Húnavaka - 01.05.1962, Side 73
GUÐRÚN S. JÓHANNSDÓTTIR, Kagaðarhóli:
Hesturinn okkar
Reiðhesturinn er dásamlega skemmtilegur. Það er gaman að eiga hann
að vini og félaga. Sú tryggð og vinátta, sem hann sýnir eiganda sínum,
sé hann góður og nærgætinn við hann, er mikils virði.
Það á að fara vel með hestinn, sýna honum nærgætni í notkun á allan
hátt, þá koma hans beztu kostir og vitsmunir betur í ljós, og hann fær
traust á manninum, sem umgengst hann.
Því miður er ekki alltaf búið svo vel að þessu göfuga og fallega dýri
sem skyldi.
Eg gæti sagt margar sögur um vit og snilli reiðhestsins, einnig um
hans sérstöku ganghæfni, til dæmis töltið, sem enginn hestur í heiminum
kann, nema íslenzki hesturinn. Ég ætla að setja hér eina stutta frásögn
um unga stúlku og reiðhestinn hennar.
Fyrir mörgum árum átti ung stúlka, sem hét Steinunn, heima í smá-
þorpi. Hún var fátæk eins og margir voru á þeim dögum, hafði bara
sína vinnu, og kaup var lágt á þeim árum. Móðir hennar var orðin
ekkja fyrir nokkru. Steina var sjaldan heima hjá móður sinni, hún var
oftast í vinnu annars staðar.
Steina átti reiðhest, bleikan að lit með dökka rönd í faxi. Hesturinn
var gjöf frá afa hennar, og gæðingur hinn mesti.
Frekar var hann smár vexti, en snotur og snyrtilegur, bar sig mjög
hátt og var reistur undir manni. Hann hafði góðan, ljúfan vilja ásamt
hreinum, fínum gangi, þó var töltið sérstaklega mikið og fallegt, einnig
hafði hann mikið skeið, væri því beitt. Steina elskaði og dáði þennan
hest, nefndi hún hann Faxa, og átti margar yndisstundir á baki hans.
Ekki þurfti Steina nema tala við Faxa, þá skildi hann vel hvað við
átti. Ætíð kom hann á móti henni, þegar hún sótti hann í haga og