Bókasafnið - 01.10.2008, Qupperneq 49
BÓKASAFNIÐ 32. ÁRG. 2008 47
um að það myndu koma fram háværar kröfur um
að endurreisa Landsaðganginn og að álagið á þá og
bókasöfnin ykist mikið aftur. Sennilega yrði meira
um að fólk bæði um að einstakar greinar yrðu keyptar
beint frá útgefanda því að þótt fólk hafi ekki rafrænan
aðgang að þessum greinum þá megi alltaf kaupa þær
rafrænar frá útgefendunum. En það myndi þýða
„gífurlega aukinn kostnað“ eins og einn orðaði það.
Það virðast því allir, sama hvort það eru bókasafns-
og upplýsingafræðingar eða sérfræðingar, vera
mjög jákvæðir í garð rafræna efnisins þótt ýmislegt
bendi til að tilkoma þess sé farin að hafa talsverð
áhrif á störf og hugsanlega mikilvægi bókasafns-
og upplýsingafræðinga. Sérfræðingar geta orðið gert
ýmislegt sjálfir sem þeir voru áður algerlega háðir
bókasafns- og upplýsingafræðingum með. En, eins og
fram hefur komið, er þó alltaf eitthvað sem þeir þurfa
aðstoð við og sums staðar virðist eftirspurnin eftir
millisafnalánaþjónustu jafnvel fara vaxandi aftur.
Breytingar á millisafnalánum
Heimildir sýna að millisafnalánum virðist hafa fækkað
alls staðar eftir að samið var um Landsaðganginn
en árið 2000 varð, með örfáum undantekningum,
toppurinn í millisafnalánum sérfræðibókasafna á
Íslandi (Hagstofa Íslands, 2006; Þórný Hlynsdóttir
og Þóra Gylfadóttir, 2004). Þetta er í samræmi við
niðurstöður ýmissa erlendra rannsókna sem benda
til að svokallaðar pakkaáskriftir hafi dregið úr
þörfinni fyrir millisafnalán (sjá t.d. Goodier og Dean,
2004; Wiley og Chrzastowski, 2005). Niðurstöður
Echeverria og Barredo (2005) benda einnig til þess
að nýjum greinum fækki í því efni sem pantað er með
millisafnalánum; að útgáfuár flestra þeirra séu frá
árunum 1982–1996. Þetta er í samræmi við skoðun
bókasafns- og upplýsingafræðings á Storð sem sagði
að þar sé aðallega um að ræða beiðnir um greinar sem
eru eldri en frá því um 1995, enda lítið um að rafræn
tímarit Landsaðgangs séu með fullan aðgang að efni
fyrir þann tíma. Hann telur þó að betri skráning eldra
efnis skili sér hugsanlega í auknum fjölda millisafnalána
allra seinustu árin sem stafi trúlega af því að Storð hafi
haldið betur í pappírsáskriftir en t.d. ýmis erlend
sérfræðibókasöfn. Samningar um rafrænar áskriftir
hljóði yfirleitt upp á að bannað sé að prenta það efni
út og senda til þriðja aðila. Samfara því að meira er
skráð af eldra efni séu millisafnalánin hins vegar að
verða erfiðari. Millisafnalán virðast samt áfram taka
umtalsverðan tíma hjá um helmingi bókasafns- og
upplýsingafræðinganna sem talað var við.
Framtíðarhlutverk og þjónusta sérfræðibókasafna
Boyce et al. (2004), Klugkist (2001) og Ramirez
(2003) telja að áfram verði þörf fyrir bókasöfn með
hefðbundum, prentuðum bókakosti þótt ekki sé vafi
á að rafræna efnið muni alls staðar sækja á og þar með
eflast það hlutverk bókasafns- og upplýsingafræðinga
að sinna meiri gæðastýringu á efni sem söfnin
vilja bjóða upp á. Krafan um að bókasafns- og
upplýsingafræðingar sérhæfi sig meira í efnisleit og
ýmiss konar tæknimálum verður einnig háværari.
Þetta er í samræmi við niðurstöður rannsóknarinnar
því að allir viðmælendur sjá fyrir sér breytingar á
sérfræðibókasöfnunum þótt þeim beri saman um að
bókasöfn eða upplýsingamiðstöðvar verði áfram til
staðar í einhverri mynd. Þörfin fyrir að einhver haldi
utan um „batteríið“, og haldi reiðu í „kaosinu“, eins
og sérfræðingar orðuðu það, verður trúlega áfram
til staðar og henni munu bókasafns- og upplýsinga-
fræðingar sinna. Í raun benda niðurstöðurnar til
þess að sérfræðingar eigi von á minni breytingum.
Því að hversu duglegir sem þeir eru að nota rafræna
efnið þá er eins og þeir sjái bókasöfnin og hlutverk
bókasafns- og upplýsingafræðinganna áfram fyrir sér
í svipaðri mynd. Þeir meta mikils það grunnhlutverk
að öllu sé haldið í röð og reglu og passað að efni týnist
ekki. Og þeir munu áfram leita til bókasafnanna
eða upplýsingamiðstöðvanna og þiggja aðstoð við
leitir og efnisöflun, ekki síst eldra efnis. Þá myndi
a.m.k. hluti sérfræðinga vilja geta leitað þangað eftir
aðstoð við uppsetningu heimildaskráa og ritlista, svo
og að koma sínum persónulegu sérprentasöfnum á
aðgengilegra form. Einhverjir nefndu að gott væri að
bókasafns- og upplýsingafræðingar kæmu meira að
skráningu korta og mynda.
Maclean (2006) telur að sveigjanleiki og það að
vera opinn fyrir nýjum tækifærum og möguleikum sé
bókasafns- og upplýsingafræðingum afar mikilvægt
nú þegar rafræna efnið er að festast í sessi og
hefðbundnari verkefnum fækkar. Þeim bókasafns- og
upplýsingafræðingum, sem tekin voru viðtöl við, bar
saman um að sérfræðibókasöfnin stæðu frammi fyrir
talsverðum breytingum. Sem stétt þyrftu bókasafns-
og upplýsingafræðingar að huga vel að sínum málum
og framtíð og hvort ekki væri nauðsynlegt að fikra
sig að einhverju leyti inn á nýjar brautir. Niðurstöður
rannsóknarinnar benda til að vinna við vefsíður sé
vaxandi hlutverk ásamt vinnu við útgáfu, sem e.t.v.
tengist því að útgáfan er að verða meira rafræn. Þá
fer mikill tími í það að færa eldri rit stofnananna og
tengdra aðila á rafrænt form og gera þau aðgengileg
á vefsíðum með fullum texta. Að mati bókasafns- og
upplýsingafræðinganna verður framtíðarhlutverkið
að velja gagnasöfn, halda utan um og gera eldra efni
rafrænt og sýnilegt fyrir notendur, auk þess sem meiri
áherslu þarf að leggja á einhvers konar gæðastýringu
á því efni sem aðgangur er veittur að og verið er að
velja fyrir bókasöfnin. Einnig virtist a.m.k. hluta