gestir hafa
því val um að vera bara í rólegheit-
um á sólarströnd eða skella sér í
skemmtilega ferð til að búa til enn
fleiri minningar. Þar á meðal sé
ferð til Marrakesh, sem er að
hennar mati nánast ómissandi þeg-
ar maður er á annað borð kominn
til Marokkó. „Einhver sagði að það
að koma til Marokkó og sleppa
Marrakesh væri eins og heimsókn
til Parísar þar sem Eiffel-turninum
er sleppt,“ bætir hún við og kímir.
„Enda var það svo að í þjón-
ustukönnun sem við fram-
kvæmdum meðal viðskiptavina eft-
ir haustferðina kom í ljós að fólk
hefði alls ekki viljað missa af dags-
ferðinni til Marrakesh.“
Hin lokkandi Ljubljana
Af öðrum sumarleyfisstöðum
nefnir Þyri líka Krít og svo Tyrk-
land, þar sem Heimsferðir bjóða
upp á ferðir til Bodrum og Marm-
aris. „Við erum með margar spenn-
andi borgarferðir í vor og verðum
þar áfram með vinsælar perlur á
borð við Barcelona, Búdapest og
Prag. Þá verð ég að nefna að við
höfum verið að bjóða upp á ferðir til
Ljubljana í Slóveníu og sú borg
stendur satt að segja upp úr núna.
Það vilja bara allir fara þangað.
Yfirleitt er um þrjár eða fjórar næt-
ur að ræða og borgin hefur eig-
inlega slegið í gegn. Það hefur
spurst út að borgin er þægileg að
rata um, gamli bæjarhlutinn er gull-
fallegur, verðlag hagstætt og gott að
versla, og svo er stutt í óviðjafn-
anlega náttúrufegurð við Bled-vatn,
en fólk sem þangað hefur komið
segir einfaldlega að það sé fallegasti
staður sem það hefur séð á jarðríki.“
Ljósmynd/Wikipedia
Perla Borgin Ljubljana í Slóveníu nýtur sívaxandi vinsælda meðal Íslendinga enda borgin gullfalleg, verðlag hagstætt og stutt að fara til að skoða óviðjafnanlega fegurð við Bled-vatn.
Sól, sandur og ævintýraferðir
Costa Del Sol sýnir á sér nýjar hliðar í sumar og töfrar Marokkó eru líka í aðalhlutverki hjá Heimsferðum.
Morgunblaðið/RAX
Draumaferðir Meðal staða sem Heimsferðir bjóða upp á eru Costa Del Sol,
Agadir og Ljubljana, segir Þyrí Kristínardóttir, sölustjóri hjá Heimsferðum.