Morgunblaðið - 25.03.2015, Qupperneq 14
14 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. MARS 2015
VIÐTAL
Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
Átökin í Sýrlandi hafa nú kostað vel á
annað hundrað þúsund manns lífið á
fjórum árum, milljónir manna hafa
flúið landið og lífskjör hafa hrunið.
Fjöldi alþjóðlegra samtaka reynir
eftir mætti að lina þjáningar fólksins
og einnig hafa mörg ríki tekið við
flóttafólki. Mannúðaraðstoð getur
verið flókin í framkvæmd. Sérstök
stofnun Sameinuðu þjóðanna, Sam-
hæfingarskrifstofa aðgerða SÞ í
mannúðarmálum, OCHA, reynir að
samræma og stýra slíkum aðgerðum
á svæðum þar sem náttúran eða
menn hafa valdið hörmungum.
Á mánudag var haldin ráðstefna í
Reykjavík þar sem nokkrir liðsmenn
OCHA hittu fulltrúa frá öllum Norð-
urlöndum en þau hafa lengi verið öfl-
ugur bakhjarl OCHA. Rætt var við
Kyung-wha Kang, aðstoðarfram-
kvæmdastjóra OCHA og aðstoðar-
yfirmann samhæfingar neyðar-
hjálpar. Kang er frá Suður-Kóreu og
tók við starfi sínu 2013.
„Fjöldinn sem þarf á mannúðar-
aðstoð að halda í heiminum fer vax-
andi og því má segja að ástandið sé
að versna,“ segir Kang. „Við þurfum
stöðugt meiri peninga til að sinna
slíkum verkefnum. Núna þurfa um
100 milljónir manna aðstoð og þörf er
fyrir um 18 milljarða dollara. Allt
bendir til þess að þörfin muni verða
enn meiri á árinu vegna þess að ekk-
ert bendir til þess að lausn verði
fundin á næstunni í Sýrlandi.
Ný vandamál eru líka í augsýn og
nú tökumst við á við hamfarir vegna
fellibyljar sem skall á Vanúatú. Mikið
af vandanum er á átakasvæðum eins
og Sýrlandi, Suður-Súdan og Írak,
þetta er manngerður vandi.“
Hún segir að mörg ríki hafi heitið
framlögum, þau hafi stöðugt hækkað
en þróunin hafi gert að verkum að
þetta fé dugi ekki lengur. Í fyrra hafi
verið til peningar sem dugðu fyrir
helminginn af verkefnunum. En við
klórum okkur einhvern veginn fram
úr þessu. Stundum getur til dæmis
Matvælastofnun SÞ minnkað mat-
arskammtana eða sinnt færra fólki
en ætlunin var. En þótt við notum
þannig aðferðir er það ekki gott, við
vitum að afleiðingin er að fólk þjáist
enn meira.“
Of margar hjálparhendur
Hún segir að mörg börn í Sýrlandi
hafi orðið fyrir andlegum áföllum.
Reynt sé að sinna þeim en ekki sé
nóg að gert. Einn vandinn sé að
menntakerfið sé illa laskað, það hafi
verið mjög gott áður en átökin byrj-
uðu 2011. Heil kynslóð barna sé nú að
missa af reglubundinni skólagöngu.
-Fyrir nokkrum árum var mikill
jarðskjálfti í Pakistan og einn vand-
inn var að yfir 50 alþjóðleg hjálpar-
samtök sendu sitt fólk á staðinn, nið-
urstaðan varð ringulreið. Hafið þið
fundið ráð við þessu?
„Sama gerðist á Haítí, það var
geysilega margt fólk sem vildi rétta
hjálparhönd. Alger ringulreið. Þessi
reynsla hefur fengið alþjóðleg mann-
úðarsamtök til að horfast í augu við
að þetta megi ekki gerast framar. Við
þurfum betra skipulag og samhæf-
ingu. Þetta hefur reynt á lagni okkar
í mannlegum samskiptum en þau eru
einmitt helsta verkefni okkar hjá
OCHA.
En okkur hefur tekist að stórbæta
þessi mál, það kom vel í ljós þegar
Filippseyingar þurftu nýlega að tak-
ast á við afleiðingar fellibylja.“
-Íslendingar taka þátt í mann-
úðarstarfi. Gerum við nóg?
„Vissulega en við vildum gjarnan
að framlagið væri enn meira. Það að
ráðstefnan skuli vera haldin hér get-
ur verið merki um að Íslendingar
hyggist leggja sig meira fram í al-
þjóðlegu mannúðarstarfi. Frá 2005
hefur Ísland ávallt styrkt okkar
stofnun með fé. Þetta er auðvitað
ekki há fjárhæð og að sjálfsögðu vild-
um sjá hana hækka. Við vonum að
áætlun stjórnvalda um að móta
stefnu varðandi mannúðaraðstoð
muni efla þann hugsunarhátt og
ákvarðanir sem þurfi til.“
Vaxandi neyð á átakasvæðum
Aðstoðarframkvæmdastjóri OCHA, samhæfingarskrifstofu mannúðaraðstoðar hjá SÞ, segir að
þörf sé á mun meira fé til aðstoðar við óbreytta borgara á átaka- og hamfarasvæðum
Morgunblaðið/Styrmir Kári
Mannúð Kyung-wha Kang segir að OCHA reyni að sjálfsögðu að knýja á um að samið verði um frið Sýrlandi en
ekkert bendi til að lausn sé í sjónmáli. Á meðan fjölgi stöðugt þeim óbreyttu borgurum sem þjást vegna átakanna.
Einn aðili stýri
» Kang segir að nú tryggi
OCHA alltaf að fyrir hendi sé
ákveðinn aðili á átaka- eða
hamfarasvæði sem stýri öllu
mannúðarstarfinu.
» Hann sér um að öll vinna
nýtist sem best og lítið sé um
að verkefni skarist og ekki séu
glufur. Sjá þarf til þess að gögn
berist strax til þurfandi fólks.
» Heilmikið af vetrarfatnaði
var sent til Haítí á sínum tíma.
Þetta var vel meint en gagn-
aðist ekki.
Átökin í Sýrlandi síðustu árin hafa kostað vel yfir 200
þúsund mannslíf, stór hluti fórnarlambanna er óbreytt-
ir borgarar. Ýmis samtök, ekki síst Barnahjálp SÞ (UNI-
CEF), hafa lagt fram skerf til að aðstoða Sýrlendinga. Í
fyrra tókst UNICEF að útvega meira en 18 milljónum
manna í landinu sjálfu og flóttamannabúðum í grann-
ríkjunum hreint drykkjarvatn. Þá tókst að bólusetja
846.000 börn gegn mislingum, lífshættulegum sjúk-
dómi sem getur valdið mörgum dauða. Einnig hefur
UNICEF tekist að aðstoða 2,8 milljónir barna við að
komast aftur í skóla. Víða var of hættulegt að senda þau í skóla og var þá
dreift kennslugögnum til heimakennslu.
Börn í skelfilegum háska
HÁLF SÝRLENSKA ÞJÓÐIN HEFUR FLÚIÐ HEIMILI SÍN
Áhugasöm.
Vorboðar birtast nú einn af öðrum
svo ekki verður um villst að betri tíð-
ar er að vænta. Heiðlóan sást austur
í Breiðdal á miðvikudag í síðustu
viku og eystra hafa margir farfuglar
sést að undanförnu. Vorið hefur líka
gert vart við sig í Hafnarfirði og þess
sáust augljós merki um síðustu helgi
er grááni hlykkjaðist um stéttar.
Á vef Náttúrufræðistofnunar má
lesa eftirfarandi: „Ánamaðkurinn
grááni er vorboði sem margir veita
athygli. Þegar yl tekur að leggja nið-
ur í jarðveg vaknar hann af dvala
sínum og skríður upp á yfirborð.
Þetta gerist jafnan eins og fingrum
sé smellt þegar vorið kallar. Allt í
einu birtist fjöldi gráána skríðandi
um stéttar og stíga og enginn veit
hvert þeir stefna. Að þessu sinni
gerðist þetta í Hafnarfirði í morg-
unsárið 21. mars.
Svo virðist sem grááninn hafi
þennan háttinn á við að dreifa sér
sem víðast fyrir lífsbaráttu sumars-
ins. Þetta er hættuspil því maðk-
arnir eru berskjaldaðir og óvarðir
fyrir hungruðum þröstum og stör-
um.“
Daginn eftir sýndi vorboðinn
hrjúfi sig einnig í Hafnarfirði, segir á
ni.is. Tveir sílamáfar tylltu sér á
Hamarskotslæk og viðhöfðu ást-
aratlot til að staðfesta að þeir væru
komnir heim. Þetta er í fyrra fallinu
því venjulega koma fyrstu sílamáfar
á Lækinn fyrstu daga aprílmánaðar.
Hvinönd og duggendur á Þveit
Hvinönd sást í gær á Þveit í Nesj-
um og þar voru nýverið taldar 45
duggendur. Á fuglavefnum fuglar.is
kemur fram að urtöndum hefur
fjölgað nokkuð í Bjarnanesi í Nesj-
um og þar var líka grafandarkolla.
Af öðrum flækingum má nefna
sparrhauk, hettusöngvara og gló-
brysting á Höfn og tvo svartsvani við
Dyrhólaey. aij@mbl.is
Hlykkjast um
stéttar og stíga
Gráánar vakna Ástaratlot á Læknum
Ljósmynd/Erling Ólafsson.
Vorboði Grááni á malbiki í Hafnar-
firði síðastliðinn laugardag.
Úti- og innimottur á tilboði
– úrval af frábærum mottum í mörgum gerðum og stærðum
Réttarhálsi 2 • 110 Reykjavík
Sími: 520 6666 • sala@rv.is • rv.is
Rekstrarvörur
– fyrir þig og þinn vinnustað
RV
0215
Tilboð
Verð frá3.188 kr.