Húnavaka - 01.05.1969, Side 149
HÚNAVAKA
147
sem var; hún var söngelsk og hafði fallega rödd. — Henni sóttist
vel nám í barnaskólanum í sveitinni sinni og var hvers manns hug-
ljúfi. — Ekki auðnaðist henni að sækja framhaldsnám, var þó vetrar-
part í Kvennaskólanum á Blönduósi, en þá strax fór hún að kenna
sjúkleika og um tvítugt varð hún alvarlega veik og tók aldrei á heilli
sér eftir það. Eftir að Kristín lagðist rúmföst hitti ég hana sjaldan,
en ég hafði alltaf spurnir af henni og dáðist að þreki hennar og
sálarró.
Dagar og ár liðu á sjúkrahúsinu. Fólk kom og fór, en unga, glaða
stúlkan átti ekki afturkvæmt út í sólskinið og athafnalífið. Við eng-
an var að sakast og Kristín tók örlögum sínum með hetjulund.
Ekki er að því að spyrja, oft hafa dagarnir verið langir í sjúkra-
stofunni og nætur dimmar, en lnin virtist sjá ljós í myrkrinu. An
efa hefur hugur hennar oft hvarflað norður fyrir fjöllin, á æsku-
stöðvarnar, og ljúfar minningar yljað henni um hjarta, þegar hún
var ung og breiddi faðminn móti fögrum æskuvonum; Kristín unni
sinni heimabyggð, eftir því sem kunnugir sögðu. Furðulegt var
hvað hún fylgdist með öllu, sem gerðist fyrir norðan; hún gat rakið
ættir manna og málleysingja norður þar, og vissi deili á svo ótal
mörgu, sem fullhraustir gefa ekki gaum — gleyma eða taka ekki
eftir. —■ Henni var ljóst hve mikils virði er að geta greint kjarnann
frá hisminu — hjóminu —, og halda til haga því, sem er nokkurs
virði. — Menn kvarta og kveina þó allt virðist leika í lyndi, en unga
stúlkan sem var svipt heilsunni og varð að láta sér nægja sjúkrastof-
una í tugi ára, tók fagnandi á móti gestum í heimsóknartímanum,
og það sem meira var, hún var ætíð veitandi, að sagt var, svo menn
töldu sig ríkari er þeir fóru af hennar fundi, en þegar þeir stigu inn.
Er slíkt ekki eftirtektarvert og vert aðdáunar?
Kristín átti góða að, ættingjar hennar og vinir létu sér annt um
hana og einkadóttirin, Katrín, sem var yndi hennar og eftirlæti,
launaði móður sinni ríkulega ást hennar. Það var mikil gæfa fyrir
þær mæðgur báðar, hve ljúf og elskuleg Katrín var móður sinni og
sömn sögu er að segja um tengdasoninn og barnabörnin. Ég er sann-
færð um, að slík umhyggja verður þeim öllum til blessunar.
Smátt og smátt þvarr líkamsþrekið, hún bognaði ekki, en gekk
með sigur af hólmi úr lífsins leik. — Guð blessi þig og þína, kæra
Kristín.