Dagblaðið Vísir - DV - 28.03.2011, Blaðsíða 12

Dagblaðið Vísir - DV - 28.03.2011, Blaðsíða 12
12 | Fréttir 28. mars 2011 Mánudagur Bjarni Benediktsson og faðir hans Benedikt Sveinsson seldu verulegt magn hlutabréfa í Glitni í febrúar árið 2008, nokkrum mánuðum fyr- ir íslenska efnahagshrunið. Þetta kemur fram í hluthafalista Glitnis yfir 250 stærstu hluthafa bankans á árunum 2006 til 2008 sem DV hef- ur undir höndum. Svo virðist því sem þessir aðilar hafi verið búnir að missa trúna á Glitni talsvert löngu áður en bankinn hrundi í lok sept- ember 2008. Út frá hluthafalistanum virðist sem Glitnir hafi byrjað að lenda í verulegum vandræðum með hluta- bréf í bankanum strax í febrúar 2008. Líkt og DV greindi frá á föstu- daginn seldi bandaríski bankinn Citibank rúmlega 300 milljón hluti í þeim mánuði og tveir bréfberar – aðilar sem bankinn leitaði til til að taka við bréfunum með tryggðri fjár- mögnun frá bankanum – Rákungur og félag í eigu fjárfestingarfélagsins Sunds, keyptu rúmlega 560 milljónir hluta í bankanum. Gengi hlutabréfa í Glitni var 16,95 á hlut í lok febrú- ar 2008 þannig að um var að ræða viðskipti upp á nærri tíu milljarða króna. Í báðum tilfellum var Glitnir sjálfur seljandi bréfanna til Rákungs og dótturfélags Sunds. Tóku við láni frá Morgan Stanley Febrúarmánuður 2008 var mikil- vægur í sögu Glitnis banka. Í þessum mánuði, líkt og DV hefur fjallað um í mörgum fréttum, tók Glitnir með- al annars við fjármögnun eignar- haldsfélagsins Þáttar International, sem var einn stærsti hluthafi Glitn- is, frá bandaríska fjárfestingarbank- anum Morgan Stanley vegna þess að bandaríski bankinn vildi ekki lengur fjármagna hlutabréfin. Með þessari yfirtöku jókst áhætta Glitnis vegna lána til tengdra aðila umtals- vert en lánið frá Morgan Stanley til Þáttar International nam 217 millj- ónum evra, rúmlega 20 milljörðum króna. Þáttur International var fjár- festingarfélag í eigu félaga Karls og Steingríms Wernerssona og Einars og Benedikts Sveinssona og átti það 7 prósenta hlut í bankanum. Bjarni Benediktsson kom að þessari end- urfjármögnun á Glitnisbréfunum, Vafningsviðskiptunum svokölluðu, með því að veðsetja hlutabréf Einars og Benedikts í Vafningi hjá Glitni. Þessi hlutabréf voru veð fyrir láninu frá Glitni sem notað var til að endur- greiða Morgan Stanley. Ástæðan fyrir því að Morgan Stanley krafðist endurgreiðslu á lán- inu til Þáttar International var að gengi hlutabréfa í Glitni var kom- ið niður fyrir tiltekið lágmark sem kveðið var á um í lánasamningi félagsins við bandaríska bankann, og því hefði bankinn getað leyst hlutabréf félagsins í Glitni til sín og selt þau á markaði. Óvíst er hins vegar að kaupendur hefðu fund- ist að bréfunum og því hefði hluta- bréfaverð í Glitni getað tekið enn meiri dýfu ef Morgan Stanley hefði gert þetta. Glitnir ákvað því að lána Þætti International fyrir uppgreiðslu á láninu við Morgan Stanley. Glitnir tók því við áhættunni af hlutabréfa- eign Þáttar International sem áður hafði hvílt á Morgan Stanley. Seldu rúmlega 57 milljónir hluta Áhugavert er að sjá að á sama tíma og þetta gerðist seldu þeir Benedikt Sveinsson og sonur hans Bjarni, sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokks- ins og nú formaður flokksins, nærri 57,5 milljónir hluta í Glitni. Þetta kemur fram á hluthafalistanum sem blaðið hefur undir höndum, líkt og áður segir. Söluverðmæti þessara hluta- bréfa í Glitni hefur því samtals ver- ið um 975 milljónir króna miðað við það að lokagengið á hlutabréfunum í Glitni hafi verið 16,95 í lok febrúar 2008. Miðað við að hlutabréfaverð í Glitni hafði farið hríðlækkandi frá því þegar það komst í hæstu hæðir í júlí 2007, þá fór gengið í rúmlega 30, er kannski ekki skrítið að svo marg- ir hafi selt bréf sín þegar þarna var komið sögu. Morgan Stanley hafði misst trúna á Glitni, líkt og veðkallið vegna Glitnisbréfa Þáttar sýnir, sem og Citibank og aðrir virðast í aukn- um mæli einnig hafa byrjað að gera það líka. Benedikt Sveinsson seldi bæði tæplega 35 milljónir hluta sem voru skráðir á hann persónulega og eins rúmlega 15 milljónir hluta sem eignarhaldsfélag hans Hafsilfur átti. Heildarverðmæti bréfa sem Bene- dikt seldi var tæpar 850 milljónir. Hlutabréfaeign Benedikts og Hafsilf- urs í Glitni hafði verið talsvert meiri tæpu ári áður, rúmlega 200 milljónir hluta, en hann seldi bróðurpart bréfa sinna í apríl 2007 þegar Milestone og Benedikt og Einar bróðir hans seldu stærstan hluta bréfa sinna í Glitni til FL Group og tengdra aðila. Benedikt hélt hins vegar eftir um 50 milljón hlutum. Benedikt og Bjarni seldu því þau Glitnisbréf sín sem þeir áttu pers- ónulega á sama tíma og Glitnir tók við fjármögnuninni á hlutabréfa- eign Þáttar International í Glitni af Morgan Stanley. Eftir þessi viðskipti keyptu þeir ekki aftur bréf í Glitni fram að bankahruninu 2008, sam- kvæmt hluthafalistanum. Ekki keypt með lánum, segir Bjarni Samkvæmt hluthafalista Glitnis eignaðist Bjarni sín bréf í bankan- um, upphaflega tæplega 8,7 milljónir hluta, í janúar 2007 þegar faðir hans og föðurbróðir voru stórir hluthafar í bankanum ásamt Milestone. Verð- mæti þessara bréfa í janúarlok 2007 var um 220 milljónir króna miðað við að lokagengi á bréfum í Glitni var þá 25,3 á hlut. Í febrúar 2008 var þessi hlutabréfaeign Bjarna komin niður í tæplega 7,45 milljónir hluta. Mið- að við gengið á hlutabréfum Glitnis í febrúarlok 2008 var söluverðmætið um 126 milljónir. Í skýrslu rannsóknarnefndar Al- þingis kom fram að Bjarni hefði verið með útistandandi 174 milljóna króna lán í íslenska bankakerfinu í ársbyrj- un 2008. Bjarni sagði, aðspurður um þá lánafyrirgreiðslu í apríl í fyrra, að hann hefði greitt upp þessi lán árið 2008. Bjarni segir aðspurður að hann hafi ekki fjármagnað hlutabréfaeign sína í Glitni með lántökum. DV sendi honum fyrirspurn þar sem hann var meðal annars spurður að því hvort umrædd 174 milljóna króna skuld í skýrslunni hefði verið tilkomin vegna kaupa hans á hlutabréfunum í Glitni sem rætt er um hér. Svo var þó ekki samkvæmt Bjarna. „Ég get þó stað- fest að ég eignaðist ekki hlutabréf í Glitni með lántökum,“ segir Bjarni í skriflegu svari við fyrirspurn DV. Bjarni vill hins vegar ekki svara öðrum spurningum DV um hluta- bréfaviðskiptin, en DV lék meðal ann- ars forvitni á að vita af hverju hann keypti bréfin, fyrir tilstuðlan hvers, og hvers vegna hann seldi. Í svari sínu ber Bjarni því fyrir sig að um sé að ræða hans persónulegu fjármál. „Ég mun ekki tjá mig frekar við þig um mín persónulegu fjármál.“ Samkvæmt svörum Bjarna lagði hann því sjálfur út fjármuni fyrir hlutabréfunum í Glitni í ársbyrjun 2007. Ef þetta var raunin tapaði Bjarni nokkrum tugum milljóna króna á við- skiptunum þar sem hlutabréfaverð í Glitni lækkaði umtalsvert, um meira en 8 krónur á hlut, frá því Bjarni keypti bréfin þar til hann seldi þau rúmu ári síðar. Margir aðrir seldu Fleiri seldu hlutabréf sín í Glitni um þetta leyti, á fyrstu mánuðum árs- ins 2008, og byrjaði Glitnir í auknum mæli að styðjast við óhefðbundnar aðferðir við að koma hlutabréfunum yfir til nýrra kaupenda eftir því sem fleiri og fleiri hluthafar gengu úr skaft- inu. Fræg dæmi um slíkar aðferðir í tilfelli Glitnis er sala á hlutabréfum til Stíms, Rákungs og félaga í eigu Sunds. Margir af hluthöfum Glitnis, sem voru framámenn í íslensku viðskipta- og jafnvel stjórnmálalífi, virðast því hafa verið búnir að missa trúna á Glitni strax í ársbyrjun 2008. Lítið sem ekk- ert var hins vegar um þetta rætt í fjöl- miðlum eða annars staðar í samfé- laginu fram að hruninu. Fjallað verður áfram um hluthafa- lista Glitnis og kaup og sölu á bréfum í bankanum fram að hruninu 2008 í næsta blaði. Bjarni seldi bréf sín í Glitni í febrúar 2008 n Bjarni Benediktsson og Benedikt Sveinsson seldu Glitnisbréf sín í febrúar 2008 n Vafningsviðskiptin fóru fram á sama tíma n Heildarverðmæti viðskiptanna var um 975 milljónir n Bjarni segist ekki hafa tekið lán fyrir bréfunum„Ég get þó staðfest að ég eignaðist ekki hlutabréf í Glitni með lántökum. Seldi í sama mánuði og Vafningsvið- skiptin fóru fram Bjarni Benediktsson seldi hlutabréf í Glitni, sem hann hafði keypt í bank- anum í ársbyrjun 2007, í febrúar 2008. Þetta var í sama mánuði og Vafningsviðskiptin fóru fram. Hluthafalisti Glitnis Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri skrifar ingi@dv.is 2. hluti

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.