Morgunblaðið - 17.06.2015, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 17.06.2015, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. JÚNÍ 2015 Ég kveð ömmu Jonnu með sorg í hjarta. Minningarn- ar ylja og þegar ég lít til baka til bernskuáranna þeg- ar við fjölskyldan bjuggum á Ak- ureyri man ég eftir tilhlökkun okkar systkinanna yfir því að von væri á ömmu og afa til Hjalteyrar. Þau dvöldu á sumrin í Péturshúsi og þá var gaman að fylgja ömmu í hitt og þetta. Leika í fjörunni, ganga í kringum verksmiðjuna, út á granda þar sem Jónshús stóð eða í háu grasinu meðfram tjörn- inni í rabarbaragarðinn. Þá var ómissandi að dorga á bryggjunni eða fara á bátnum út á sjó og veiða á stöng. Þegar vel veiddist stóð amma verkleg í fjörunni og gerði að fiskinum. Í þessu litla sjávar- þorpi sem var samt svo stórt og með mikla sögu lágu rætur ömmu. Þarna hafði hún alist upp með fjórum eldri systrum og síðan gifst afa Bödda sem líka var Hjalt- eyringur. Á Akureyri var hún líka á heimaslóðum þar sem þau afi höfðu bæði verið í menntaskólan- um. Lystigarðurinn minn var líka lystigarðurinn hennar. Það var spennandi að heim- sækja þau afa suður og fá að vera í nokkra daga. Þá var m.a. farið í göngutúra niður í bæ, að höfninni eða niður að tjörn. Þótt tilefnið væri ekki annað en að fara í göngutúr var amma alltaf svo virðuleg og vel til fara og gleymdi aldrei varalitnum. Þegar við flutt- um suður og ég byrjaði í gagn- fræðaskóla bjuggu þau í næsta húsi við nýja skólann og þá var gott að eiga þau að og koma stund- um við eftir skóla. Upp frá því varð ég góðu vön, að hafa ömmu alltaf í næsta nágrenni voru lífs- gæði sem fyrir mér urðu sjálfsögð. Vissir dagar urðu að föstum lið- um í tilverunni eins og að hittast og skera og steikja laufabrauð fyr- ir jólin. Eftir að afi dó var ömmu líka mikilvægt að halda í þá hefð að halda kaffiboð á fæðingardeg- inum hans. Hún hringdi stundum bara til að láta okkur vita að hún ætlaði að baka vöfflur og tók líka glöð við pöntunum um fiskibollur eða grjónagraut. Við vorum alltaf velkomin og það var notalegt að sitja saman og skiptast á fréttum af fjölskyldunni og vinum eða tala um daginn og veginn. Hún deildi fjölbreyttum áhugamálum með okkur barnabörnunum. Hún naut þess að fara á tónleika, í leikhús, horfa á góðar myndir og fylgjast Jónína Árnadóttir ✝ Jónína Árna-dóttir fæddist 17. ágúst 1927. Hún lést 5. júní 2015. Útför Jónínu fór fram 15. júní 2015. með boltaíþróttum í sjónvarpinu, það var ekki gott að hringja þegar það var spenn- andi leikur í gangi. Amma las líka óskaplega mikið og lét ekki áhugaverðar skáldsögur eða ævi- sögur fram hjá sér fara. Þar til fyrir örfá- um árum hélt amma áfram að fara til Hjalteyrar á sumrin þar sem fjölskyldan henn- ar var stundum öll saman komin og tími gafst til góðrar samveru. Hópurinn sem hefur fengið að njóta þess að labba með ömmu um eyrina og heyra sögur af lífinu í þorpinu frá liðnum tíma eða átt með henni aðrar gæðastundir fyr- ir norðan hefur stækkað jafnt og þétt í gegnum árin. Þannig þakkar Gunnar maðurinn minn henni innilega fyrir vináttuna undanfar- in sautján ár og strákarnir mínir sakna hennar, hún var svo góð. Ég útskýri fyrir þeim að þótt við séum sorgmædd að þurfa að kveðja hana þá fögnum við líka lífi hennar og erum glöð að hafa átt hana fyrir ömmu. Katrín. Margt kemur upp í hugann þegar ég hugsa til hennar Jonnu ömmu minnar frá Hjalteyri. Minningar um stórt og smátt eru margar og allar fallegar og góðar. Upp úr standa þó hugsanir um manneskjuna sjálfa. Hlýju henn- ar, gæsku og fegurð. Amma mín var óspör á kær- leika sinn og umhyggju. Hún elsk- aði fólkið sitt skilyrðislaust, hafði einlægan áhuga á öllum í kringum sig, talaði við börn sem jafningja og mátti ekkert aumt sjá. Hún var líka djúpvitur og ráðagóð og ein- staklega hreinskilin. Ég fékk það stundum óþvegið ef hún taldi mig vera á rangri braut en jafnan fylgdu ábendingar um hvað betur mætti fara. Hún var fyrir reglu hún amma mín, taldi öruggast að fólk væri í fastri vinnu og fetaði al- mennt slóð góðra dyggða. Svo vildi hún að ég rakaði mig oftar og gengi sjaldnar í gallabuxum. Líf mitt verður tómlegra eftir að hennar nýtur ekki lengur við. Söknuðurinn er sár en eftir stend- ur að ég að ég naut þeirra forrétt- inda að eiga hana að í 43 góð ár. Auk þess að hugsa um hana get ég best haldið minningu hennar á lofti með því að hafa gildin hennar í heiðri og reyna að verða betri maður. Björn Þór. Ég var fyrst ekki viss um að mig langaði að skrifa minningar- grein þegar það barst í tal, fannst skrýtin tilhugsun að binda niður í fáum orðum minninguna um jafn stóra manneskju í lífi mínu og amma var. Í staðinn fyrir að reyna að koma persónunni ömmu í orð ákvað ég þess vegna að minnast á þau atriði sem standa upp úr þeg- ar ég lít um öxl. Mér finnst ennþá svo óraun- verulegt að amma sé farin að síðan það gerðist er ég nokkrum sinnum ósjálfrátt búinn að hugsa: Ég ætti kannski að kíkja í heimsókn til ömmu. Svo man ég það. Ég reyndi að heimsækja hana eins oft og ég gat, ekki af því að mér fyndist ég þurfa þess eða eiga að gera það heldur af því að ég hafði gaman af því. Ég leit á ömmu sem einn minn besta vin. Það var alltaf gott að kíkja til hennar og enginn möguleiki að komast þaðan öðruvísi en pakk- saddur. Hún kveikti á kaffivélinni um leið og hún heyrði í dyrabjöll- unni og alltaf átti hún eitthvað til að bjóða manni, hvort sem það var ristað eða grillað brauð, súkkulaði, ís eða fiskibollurnar hennar sem ég held fram að séu þær bestu í heimi. Að segjast ekki vera svang- ur var eiginlega ekki í boði. Alveg frá því ég man eftir mér höfum við spilað á spil þegar ég heimsótti hana og þegar ég hugsa til baka eru það stundirnar sem koma fyrst upp í hugann og mér þykir vænst um. Þegar ég var lítill var það ólsen ólsen og veiðimaður, síð- an kenndi hún mér kasínu en lengst af hefur rommý verið okkar spil og skiptin sem við höfum spil- að það hlaupa eflaust á mörgum hundruðum. Ég var alltaf stiga- vörður. Skrifaði stórt J og E aftan á tómt umslag og stigin skilmerki- lega þar á eftir. Ég horfði líka allt- af á landsleiki í handbolta og fót- bolta með ömmu. Þetta var orðið að svo mikilli hefð að mér leið hálf kjánalega þegar ég horfði á leikina annars staðar en við hliðina á henni með kaffibolla í hendinni. Hún var alltaf tilbúin með kvöld- mat handa mér fyrir leikinn eða í hálfleik. Amma var hrifnari af handboltanum, það gerðist meira í honum og hún var dugleg að segja skoðanir sínar á því sem fram fór meðan á leik stóð. Á Hjalteyri var alltaf sérstak- lega gaman að vera þegar amma var í Péturshúsi á sama tíma. Þangað kíkti maður oft og greip í kúluspilið góða eða spilaði á org- elið fyrir ömmu. Alltaf var hljóm- urinn í því jafn góður þótt gamalt væri orðið. Á meðan amma lagði enn rauðsprettunet aðstoðaði ég hana við að gera að. Ég klippti sporðinn og uggana af og amma sá um rest. Amma sagði oft að hún gæti ekki hugsað sér að verða gömul og ósjálfbjarga, það er huggun í því að hugsa til þess núna og gerir manni auðveldara að sætta sig við orðinn hlut. Nú getur hún loksins og langþráð farið að spila aftur við afa Bödda. Við tökum svo í spil aft- ur seinna, amma mín. Egill Halldórsson. Jónínu, eða ömmu Jonnu, kynntist ég fyrir rúmlega 20 ár- um, þegar ég hóf sambúð með elsta barnabarninu hennar. Okkar fyrsti fundur var í veislu hjá henni þar sem vel steikt lambalæri var á borðum. Þessi sterka og hjarta- hlýja kona tók á móti mér með op- inn faðminn og upp frá því tengd- ist ég henni sterkum böndum. Margs er að minnast en upp úr standa allar góðu stundirnar sem við áttum á Hjalteyri. Þar var amma Jonna í essinu sínu. Það þurfti að fara á sjó, gera að aflan- um, dytta að húsinu, fara í göngu- túra og auðvitað spjalla. Allt eins og vera bar. En amma Jonna gat líka komið á óvart og gerði það aldeilis þegar hún heimsótti okkur Björn Þór til Barcelona árið 1998, en almennt hafði hún ekki áhuga á að ferðast til útlanda. Við nutum þess að sýna henni stórborgina en þóttumst vita að hún hefði frekar kosið að eyða sumrinu með okkur á eyrinni sinni eins og venjulega. Ég og mínir menn áttum ótelj- andi stundir við eldhúsborðið hennar þar sem skeggrætt var um þjóðmálin, íþróttir og auðvitað fólkið hennar. Það var dásamlegt að hlusta á palladóma hennar um menn og málefni eða dæma frammistöðu einstakra leikmanna í íþróttaleikjum. Jonna hafði einlægan og falleg- an áhuga á öllu sem viðkom fjöl- skyldunni. Hún fylgdist vel með öllum og miðlaði fréttum af stóru og smáu. Ég er þakklátari en orð fá lýst fyrir hennar hlut í uppeldi Sölva sonar okkar, sem ég tel ómetan- legan. Umhyggjan, þolinmæðin og væntumþykjan sem hún sýndi honum mun fylgja honum í gegn- um lífið. Tilhugsunin um að samveru- stundirnar verði ekki fleiri er sár, en ég hugga mig við að hún fékk að kveðja þennan heim eins og hún sjálf hefði kosið, með reisn. Elsku fjölskylda, missirinn er mikill en minningin um einstaka konu lifir. Ástríður Þórðardóttir. Ég kynntist Jonnu árið 2004 vegna þess ég var „vinur“ dóttur- dóttur hennar, Eddu. Ég var vin- ur Eddu í átta löng ár þangað til við giftum okkur 2012 og síðan þá hef ég fengið að vera eiginmaður hennar. Fólk af kynslóð Jonnu á nefnilega erfitt með orðin „kær- asti“ og „kærasta“. Ég kippti mér þó aldrei upp við það að fá ekki að vera meira en vinur Eddu þegar við fórum í heimsókn á Tjarnar- bólið því að í leiðinni fékk ég að vera vinur Jonnu. Jonna hafði áhuga á íþróttum, listum, fréttum og samtölum um þessi sömu mál. Hún veigraði sér stundum við að fara í boð þar sem aðrir en hennar nánustu voru við- staddir og setti sjaldan upp grímu til að þóknast öðrum; var alltaf hreinskilin og einlæg. Ég kunni að meta hana vegna þess ég taldi okkur nokkuð lík, einkum að því leyti sem ég hef hér talið upp, og henni þótti vænt um mig. Þegar svona hreinskilin kona sýnir manni væntumþykju fer ekki á milli mála að sú væntumþykja er sönn. Ég er glaður að hafa þekkt Jonnu og er sér í lagi þakklátur fyrir þann litla tíma sem við áttum bara tvö saman. Ég fór einn í heimsókn til hennar þegar Edda var úti í löndum og Jonna veigraði sér ekki við að taka á móti mér. Þannig var ég meðal hennar nán- ustu og það met ég mikils. Megi minning ömmu Jonnu lifa. Kári Sigurðsson. Á þriðja áratug síðustu aldar fæddust tvö börn á Hjalteyri við Eyjafjörð með tæplega árs milli- bili. Drengur að nafni Sigurbjörn, yngstur fimm systkina í Péturs- húsi, og stúlkan Jónína, sem var yngst fimm systra í Jónshúsi og systurdóttir skáldsins frá Fagra- skógi. Mörgum árum síðar urðu þessi tvö börn lífsförunautar og eignuðust með tímanum þrjár dætur, Þóru, Snjólaugu og Val- rósu. Jonna og Böddi, eins og þau voru jafnan kölluð, voru alla tíð snar þáttur í lífi fjölskyldu minnar. Böddi var móðurbróðir minn og þau systkin voru samrýnd. Það var því mikill samgangur á milli fjölskyldnanna og fyrstu árin, þegar við systkinabörnin vorum lítil, bjuggum við öll í sama húsi. Síðar fluttu Jonna og Böddi með dæturnar þrjár á æskustöðvarnar á Hjalteyri. Þau settust að í Ás- garði, stóru húsi uppi í brekku þar sem Böddi hafði átt heima ásamt foreldrum sínum, ömmum og systkinum frá árinu 1938. Við fór- um til þeirra árlega á sumrin til lengri eða skemmri dvalar og allt- af var tilhlökkunin sú sama. Eng- inn staður í heiminum var eins dásamlegur og Hjalteyri. Síðar varð mér auðvitað ljóst að allur sá ljómi sem lék um Hjalteyri í barnshuga mínum var ekki síst hlýju og umhyggju Jonnu og Bödda að þakka. Seinna fluttu Jonna og Böddi aftur til Reykjavíkur með dæturn- ar og Ásgarður var seldur. Systk- inin úr Péturshúsi og makar þeirra festu þá kaup á gamla bernskuheimilinu niðri á eyrinni. Þau gerðu húsið upp og þar undu þau sér á sumrin, sóttu sjóinn, veiddu á bryggjunni, dyttuðu að húsinu og spiluðu húsavíkur- manna á kvöldin. Fyrir 20 árum knúði þungur hrammur sorgarinnar dyra þegar Böddi féll frá fyrir aldur fram. Missir Jonnu var mikill og líklega leið ekki sá dagur að hún saknaði ekki bernskufélaga síns og lífs- förunautar. En lífið hélt áfram. Jonna fór til Hjalteyrar á sumrin meðan hún treysti sér til og aldrei brást að hún héldi kaffiboð fyrir fjölskyldu og vini á afmælisdegi Bödda 20. desember. Jonna var myndarleg og skö- rugleg kona. Hún var hamhleypa til verka og það gat sópað að henni. Færi Jonna út að ganga – og það gerði hún oft – var hún auð- þekkjanleg langar leiðir því eng- inn gekk eins rösklega og hún. Hún var skemmtileg og hlátur- mild og hafði auga fyrir skopleg- um hliðum lífsins. Umfram allt var hún kærleiksrík, trygglynd og hlý. Ég kveð hana með þakklæti og virðingu. Blessuð sé minning Jón- ínu Árnadóttur. Dætrum hennar og fjölskyld- um þeirra votta ég innilega sam- úð. Sigrún Ástríður Eiríksdóttir. Jónína Árnadóttir frá Hjalteyri var samstúdent minn frá MA vor- ið 1947. Þá höfðum við verið bekkjarsystkin í fimm ár. Kynni okkar á skólaárunum voru því löng og eftir því góð. Þó fór svo að leiðir skildi eftir stúdentspróf. Er lengra leið á ævina tók hópurinn okkar að sameinast aftur á skipu- legum endurfundum, sem raunar hafa haldist fram á þennan dag, þó að nokkuð hafi fjarað út um þátt- tökuna af eðlilegum ástæðum. Ekki gefst hér rými til að bera saman tvenna tímana, en þess er vert að minnast að af 49 stúdent- um MA ’47 voru aðeins fjórar kon- ur, þrjár úr máladeild en ein úr stærðfræðideild. Raunar kom sú góða kona sem fór í stærðfræði- deildina ekki í okkar hóp fyrr en á lokaárinu, en hafði þá tafist frá námi tvö ár vegna veikinda. Til stóð að hún lyki prófi 1945. Jónína Árnadóttir var myndar- kona í sjón og raun, komin af kunnum norðlenskum ættum og rótgrónum í Möðruvallasókn. Þóra Stefánsdóttir móðir hennar var frá Fagraskógi, systir Davíðs skálds, en faðir hennar, Árni Jóns- son, símstjóri og framámaður á Hjalteyri, var sonur Jóns Antons- sonar í Arnarnesi, sem var ekki aðeins umsvifamikill í búskap og útgerð, heldur lærður og víðkunn- ur skipasmiður og skipstjóri á skútuöld og listgáfa í þeirri ætt. Jónína hafði því ekki langt að sækja myndarskap, menningar- brag og góðar gáfur. Hún var með sanni vinsæl í okkar hópi. Við, hin gömlu skólasystkin Jonnu, minnumst hennar með virðingu og færum ættingjum hennar einlæga samúðarkveðju við lát hennar. Ingvar Gíslason. Mig langar að minnast Völu vin- konu minnar, skóla- stelpu úr Verslun- arskólanum. Þarna var mætt falleg lífsglöð stúlka með ljósa lokka, tindrandi augu og bleikan varalit. Var gáfuð og framúrskarandi í tungumálum. Þarna var á ferðinni gömul sál. Veitti ráð eins og móðir, studd- um hvor aðra í gegnum flókin mótunarár ungra stúlkna. Vala kenndi mér margt, m.a. þraut- seigju og metnað, var ávallt með hugmyndir að lausnum. Völu þótti mikilvægt að fara reglulega í bíltúr og stoppa í ís- búðinni í Álfheimum og kaupa Vala Ingimarsdóttir ✝ Vala Ingimars-dóttir fæddist 28. janúar 1974. Hún lést 1. júní 2015. Útför Völu fór fram 10. júní 2015. stóran jarðarberja sælgætishræring, hugsa að 1 tonn af ís væri rétt mat. Ófáar voru stund- irnar hjá ömmu Völu – á Dunhaga – þar sá ég hvernig Vala hefði orðið sem gömul kona. Amma á Dunhaga var svo vitur, menn- ingarleg, dul og æv- intýraleg. Vala var strax virkur þátttakandi í félagslífinu á þess- um árum. Ég man á öðru árinu kom upp atvik þar sem Vala var að vinna að 4. bekkjar bókinni og var að setja inn myndir úr fé- lagslífinu. Henni fannst ekki í lagi að finna ekki eina mynd af mér og dró mig í frímínútum inn á salerni í skólanum og smellti af mér myndum. Svona var Vala, hugulsöm og útsjónarsöm. Ég á minningar um samtöl okkar fram á nótt þar sem við skegg- ræddum heimsmálin og framtíð- ina. Þegar kom að útskriftar- ferðalagi kom ekki annað til greina en taka mig með en ég hafði hætt námi eftir verslunar- prófið tímabundið. Áttum ynd- islegar stundir í Portúgal, þar komumst við Vala þó að því að sambúð okkar var kannski ekki á dagskrá, ég fröken raða öllu í röð og Vala fröken skipulagða „kaos“, en samt með allt á vísum stað. Vala sem varð strax súkku- laðibrún og sæt stóð ofan í bað- kerinu og bar á vinkonu sína jarðarberjajógúrt til að kæla brunann á fröken freknu. Þarna var mikið hlegið. Vala var sú eina sem ég þekki sem skrældi sveppi fyrir mat- reiðslu þeirra, var mikill sæl- keri. Vala var glæsileg og vakti eftirtekt fyrir fas sitt hvarvetna. Ég man ennþá Beverly Hills 273-ilminn sem fór henni svo vel, Chanel-eyrnalokkana og fallegu slæðurnar. Ég man kvöldið á Hótel Sögu þegar þau Bjarni hittust. Við vorum staddar á Bogomil Font-balli annan í jól- um, Bjarni heillaði Völu strax upp úr skónum, var myndarleg- ur, hávaxinn og vel máli farinn. Ef litið er um farinn veg valdi Vala sannarlega lífsförunaut með þann styrk, ást og hugrekki sem framtíð þeirra krafðist. Ég trúi því að lífið leiði fólk saman með ásetningi og þegar því lýkur þá þurfi fólk stundum að fara í sitthvora áttina. Þannig var það með okkur Völu. Síðustu ár heyrðumst við lítillega og fylgdist ég með áræðni hennar þegar hún undirbjó stofnun ValaMed. Ástríða hennar fyrir því að hjálpa öðrum rak hana áfram og hennar verður minnst fyrir ValaMed, hugrekki og viljastyrk um ókomna tíð. Jarð- arför Völu í Hallgrímskirkju 10. júní 2015 var einlæg og falleg í hennar anda og snerti mína hjartastrengi. Ég votta fjöl- skyldu hennar mína dýpstu sam- úð, eiginmanni hennar Bjarna Þórði og börnum þeirra Bryn- dísi Líf og Ingimar Stefáni. Lifi minning hennar og megi vernd- arengill Völu gæta ykkar alla tíð. Anna Þóra Ísfold. Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga. Skil | Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morgunblaðslógóið í hægra horninu efst og viðeigandi liður, „Senda inn minningargrein,“ valinn úr felliglugganum. Einnig er hægt að slá inn slóðina www.mbl.is/sendagrein Minningargreinar www.uth.is -uth@uth.is Stapahrauni 5, Hfj. - Sími 565-9775 Frímann s: 897 2468 Hálfdán s: 898-5765 Ragnar s: 772-0800 Ólöf s: 898 3075 ÚTFARARÞJÓNUSTA HAFNAFJARÐAR FRÍMANN & HÁLFDÁN ÚTFARARÞJÓNUSTA

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.