Morgunblaðið - 01.05.2015, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 01.05.2015, Blaðsíða 37
MINNINGAR 37 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. MAÍ 2015 Móðir mín er lát- in og á ég eftir að sakna hennar mjög mikið. Mamma var ótrúlega góð kona og var mörgum kostum búin, hún var alltaf fín til fara og með fal- lega skartgripi og með hárið fal- lega greitt. Ég fékk líka að heyra það frá því ég var lítil að það ætti að greiða sér hundrað sinnum í hvert skipti. Minningar mínar um mömmu eru um hana að baka, elda og strauja og gera heimilið hreint og fínt, enda var hún húsmóðir fram í fingurgóma, alltaf vinnandi ann- aðhvort á heimilinu eða í vinnunni sinni á spítalanum enda mjög samviskusöm. Jólin, þegar hún var að vinna, var hún alltaf búin að þrífa húsið, pússa silfrið, elda, baka og gera allt reiðubúið fyrir okkur hin. Ferðalög vestur í Ólafsvík, stoppað og drukkið og borðað smurt brauð alltaf á sama staðnum. Ferðalög austur og fræga ferðin í Skaftafell þegar rigndi svo mikið og svo rokið á tjaldsvæðinu við Höfn þegar pabbi batt tjaldið við bílinn. Ferð- irnar til Mallorca og Ítalíu þegar ég var lítil og ýmsar fleiri ferðir, á seinni árum ferðirnar í Skorra- dalinn í sumarhúsið þeirra mömmu og pabba. Mamma kenndi mér bænirnar og lét mig fara með þær á kvöldin, kvæðin sem hún söng fyrir mig þegar ég gat ekki sofnað og margar aðrar minningar. Mamma fór í sjúkraliðanám á fimmtugsaldri og ég man hvað mér þótti skrýtið að eiga mömmu í skóla því ég þekkti engan annan á þeim tíma sem átti mömmu sem var að læra. Mamma var til fyr- irmyndar í starfi, enda var sjúkraliðastarfið hennar líf og yndi. Mamma var umhyggjusöm alla tíð og var alltaf að hugsa um aðra, allir voru jafnir í hennar augum, hvort sem það voru ung- lingar eða fullorðnir. Það voru alltaf allir velkomnir og tekið opn- um örmum heima á Smyrla- hrauni, hvort sem var í gistingu eða fæði. Mörg af barnabörnun- um voru meira og minna hjá ömmu og afa og líta á heimili þeirra sem annað heimilið sitt. Mamma hafði alltaf ánægju af að fá gesti, hvort sem það voru börn eða fullorðnir og var oft gest- kvæmt hjá mömmu og pabba. Oft þegar komið var við á Smyrla- hrauninu þá var mamma að baka pönnukökur, vöfflur eða annað góðgæti handa vinum barna okk- ar systkina. Mamma greindist fyrst með krabbamein fyrir fimm árum og tók hún því með jafnaðargeði og leit á það sem verkefni að leysa, gekk það skjótt og vel fyrir sig. Nú fyrir jólin greindist hún síðan með annað krabbamein sem var mun erfiðara og óviðráðanlegt en samt var það sama upp á teningn- um og vissi mamma nákvæmlega í hvað stefndi. Þegar ég hugsa til Nanna Sigríður Ottósdóttir ✝ Nanna Sigríð-ur Ottósdóttir fæddist 16. október 1935 í Ólafsvík. Hún lést 20. apríl 2015. Útför Nönnu var gerð frá Hafn- arfjarðarkirkju 29. apríl 2015. baka er ég þakklát fyrir að fá að eyða síðustu fjórum mán- uðunum svona mikið með henni og alveg fram að andláti hennar. Kærar þakkir fyrir allt sem þú hef- ur gert fyrir okkur fjölskylduna. Þeir segja þig látna, þú lifir samt og í ljósinu færð þú að dafna. Því ljósi var úthlutað öllum jafnt og engum bar þar að hafna. Frá litlu hjarta berst lítil rós, því lífið þú þurftir að kveðja. Í sorg og í gleði þú senda munt ljós, sem að mun okkur gleðja. (Guðmundur Ingi Guðmundsson) Ingibjörg Bjarn- arsdóttir, Sigurður P. Sigurðsson og börn. Ég kynntist tengdamóður minni, Nönnu Sigríði, í byrjun árs 1997, þegar ég kom í fyrsta skipti á heimili þeirra Bjarnars að Smyrlahrauni 44. Mér leist strax vel á Nönnu. Hún var myndarleg kona og vel tilhöfð og góðvildin geislaði af henni. Strax frá fyrsta degi varð Smyrlahraunið eins og mitt annað heimili. Þar var alltaf opið hús og oftast hægt að stóla á að Nanna ætti eitthvað gott með kaffinu. Nanna var listakokkur og myndarleg húsmóðir, enda hús- mæðraskólagengin. Hún hafði gaman af matargerð og minnist ég einkum hversu hefðbundinn ís- lenskur heimilismatur var góður hjá henni, t.d. plokkfiskur, salt- kjöt, kjötsúpa o.þ.h. Einnig voru pönnukökurnar hennar og vöffl- urnar einstakt lostæti. Heimilið var alltaf hreint og snyrtilegt og fyrir jólin var allt þrifið hátt og lágt. Þannig féll Nönnu sjaldnast verk úr hendi heima við, og oft varð vinnudagurinn langur þegar við bættist vinna utan heimilis sem sjúkraliði. Það sem mér fannst einkenna Nönnu var einstök velvild hennar og hjálpsemi við allt og alla. Þeg- ar hún starfaði sem sjúkraliði átti hún t.d. mjög erfitt með að hafna beiðnum um að vinna aukavaktir, ef eftir því var leitað. Alltaf var hún boðin og búin að aðstoða við bakstur eða matargerð fyrir af- mælisveislur og annan mannfagn- að í fjölskyldunni. Nanna var hænd að barna- börnum sínum og barnabarna- börnum og þótti vænt um þau öll. Hún fylgdist vel með öllum af- mælisdögum þeirra og reyndi að gefa öllum afmælisgjafir, þó að hópurinn væri orðinn býsna fjöl- mennur í lokin. Allt til loka, þegar krafturinn var farinn að dvína, einkenndi það Nönnu að hugsa frekar um aðra en sjálfa sig. Hún var sátt við lífs- starfið og þakklát fyrir þann tíma sem hún fékk úthlutaðan hér á jörðu. Þrátt fyrir erfiðan sjúk- dóm, sem hún að lokum þurfti að lúta í lægra haldi fyrir, hélt hún ávallt reisn sinni og glæsileika. Ég minnist Nönnu með mikilli hlýju og þakka fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum sam- an, hvort sem var á Smyrlahraun- inu, í sumarbústaðnum í Skorra- dal eða í þeim utanlandsferðum sem við fórum saman í. Þar naut sín góð kímnigáfa Nönnu, en hún átti það til að koma með hnyttnar athugasemdir um menn og mál- efni. Blessuð sé minning hennar. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum) Karl Óskar Magnússon. Elsku hjartans amma mín, það sem ég á eftir að sakna þín sárt. Fyrir þér var sælla að gefa en þiggja. Gjafir þínar voru alltaf mjög stórtækar og ekta. Mér verður hugsað til þess núna. Perl- ur, gull, fínir dúkar og demantar eru gersemar sem þú hefur meðal annars fært mér. Þær jafnast þó ekki á við þá hjartahlýju og kær- leika sem þú geymdir í brjósti þér en eru mér dýmæt minning um þig. Ég reyni að vera sterk eins og þú og halda aftur af tárunum. Ég hugsa til þess er þú birtist mér í draumi er andlát þitt bar að. Þú færðir mér geislandi glitur- snjókorn í keðjum. Birtan af þeim var skær og hlý. Ég vildi svo gjarnan skreyta hjá þér því feg- urra skraut hef ég ekki augum lit- ið. Nei, sagðir þú, þau eru ætluð þér. Ég hugga mig við þessa fal- legu kveðju og það að þú sért komin á betri stað umvafin ást og englum. Ég á svo margar góðar minn- ingar um þig. Minningar um ynd- islega konu. Fallega lagað hárið og snyrtimennskan í fyrirrúmi. Matargerð á heimsmælikvarða svo ekki sé minnst á prjónaskap- inn. Húmorinn var aldrei langt undan. Áttir það oft til að koma með hnyttna gullmola sem maður átti engan veginn von á, svo mað- ur skellti upp úr. Þú hugsaðir vel um fjölskyldu þína og varst sér- lega ósérhlífin. Alltaf með opinn arminn og húsið alltaf ólæst. Sem krakki þá var svo gaman að vera uppi á eldhússkáp og fylgjast með þér baka. Kökur, sulta, heimalag- að brauð, hrærða skyrið sem allir elska og svo margt fleira góðgæti. Ég minnist þess þegar ég sat á skápnum með húsmæðrasvuntu í stíl við þig og vafið hárið, horfði út um gluggann. Spennt fylgdist ég með því hver kæmi í heimsókn. Alltaf kom einhver. Bæði var heimilið stórt en svo þótti fólki al- mennt gott að sækja þig heim. Þú gafst af þér og varst óspör á það. Margar sögur fara af því hvernig þú komst vel fram við alla menn og varst gjöful til þeirra sem minna máttu sín. Ég heyrði ný- lega sögu af því að þú hefðir látið fjármagn og vinnu til þurfandi með gleði. Húsmæðraskólageng- in kona sem lærði einnig til sjúkraliða. Utan heimilis starfað- ir þú bæði á gjörgæslu og hjarta- deildinni sem lengst. Sjúklingar og aðstandendur voru ósviknir að fá umönnun frá þér. Þú varst gáf- uð kona með stórt og mikið hjarta. Þú ert fyrirmynd mín á svo marga vegu. Elsku hjartans amma mín, hvíldu í friði þar til við sjáumst á ný. Þín Nanna Kristín. Elsku amma. Það er skrýtið að hugsa til þess að þú sért farin. Þó svo að andlát þitt hafi ekki verið óvænt breytir það því ekki að ég á erfitt með að trúa því að þú sért farin. Ég var svo viss um að þú myndir sigrast á þessu, þó svo að mér hafi verið sagt að þetta færi bara á einn veg. Þú varst svo sterk og með svo mikið jafnaðar- geð. Ég er þakklát fyrir allar góðu minningarnar. Ein af mínum uppáhaldsminningum er þegar við lágum saman og ég las fyrir þig Sjálfstætt fólk. Ætli ég hafi ekki verið um 10 ára þegar þú réttir mér þessa gömlu bók, sem mér leist nú alls ekkert á, og baðst mig að lesa upphátt úr henni fyrir þig. Ég var ekki sér- lega hrifin af því en þar sem þú bauðst mér pening fyrir hvern kafla sem ég lyki við tók ég tilboð- inu. Ekki leið á löngu þar til ég var farin að lesa bókina við hvert tækifæri, ekki vegna peninganna, heldur vegna þess að mér fannst hún svo skemmtileg. Fyrir nokkru ákvað ég að kíkja aðeins í bókina og fann þar miða sem þú hafðir skrifað til mín. Á hann hafðirðu skrifað ljóðlínur. Þessi miði er nú eitt það dýrmæt- asta sem ég á. Svona varstu sniðug, amma, þú varst alltaf að kenna manni eitt- hvað án þess að maður áttaði sig á því. Ég veit að allir sem þekktu þig lýsa þér sem konu sem var svo op- in og hlý að öllum þótti gott að vera nálægt þér. Húsið þitt var alltaf opið og ég man varla eftir þeim degi þar sem ekki voru kræsingar á borðum og nóg um gesti. Aldrei fór neinn svangur út frá þér og við hlógum mikið að því ég og Hjalti, að í hvert skipti sem við komum talaðir þú um það hvað hann væri orðinn hættulega grannur, ekki skipti þá máli hvort hann hefði bætt töluvert á sig. Þegar við vorum í heimsókn frá Noregi steiktirðu heilan pakka af beikoni fyrir Hjalta á morgnana ásamt nokkrum eggjum því þú vissir að honum fyndist fátt betra en beikon og egg. Hjalti hafði ekki samvisku í að leifa matnum hjá þér svo hann borðaði bara og borðaði. Einnig varstu dugleg að gera fyrir hann grænmetisbúst sem hann píndi ofan í sig; ég held þú sért eina manneskjan sem hef- ur komið ofan í hann grænmeti í þessu magni. Þú varst óeigingjörn og tókst ávallt upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín. Ég mun sakna þín svo mikið, amma, en veit að þú vakir yfir okkur. Takk fyrir allt sem þú gafst mér, minningarnar geymi ég á besta stað í hjartanu, þar munt þú alltaf eiga sérstakan stað. Ég elska þig af öllu hjarta, elsku amma mín, og læt fylgja ljóðlínurnar sem ég fann skrifað- ar á blað í bókinni. Breiddu sængina yfir mig, elsku besta amma mín. Því nóttin kemur og sækir mig, inn í draumaheima. Kristín Bára Jónsdóttir. Þegar ég hugsa um þig, elsku amma, þá sprettur margt fram í hugann. Einna helst er það þegar ég kom í heimsókn til ykkar afa á Smyrlahraunið, sem voru ófá skiptin. Þar fannst mér gott að vera, enda bauðstu fólk alltaf vel- komið til ykkar. Það var notalegt þegar fjölskyldumeðlimir voru samankomnir þar, enda heimili ykkar einskonar samkomustaður fjölskyldunnar. Þú hafðir stórt hjarta sem rúmaði óendanlega ást fyrir fjölskyldu þína og vini og er sú ást gagnkvæm. Mér fannst alltaf gaman að sjá hvað þú varst vel að þér í eldhús- inu og bragðlaukarnir hoppuðu af fögnuði í hvert skipti sem þú gerðir heimabakað brauð, epla- köku, hrærðir skyr, gerðir kjöt- súpu, bakaðir vöfflur eða steiktir pönnukökur. Þegar ég fylgdist með þér baka þær af mikilli snilld þá reyndir þú að kenna mér réttu handbrögðin, en ég komst aldrei með tærnar þar sem þú hafðir hælana. Þú varst nefnilega í hús- mæðraskóla. Skemmtilegt var þegar þú sagðir mér sögur af líf- inu þar. Þú varst alltaf svo falleg og vel tilhöfð. Hárið á þér var mjög flott og mér líkaði að renna fingrunum í gegnum það því að það var svo mjúkt. Þú áttir litríkar hárrúllur sem þú notaðir óspart og þegar ég var yngri þótti mér gaman að leika mér með þær og þegar ég sé rúllur héðan í frá mun ég alltaf tengja þær við þig. Þú varst einn- ig iðin við handavinnu og prjón- aðir af miklum móð. Þú prjónaðir ýmislegt á mig og aðra fjölskyldu- meðlimi, eins og sokka, vettlinga og fleira. Það var einstaklega gaman að fá eitthvað prjónað frá þér. Þú lifir að eilífu í hugskoti okk- ar, elsku amma. Í lokin fylgja kveðjuorð sem Ottó langafi orti, en amma var mjög hrifin af kvæðum pabba síns. Ég leit þig síðast er sjúkdómsaflið þig svipt hafði líkamsþrótt, þín augu lýstu þó andans þreki og ekki var tal þitt sljótt, því sálin var hraust þó viss hún væri um veginn að dauðans leið, hún leit hinn eilífa árdagsroða við útrunnið jarðlífsskeið. (Ottó A. Árnason) Þóra Margrét Karlsdóttir. Í dag kveðjum við elskulega mágkonu okkar Nönnu Ott- ósdóttur. Nanna var glaðlynd og umhyggjusöm húsmóðir sem bjó elsta bróður okkar Bjarnari og börnum þeirra hlýlegt heimili. Á það heimili var alltaf gott að koma og þar áttum við systurnar oft at- hvarf á okkar yngri árum. Á miðjum aldri lærði Nanna til sjúkraliða og er vart hægt að hugsa sér betri umönnun við sjúklinga en hún sýndi með sinni góðu nærveru. Okkur langar að þakka Nönnu fyrir allar ljúfu minningarnar sem koma upp í hugann þegar við minnumst hennar. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (Vald. Briem) Guðrún, Jórunn, Bryndís og Hansína Hrönn. Í dag, 1. maí, hefði Knútur Björnsson lýtalækn- ir orðið 85 ára hefði hann lifað. Ég vil minnast þessa góða manns, sem reyndist mér, drengjunum mínum og nánustu fjölskyldu afar vel. Knútur var mikill mannvinur, hann vildi öll- um vel, var sjúklingum sínum ákaflega góður og var afar fær skurðlæknir eins og flestir vita sem unnu með honum. Vil ég þakka Knúti fyrir ára- langa samferð, bæði sem maka og vinnufélaga. Þú gekkst þá leið að gera allt sem bezt, og göfugt starf þú vannst á þinni æfi. Með viljaþreki og orku vannstu flest, og vegferð þín var öll við góðs manns hæfi. Þú vildir brjóta vinum þínum braut til vegs og þroska, benda öllum hærra. Og menntamannsins heilög þrá og þraut Knútur Björnsson ✝ Guðjón KnúturBjörnsson lýta- læknir fæddist 1. maí 1930. Hann lést 26. ágúst 2014. Útförin fór fram 4. september 2014. var það sem skóp þér verksvið öðrum stærra. Þín hógværð ein var allra fyrirmynd, og alúð þín var hjart- ans bezti strengur. Þú dæmdir vægum orðum annars synd, þinn arfur var að reynast sannur drengur. Þitt trúarheit var heilagt sjálfum þér og hafið yfir allan jarðarskugga. Og heill sé þeim, er gleyma sjálfum sér, er sorgir annars þarf að bæta og hugga. Far heill til drottins heima, dygga sál, til dýrðar hans, sem kveikir fegurst ljósin, sem skilur alla, skilur hjartans mál, sem skilur það, er grætur yngsta rós- in. – Flyt vora bæn að fótskör meistarans til frelsis þeim, sem vilja á Guð sinn trúa. Leið þína vini inn að hjarta hans, sem hefur elskað sérhvern jarðarbúa. (Snæbjörn Einarsson) Sofðu rótt, elsku Knútur minn. Kristjana Ellertsdóttir. Móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og systir, SOFFÍA GUÐMUNDSDÓTTIR, áður til heimilis að Hafnarbraut 8, Dalvík, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri þriðjudaginn 28. apríl. . Guðmundur H. Óskarsson, Arna G. Hafsteinsdóttir, Rakel M. Óskarsdóttir, Gunnar Guðmundsson, Þóra K. Óskarsdóttir, Haukur Jónsson, Óskar A. Óskarsson, Anna Hafdís Jóhannesdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, bróðir, mágur, ástvinur og afi, EINAR ÞORSTEINN ÁSGEIRSSON hönnuður, yfirgaf þessa jarðartilvist þriðjudaginn 28. apríl. Útförin fer fram frá Hallgrímskirkju föstudaginn 8. maí kl. 15. Þeim sem vilja minnast hans er bent á Rauða krossinn. . Sif Einarsdóttir, Ragnar Sverrisson, Ríkharður Einarsson, Guðrún L. Ásgeirsdóttir, Sigrún V. Ásgeirsdóttir, Pétur Guðgeirsson, Þórdís Ásgeirsdóttir, Hjörtur Ingólfsson, Áslaug K. Ásgeirsdóttir, Manuela G. Loeschmann og barnabörnin. Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga. Formáli | Minningargreinum fylgir formáli sem nánustu aðstand- endur senda inn. Þar koma fram upplýsingar um hvar og hvenær sá sem fjallað er um fæddist, hvar og hvenær hann lést og loks hvaðan og klukkan hvað útförin fer fram. Þar mega einnig koma fram upplýs- ingar um foreldra, systkini, maka og börn. Ætlast er til að þetta komi aðeins fram í formálanum, sem er feitletraður, en ekki í minning- argreinunum. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.