Morgunblaðið - 31.03.2015, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 31.03.2015, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. MARS 2015 Einar Gíslason frændi okkar er látinn. Við þökkum honum fyrir samfylgdina gegnum lífið. Fyrir góðar og fróðlegar sam- verustundir og fyrir hlýjan hug í okkar garð. Við sendum sam- úðarkveðjur til Péturs sonar hans og fjölskyldu og líka til systkina Einars og fjölskyldna þeirra. Við kveðjum Einar frænda með litlu ljóði eftir Elí- as Þórarinsson. Hér við leiðarlokin lundin hljóðlát biður þess að gengnum garpi gefist ró og friður. Ótal yndisstundir innst í brjósti geymast. Þín skal mynd og minning mönnum aldrei gleymast. (E.Þ.) Dagrún Sigurðardóttir, Vignir, Hermann, Gunnar og Torfi Sigurðssynir og fjölskyldur frá Hjarðardal. Komið er að kveldi, búið að heimta alla heim í skálann sem gist er í. Einar ásamt skítkokki eldar kvöldmatinn sem að vanda bragðast vel. Létt er yfir mannskapnum því veðrið um daginn var gott og gróðurkort- lagningunni miðaði vel. Sagðar eru sögur. Einar tekur ekki til máls, nema eitthvað afar mark- vert hafi á daginn drifið, þá hlusta allir. Nýliðar sýna hon- Einar Andrés Gíslason ✝ Einar AndrésGíslason fædd- ist á Rauðsstöðum í Arnarfirði 18. mars 1924. Hann lést á hjúkrunarheim- ilinu Skjóli í Reykjavík 17. mars 2015. Útför Einars fór fram frá Fossvogs- kirkju 30. mars 2015. um plöntur og spyrja hann út í flokkun þeirra í gróðurfélög. Ekki stendur á svörum, en vart verður við óþreyju hjá Einari. Hann er kominn með spilastokkinn tilbúinn að spila Trjámann. Allir vilja spila með. Oft- ast vinnur Einar og sýnir þá sitt ísmeygilega sigur- og glettnisbros. Þannig lauk gjarnan góðum vinnudegi í gróðurkortagerð á Íslandi á meðan starfsemin var sem öfl- ugust á árunum 1976 til 1990. Kynni mín af Einari hófust vorið 1976 þegar sex stúdentar voru ráðnir til sumarstarfa við gróðurkortagerð á Rannsóknar- stofnun landbúnaðarins (Rala). Það var eftir að umsvif starf- seminnar voru aukin með til- stilli Þjóðargjafarinnar sem samþykkt var á Þingvöllum 1974. Í hálfa öld var Einar Gísla- son til staðar í gróðurkortagerð á Íslandi, hvort heldur sem var við kortlagningu á vettvangi að sumri eða við úrvinnslu að vetri. Í báðum tilvikum var hann lykilmaður. Á fjöllum var hann einstaklega vandvirkur við kortlagningu og dró aldrei úr kröfum þó veður væru vond eða aðrar aðstæður slæmar. Einar var afar ratvís og er hann líklega sá maður sem allra manna mest hefur gengið um fjöll og firnindi á Íslandi frá upphafi landnáms. Í dag er kvaddur merkur maður sem var mér lærifaðir og náinn samstarfsmaður í 30 ár. Góðar eru minningarnar þegar við ferðuðumst saman vegna mælinga og kortlagningar á birki um 1990 fyrir vestan og nutum gestrisni fjölskyldna hans á Mýrum. Lýsingar á bæj- arbragnum stóðu heima enda var hann kjarnyrtur sagnamað- ur. Sögurnar sem hann sagði breyttust ekki frá einum tíma til annars. Einar var talsvert sérvitur og vanafastur kenja- karl en kunni þó að njóta lífsins lystisemda. Hann var ritfær, vel lesinn og hafði mjög yf- irgripsmikla almenna þekkingu á náttúru Íslands. Árið 1995 var starfsemi gróð- urkortagerðarinnar flutt á Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem sú starfsemi féll vel að skyldum stofnunarinnar. Fyrri hluta árs 1996, tveimur árum eftir að Einar lét af störfum vegna aldurs á Rala, var hann beðinn um að vinna fyrir stofn- unina í tvo mánuði að brýnu verkefni sem vinna varð á gamlan máta án aðkomu tölvu- tækni. Þegar því verki lauk fékkst sá gamli til að prufa að vinna sams konar verk með nú- tímatækni, þó að það væri mjög andstætt hans lífsmáta. Lyktir urðu þær að Einar sat við tölvuteikningu gróðurkorta alla daga næstu 9 árin og skilaði góðu verki. Þegar Einar var kvaddur við seinni starfslok í október 2005 var hann sæmdur gullmerki Náttúrufræðistofnun- ar Íslands. Undirritaður og aðrir sam- starfsmenn Einars á Náttúru- fræðistofnun þakka fyrir lífs- starf hans í þágu náttúru Íslands og votta Pétri syni hans og öðrum ættingjum samúð. Guðmundur Guðjónsson. Í dag er kvaddur félagi okk- ar og vinur Einar Gíslason, sem á háum aldri var kvaddur til brottfarar. Hann hafði tekið þátt í mörgum og ströngum rannsóknaferðum hér um landið og á Grænlandi og hann hafði með sanni unnið sitt ævistarf. Með því starfi sem hann var hluti af að móta, var verið að kortleggja legu og ástand gróð- urs Íslands og síðar fornar slóð- ir Eiríks rauða á Grænlandi. Einar hóf störf á atvinnu- deild Háskólans um 1950. Nokkrum árum síðar var stofn- unin flutt og breytt í Rann- sóknastofnun landbúnaðarins og þar vann hann til 1995, en þá var gróðurkortagerðin flutt til Náttúrufræðistofnunar sem tók við því verkefni ásamt starfsliði þeirrar deildar. Hann starfaði þar langt fram yfir þann tíma sem í dag er nefndur almenn aldurslokastörf, eða þegar hann var kominn á níræðisaldur. Einar stundaði ekki háskóla- nám í náttúrufræði, en þekking hans í þeim efnum er vörðuðu plöntur og gróðurfar landsins var geysimikil. Hann var mikill lestrarhestur á allar tegundir bókmennta og hafði afar gott minni. Ég hika ekki við að nefna hann einn af ágætustu og nýtustu gróðurfræðingum þessa lands. Ég vann fyrst með Einari sumarið 1952 í sumarstarfi mínu frá námi, en síðan alla tíð þangað til ég lauk störfum hjá stofnuninni um 40 árum síðar. Það samstarf varð okkur báðum gagnlegt. Við tókum að okkur það erfiða verkefni að kort- leggja gróður landsins, bæði á hálendi og láglendi. Ágætir vís- indamenn, eins og dr. Steindór Steindórsson, höfðu áður vísað veginn sem var ómetanlegt. Við vorum fáir og févana til að byrja með. Við höfðum hins vegar nokkra ágæta forystu- menn stofnunarinnar sem skynjuðu eðli þess sem við vor- um að gera. Við réðum röska unga menn til starfa hvert sum- ar, menn sem tilbúnir voru að leggja á sig mikla, erfiða og jafnvel hættulega vinnu og ferðir í mislyndu landi sínu. Þetta var ánægður hópur og duglegur. Einar var þeim fyr- irmynd í dugnaði og í þreki gaf hann engum eftir. Það kom fyr- ir að við þyrftum að sækja hann út í náttúruna í búðir að kvöld- lagi, þegar hann taldi sjálfur dagsverkefni sínu ekki að fullu lokið. Litbrigði og nákvæmni kortagerðar eru mikil. Fáum var betur treystandi til að sinna þessum verkefnum en Einari. Þeir eiga því miklar þakkir skildar sem stuðluðu að því að tryggja stöðu hans þetta lengi við Náttúrufræðistofnun. Það mat hann sjálfur mikils. Í þessu sambandi ber að nefna þá dr. Jón Gunnar Ottósson, forstjóra stofnunarinnar og Guðmund Guðjónsson landfræðing. Árið 1977 var hópurinn okkar fenginn af forystumönnum Grænlands til að gera sams konar gróðurúttekt með heima- mönnum í Suður-Grænlandi. Það tókst á nokkrum árum, og ég tel það stórvirki. En þegar við komum fyrst til Grænlands og fjöllin háu og bröttu blöstu við heyrði ég smáathugasemd frá Einari: ,,Þetta landslag líst mér ekki á“. En það breyttist. Það duldist engum að ævi- starf hans heima og á Græn- landi átti hug þessa rólega, skapfasta Dýrfirðings. Blessuð veri minning Einars. Ég þakka samveruna og sam- vinnuna öll þessi ár. Við Inga Lára vottum syni hans og ætt- ingjum samúð. Ingvi Þorsteinsson. Mig langar til að minnast Einars bróður míns með nokkr- um orðum. Milli okkar var 17 ára aldursmunur og hann var því farinn að heiman til náms þegar ég man fyrst eftir mér. Á þessum árum man ég því aðeins eftir honum sem kærum gesti, sem ég hlakkaði til að kæmi í heimsókn. Honum fylgdi alltaf framandlegur andblær sem mér fannst spennandi. Hann hafði alltaf tíma fyrir litla bróður sinn; reyndi að kenna honum eitthvað nýtt eins og latnesk heiti á hinum ýmsu grösum í túninu heima og tefldi við hann skák, sem við kölluðum að taka eina bröndótta. Þegar ég kom í fyrsta skipti til Reykjavíkur um fermingaraldur, sýndi hann mér borgina og fræddi mig um margt. Þegar ég ákvað að hefja nám í læknisfræði var ég að vinna í síld austur á Raufarhöfn og í einni af fágætum frístund- um sumarið 1961 settist ég nið- ur á sjómannaheimilinu og skrifaði honum bréf, þar sem ég bað hann að innrita mig í læknadeild og útvega mér hús- næði fyrir veturinn. Þannig at- vikaðist það að við bjuggum saman á heimili Guðmundar Thoroddsen prófessors og Línu konu hans í háskólahverfinu næstu þrjú árin; hann á jarð- hæðinni og ég í litlu herbergi í kjallaranum. Það atvikaðist þannig líka að hann bauð mér upp á ristaðar fransbrauðs- sneiðar með sultu, fyrsta kvöld mitt í prófessorahverfinu og fransbrauð með sultu morgun- inn eftir og þetta var endurtek- ið næstu þrjú árin án þess að ég þyrfti að hafa áhyggjur af því hvað yrði í kvöldverð eða morgunverð. Þar að auki naut ég á þessum árum umhyggju og hlýju húsmóðurinnar Línu og hins einstaka persónuleika pró- fessors Guðmundar. Sem ungur drengur ólst Ein- ar upp á fátæku heimili á Gljúfrá í Arnarfirði, þar sem 12 og stundum 13 manneskjur þurftu að deila með sér rúmum í lítilli baðstofu. Átta ára gamall sat hann yfir ánum fram á Gljúfrárdal um fráfærurnar með Pétri fósturbróður sínum. Þar styttu þeir sér stundir með því að segja hver öðrum sögur; sumt sem þeir höfðu lesið og annað sem þeir bjuggu til á staðnum, og þeir lærðu að þekkja plöntur og fugla og lesa í veðrabrigði dalsins. Þegar hann lagði af stað út í heiminn tók hann með sér hughrif þess- ara ára. Umgengnin við náttúr- una varð hans ævistarf og aðal- áhugamál. Hann naut þess að lesa góðar bækur og hann las öndvegisskáld Spánar og Suð- ur-Ameríku á frummálinu. Hann þekkti það að hafa lítið milli handanna og trúði því að með því að skipta gæðum heimsins jafnt yrði nóg fyrir alla, og þannig lifði hann án þess að sanka að sér hlutum sem mölur og ryð fær grandað. Þótt Einar færi víða og væri á stöðugum ferðalögum á sumrin, stóran hluta ævi sinnar, átti þó hugurinn alltaf heima vestur í Dýrafirði og þangað er síðustu ferðinni heitið. Davíð Gíslason. ✝ Geir Helgasonfæddist í Bræðraborg á Fá- skrúðsfirði 20. ágúst 1933. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheim- ilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði 23. mars 2015. Foreldrar Geirs voru hjónin Ingi- björg Antonía Kristjánsdóttir, f. 19. apríl 1903, d. 26. janúar 1992 og Helgi Sigurður Árnason, f. 11. júní 1897, d. 20. apríl 1945. Hjónin voru fædd á Fáskrúðs- firði. Geir átti tvær systur, Laufeyju Helgadóttur, f. 8. ágúst 1928, d. 8. ágúst 1998, og Erlu Helgadóttur, f. 4. janúar 1939. Maki Geirs var Arnfríður Guðjónsdóttir, f. á Fáskrúðs- firði 1. nóvember 1932, d. 20. júní 2009. Þau giftust 1. nóv- ember 1967 og bjuggu þau í Silfurtúni á Fáskrúðsfirði allan sinn búskap. Börn Geirs og Arnfríðar eru: 1) Arna, f. 1960, gift Guðna Elíssyni, dætur stundaði Geir sjómennsku til ársins 1963 og var meðal ann- ars á bátunum Gissuri hvíta SF 55 og Hoffelli SU 80, hinu fyrsta. Hann fór í lögregluskól- ann árið 1964 og var síðan skip- aður fyrsti lögregluþjónn Fá- skrúðsfjarðar 1966. Því starfi gegndi hann til ársins 1977 ásamt sjúkraflutningum og slökkviliðsstarfi. Hann var hreppstjóri Búðahrepps frá 1966 nánast þar til það starf var aflagt, stefnuvottur í 50 ár þar til hann sagði því lausu í janúar 2015 og gjaldkeri Kaup- félags Fáskrúðsfjarðar frá 1977 þar til hann komst á eftirlauna- aldur 67 ára. 76 ára fór hann aftur á vinnumarkaðinn, þá við brettasmíði hjá Njáli SU-8 hjá Jónasi Ben vini sínum. Hann fór í veikindaleyfi haustið 2014 en sneri ekki aftur til vinnu. Geir var virkur í félagsmál- um á yngri árum. Hann var í leikfélagi Fáskrúðsfjarðar á upphafsárum þess og stofn- félagi Lionsklúbbs Fáskrúðs- fjarðar og Björgunarsveitar Fá- skrúðsfjarðar. Útför Geirs fer fram frá Fá- skrúðsfjarðarkirkju í dag, 31. mars 2015, og hefst athöfnin kl. 14. þeirra eru Antonía og Lovísa Fanney. 2) Sigrún Júlía, f. 1967, gift Hjörvari Moritz Sigurjóns- syni, börn þeirra eru Daníel Geir Moritz og Bríet Ósk Moritz. 3) Grétar Helgi, f. 1973, unnusta Ausra Laukyte. 4) Dýrleif, f. 1974, gift Árna Rúnari Árnasyni. Sonur Dýrleifar er Jóhann Helgi. Barnabarnabörn Geirs eru þrjú. Systur- og uppeld- issonur Geirs var Grétar Hafn- fjörð Þorsteinsson, f. 14. októ- ber 1948, d. 29. maí 1968. Fyrir átti Arnfríður tvær dætur 1) Eygló, f. 1953, gift Þórarni Óð- inssyni, dætur þeirra eru: Anna Marín, Margrét Jóna og Brynja Dröfn. 2) Jóna Björg Jónsdóttir, f. 1957, gift Hafþóri Eide Hans- syni, börn þeirra eru: Davíð Hrannar, Arnfríður og Hafþór Eide. Eftir að hafa lokið námi í Barnaskóla Fáskrúðsfjarðar Jæja, nafni minn. Þá er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að baráttu þinni og kvölum undanfarna mánuði er lokið. Það er skrýtið að koma í fjörðinn sem mér finnst svo fagur og vita að þú ert ekki lengur þar. Þegar ég hugsa til síðustu jóla kemur mér í hug máltækið „fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott“ og var sann- arlega lán í óláni að þú varst á spítalanum á Norðfirði í desem- ber og varðir aðfangadags- kvöldi með mér og fjölskyld- unni í Brekkukoti. Það var mér afar dýrmætt en er mér ennþá dýrmætara nú fyrst þetta reyndust vera þín síðustu jól. Við erum öll þakklát fyrir að hafa fengið að verja þeim með þér. Frá því að ég man eftir mér hefur þú lagt þitt af mörkum til að gera líf mitt skemmtilegra og á ég svo margar minningar sem ylja mér um hjartarætur nú þegar þú ert farinn. Það voru forréttindi að koma til þín og ömmu í Silfurtún því alltaf var passað upp á að ég hefði eitthvað fyrir stafni og að mér myndi ekki leiðast. Þú rúntaðir með mig til að finna einhverja krakka sem ég gæti leikið við og eru margir af þeim góðir kunningjar mínir enn þann dag í dag. Ég hafði ótrúlega gaman af því að fá að fljóta með þegar þú varst að brasa eitthvað og þurfti það ekki að vera merki- legt; ég var bara með afa mín- um og mér leið vel. Þegar kom svo að því að halda heim á Norðfjörð eftir góða dvöl á Fá- skrúðsfirði fékk ég ávallt eitt- hvert góðgæti til að gæða mér á í heimferðinni og hugsaði ég oft hvað ég væri heppinn að eiga þig að. Þegar ég fór svo að vaxa úr grasi og takast á við hin ýmsu áhugamál, sem oft voru langt fyrir utan þægindaramma minn, sýndir þú því alltaf áhuga sem ég var að gera og fann ég að þú varst stoltur af mér. Sá stuðningur var látlaus og virk- aði kannski lítill fyrir þér en hann var það svo sannarlega ekki enda einlægur og fallegur. Þegar amma dó hugsaði ég með mér að ég mætti nú vera duglegri að hringja úr Reykja- víkinni og gladdistu alltaf þegar þú heyrðir hver var hinum megin á línunni. Ég vil þó að þú vitir að þessi símtöl gáfu mér eflaust meira en þér og styrktu rætur mínar til muna. Þú varst mér svo góður afi að ég hefði aldrei getað þakkað þér nóg fyrir það. Þegar þú sendir mér svartfuglseggin í fyrra og lést lítinn brandara fylgja með var ég þér svo þakklátur að ég tár- aðist þegar ég hringdi til að þakka fyrir mig. Það þekkja mig ekki svo margir sem Daníel en það vita fleiri hver Daníel Geir er enda hef ég alltaf kynnt mig þannig. Ég ber nafn þitt með stolti og munu minningar mínar um þig gleðja mig um ókomin ár. Takk fyrir allt, nafni minn, og Guð geymi þig. Daníel Geir Moritz. Geir Helgason Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga. Skil | Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morgunblaðslógóið í hægra horninu efst og viðeigandi liður, „Senda inn minningargrein,“ valinn úr felliglugganum. Minningargreinar Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför elskulegrar móður, tengdamóður, ömmu, langömmu og langalangömmu, UNNAR STEINUNNAR KRISTJÁNSDÓTTUR frá Bæ í Súgandafirði, Hlíf II, Ísafirði. Sérstakar þakkir færum við Heimahjúkrun á Ísafirði og starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fyrir góða umönnun. . Aðstandendur. Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð, virðingu og hlýhug við fráfall móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, AÐALHEIÐAR STEFÁNSDÓTTUR, Kópavogsbraut 1b, Kópavogi. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð fyrir góða umönnun. . Sigurbjörg Magnúsdóttir, Hákon Ísaksson, Magnús Hákonarson, Sverrir Hákonarson, Huld Hákonardóttir, Ólöf Margrét Magnúsdóttir, Móheiður H. Geirlaugsdóttir, Arnar Eggert Thoroddsen, Smári Jökull Jónsson, Sigrún Sverrisdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.