Húnavaka - 01.05.1978, Blaðsíða 119
H Ú N AVA K A
117
hlunnana og bera þá efst upp í fjöruna. Svo sest hann á framþóftuna,
tekur árarnar sína í hvora hönd, dýfir árahlunnum niður í sjóinn
svo ræðin blotna af sjó og byrjar róðurinn fram á fjörðinn. Þá hann
er kominn nokkur áratog frá landi, tekur liann ofan höfuðfat og les
sjóferðarbæina, jafnframt því að hann rær reglubundnum áratogum.
Það myndast á sólglitrandi sléttum sjónum rák langar leiðir aftur af
bátnum sem kallast kjölfar. Selur kemur upp í kjölfarinu og fylgir
því um stund. Spáir fararheill var gömul sögn, en ef selur kemur
upp fram undan stefni báts, í átt þeirri er bátnum er róið og stingur
sér móti bátsstefninu, þá var sagt að það boðaði slæma sjóferð. Nú
telur hann sig vera kominn það langt út á flóann að von sé fiskjar,
enda fuglager í nánd. Hann leggur því upp árar, stingur árahlunn-
um undir þóftu, svo árablöð vísa skáhalt upp, tekur því næst hand-
færið, leysir sundur og rennir í sjó. Sakkan leitar fljótlega botnsins.
Hann tekur grunnmál og keipar, þyrsklingur krækist á stærri öngul-
inn, þá dregur hann færið upp, grípur fiskhnífinn, krækir minni
önglinum í gegnum kverksiga fiskjarins og sker hann af til beitu,
rennir svo færinu í sjó. Þannig gengur það nokkra stund. Honum
finnst fiskur frekar tregur og smár, því hugsar hann sér að róa dýpra,
lengra fram. Hann dregur því upp handfærið og krækir öngli undir
band í bátnum. Það er kominn nokkur sjór í bátinn, hann tekur því
austurstrogið og þurreys. Svo leggur hann út árar og rær lengra fram
á fjörðinn. Fiskur er þar stærri, en hann kippir öðru hverju, þá fisk-
ur tregðast.
Dagurinn líður. Hann hefur fiskað vel. Sólin er hnigin í norð-
vestri, og gyllir hafflötinn rósrauðum bjarma. Hann greinir meira
að segja, þótt fjarlægðin sé mikil, fagran, ranðleitan kvöldbjarma
sem endurspeglast frá stafnglugganum hjá honum heima. Hressandi
gola dekkir sjóinn og báran hjalar þýðlega við kinnung bátsins. Nú
gerir hann upp handfærið og leggur til hliðar í bátinn og krækir
stærri önglinum undir band, vindur sjóvettlingana og slær þeim við
þóftu. Tekur austurstrogið og eys sjó tir bátnum, út úr austurrúm-
inu. Nú er sjálfsagt að nota kulið og setja upp segl, því hagstæð sigl-
ing er til lands. Hann setur stýri á króka, reisir mastur og strengir
segl. Kaldinn þenur seglið og eftir litla stund er báturinn kominn
upp undir land, fram undan bænum. Nú hafa kona hans og börn
haft eftirlit með bátnum, því að þau eru tilbúin að taka á móti hon-
um við lendinguna. Þau raða eikarhlunnunum niður að flæðarmáli