Bókasafnið - 01.10.2008, Page 56

Bókasafnið - 01.10.2008, Page 56
BÓKASAFNIÐ 32. ÁRG. 200854 Ingibjörg Árnadóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur, andaðist 9. nóvember síðastliðinn, tæplega 66 ára að aldri. Andlát hennar bar óvænt að. Aðeins tveimur dögum fyrr hafði hún kvatt samstarfsfólk sitt á Landsbókasafni að venju að vinnudegi loknum. Ingibjörg fæddist á Grenivík í Grýtubakkahreppi í Suður- Þingeyjarsýslu 23. nóvember 1941. Hún stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi úr máladeild 1963. Sama ár giftist hún Hrafni Bragasyni lögfræðingi og eignuðust þau tvö börn og fimm barnabörn. Ingibjörg útskrifaðist sem bókasafnsfræðingur frá Háskóla Íslands vorið 1980. Fjórum árum fyrr hafði hún hafið störf á Háskólabókasafni, fyrstu árin í hlutastarfi. Um árabil starfaði hún í útibúi safnsins í húsi verkfræði- og raunvísindadeildar og einnig um tíma í safndeild Jarðfræðahúss. Í árdaga tölvuvæðingar á íslenskum bókasöfnum var Ingibjörg ásamt Halldóru Þorsteinsdóttur í fararbroddi hvað varðar heimildaleitir í rafrænum gagnasöfnum á Netinu. Hún fylgdist vel með og var fljót að tileinka sér nýjungar á þessu sviði. Þá kenndi hún ótal nemendum og kennurum að leita heimilda og var einn af frumkvöðlum safnsins í uppbyggingu safnkennslu. Við sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns 1994 tók Ingibjörg við stöðu deildarstjóra í upplýsingadeild. Starfsheitið breyttist við skipulagsbreytingar 2003 og eftir það gegndi hún starfi þjónustustjóra í upplýsingadeild safnsins til æviloka. Sérstaklega ber að nefna að Ingibjörg var ritstjóri vefs safnsins og innti hún það starf af hendi með miklum glæsibrag. Ingibjörg lét ekki sitt eftir liggja hvað varðar félags- og trúnaðarstörf. Hún sat m.a. í stjórn Bókavarðafélags Íslands 1986-1987, í stjórn Félags bókavarða í rannsóknarbókasöfnum 1989-92 og í siðanefnd Félags bókasafnsfræðinga 1994-96. Einnig sat hún í fyrstu stjórn Starfsmannafélags Þjóðarbókhlöðu og í siðanefnd safnsins frá upphafi. Eftir Ingibjörgu liggja greinar um málefni bókasafna auk margvíslegra skráa. Þar má nefna Skrá yfir rannsóknar­ og sérfræðibókasöfn opinberra stofnana og félagasamtaka í Reykjavík sem kom út 1977 og grein um PRO-CITE sem birtist í Bókasafninu 1993. Ingibjörg vann árum saman ásamt Áslaugu Agnarsdóttur að mikilli skrá yfir þýðingar á íslenskum fornbókmenntum 1950-1990 og hlaut styrki til þess, m.a. úr Vísindasjóði. Skráin er til í handriti. Það er sárt fyrir starfsfélaga Ingibjargar að sjá að baki konu eins og henni svo skyndilega og óvænt en það er þó huggun harmi gegn fyrir þá sem störfuðu með henni og þekktu hana best að eiga margar góðar minningar um einstaka manneskju. Ingibjörg var jafnlynd, jákvæð og traust. Hún átti auðvelt með að slá á létta strengi en var þó ákveðin þegar á þurfti að halda. Það var gott að ræða málin við hana, hvort sem samræðurnar snerust um bókasafnsmál eða önnur efni. Við kveðjum Ingibjörgu með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir árin sem við fengum að njóta með henni á Háskólabókasafni og Landsbókasafni. Áslaug Agnarsdóttir sviðsstjóri Ingibjörg Árnadóttir f. 23. nóvember 1941, d. 9. nóvember 2007 Kveðja frá samstarfsfólki í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni Minningarorð

x

Bókasafnið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.