Dagblaðið Vísir - DV - 09.05.2014, Page 49
Hæstiréttur Íslands hefur synjað beiðni DV um áfrýjunarleyfi vegna dóms í meiðyrðamáli sem Héraðs-
dómur Reykjavíkur felldi í lok árs í fyrra. Fjárfestirinn Jón Þorsteinn Jónsson höfðaði málið gegn DV ehf., Reyni
Traustasyni, ritstjóra DV, og Inga F. Vilhjálmssyni, ritstjórnarfulltrúa á DV, og hafði betur. Ummæli sem fallið
höfðu í DV um gjaldeyrisviðskipti Jóns Þorsteins voru þá dæmd dauð og ómerk.
Hæstiréttur Íslands sendi lögmanni DV og lögmanni Jóns Þorsteins Jónssonar erindi í dag um að málið
verði ekki tekið fyrir í réttinum. Sækja þurfti um áfrýjunarleyfi í málinu vegna þess að upphæð bótanna sem
héraðsdómur dæmdi Jóni Þorsteini var undir tilskildum mörkum til að hægt væri að áfrýja málinu beint til
Hæstaréttar Íslands.
Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var DV gert að birta niðurstöðu og dómsorð í málinu. Það er
gert hér í kjölfarið á niðurstöðu Hæstaréttar Íslands.
Niðurstaða
„Við aðalmeðferð málsins kom stefnandi fyrir dóminn og gaf skýrslu, stefndi Ingi Freyr Vilhjálmsson gaf skýr-
slu í síma og Guðmundur Örn Jóhannsson bar vitni fyrir dóminum.
Í málinu liggja fyrir þrír lánasamningar, sem stefnandi gerði fyrir milligöngu vitnisins Guðmundar Arnar við
félagið CCP Systems Ltd. Þeir eru samtals að fjárhæð um það bil 30 milljónir króna og er vitnið sjálfskuldará-
byrgðarmaður á þeim, ásamt Bóasi Bóassyni, fyrirsvarsmanni félagsins. Upplýst þykir að vitnið Guðmundur
Örn leitaði til stefnanda um lánsfé til skamms tíma, gegn rausnarlegum vöxtum, og kvað tilgang lántökunnar
vera kaup á hlutabréfum í fasteignasölu í Bandaríkjunum. Lánveiting stefnanda mun hafa byggst á þeim upp-
lýsingum og því að Guðmundur Örn ábyrgðist endurgreiðslu lánsins. Lánsféð mun ekki hafa komið frá Íslandi
og það hefur aðeins að litlu leyti verið endurgreitt stefnanda. Upplýsingar um aðra lánasamninga milli þessara
aðila hafa ekki komið fram í málinu og báru stefnandi og vitnið á sama veg fyrir dóminum um að þeir hefðu
enga aðra lánasamninga gert en þessa þrjá.
Samkvæmt framburði vitnisins Guðmundar Arnar hafði hann jafnframt, fyrir þóknun sér til handa, haft
um það milligöngu fyrir Bóas Bóasson, fyrirsvarsmann félagsins CCP Systems Ltd., að koma á samningum við
ýmsa fjárfesta, sem tilbúnir væru til að leggja til fé gegn háum vöxtum. Slíkir samningar, sem hann hafi komið
að, hafi numið um 150 milljónum króna í heildina og hafi Bóas í einhverjum tilvikum notað féð til gjaldeyrisvið-
skipta sem sköpuðu hagnað. Framburður vitnisins um þetta getur samræmst þeim lýsingum sem fram koma
í frétt DV og greinargerð stefndu á viðskiptum sem fari á svig við gjaldeyrishöft og hafi það að markmiði að
hagnaður myndist þegar fé sé flutt frá Íslandi. Skömmu áður en umstefnd ummæli um stefnanda birtust í DV,
eða þann 31. október 2012, var fjallað um gjaldeyrisviðskipti vitnisins Guðmundar Arnar og umrædds Bóasar
í frétt á Stöð 2 og byggja varnir stefndu í máli þessu að nokkru á þeirri umfjöllun, þó að þar hafi ekkert komið
fram um að stefnandi tengdist þeim viðskiptum sem þar var fjallað um.
Fram er komið í málinu að féð, sem stefnandi lánaði samkvæmt umræddum þremur lánasamningum,
kom ekki frá Íslandi, heldur mun það hafa verið millifært í erlendum gjaldmiðlum frá Danmörku til Bandaríkj-
anna. Þá er fram komið að stefnandi hefur ekki fengið lánsféð endurgreitt nema að litlu leyti. Enda þótt vitnið
Guðmundur Örn kunni að hafa tekið þátt í að útvega fjármagn til viðskipta eins og þeirra sem lýst er í frétt DV
og greinargerð stefndu, þá hefur ekkert komið fram í málinu sem renni stoðum undir þá fullyrðingu stefndu að
framangreindar lánveitingar stefnanda tengist þeirri starfsemi.
Stefndi Ingi Freyr Vilhjálmsson gaf skýrslu í síma við aðalmeðferð málsins. Hann neitaði því að svara
spurningum um það á hverju umfjöllun hans í blaðinu hefði byggst, hvort sem væru munnlegar eða skriflegar
heimildir og vísaði til lagaákvæða um vernd heimildarmanns. Hann kvaðst þó ekki vitandi vits hafa skýrt rang-
lega frá í frétt sinni.
Við málflutning af hálfu stefndu kom fram að viðurkennt sé að fjármunirnir sem stefnandi lánaði hafi ekki
komið frá Íslandi, það hafi verið misskilningur blaðamanns sem valdið hafi þeirri rangfærslu. Einnig, að þeir
samningar sem fyrir liggi nemi mun lægri fjárhæð en nefnd sé í fréttinni. Sjónarmið um vernd heimildarmanna
komi í veg fyrir að stefndu geti upplýst nánar um grundvöll umfjöllunarinnar í DV.
Af öllu því sem fram er komið í málinu verður ekki betur séð en að umstefnd ummæli séu í öllum meginat-
riðum ósönn. Það sem fram kemur í yfirlýsingu stefnanda til fjölmiðla, í kjölfar umfjöllunar stefndu, á sér á hinn
bóginn stoð bæði í gögnum málsins og skýrslum fyrir dómi. Í frétt stefnda Inga Freys 12. nóvember 2012 kom
fram, að reynt hefði verið án árangurs að hafa samband við stefnanda áður en hin umstefndu ummæli voru birt.
Yfirlýsing stefnanda til fjölmiðla var birt í DV 14. nóvember 2012, en samhliða henni var birt frétt um að í
yfirlýsingunni væru rangfærslur og að DV hefði heimildir fyrir því að fjárhæðir sem stefnandi lánaði hefðu ver-
ið talsvert hærri en 30 milljónir króna og að hann hafi fengið fjármunina aftur eftir að búið hafi verið að færa
fjármunina úr landi. Svo sem fram er komið hafa stefndu hvorki stutt þær fullyrðingar rökum né gögnum fyrir
dóminum. Yfirlýsing stefnanda gaf stefndu þó fullt tilefni til að sannreyna heimildir sínar og gæta þannig að
þeim skyldum sínum að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni, sbr. 1. mgr.
26. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Tilmælum lögmanns stefnanda um afsökunarbeiðni og beiðni hans um
leiðréttingar ummæla var í engu sinnt af hálfu stefndu.
Í málflutningi af hálfu stefndu var byggt á því að viðskipti í trássi við gjaldeyrishöft væri samfélagslega
mikilvægt málefni sem brýnt erindi ætti við almenning. Því ættu fjölmiðlar að njóta meira svigrúms við um-
fjöllun um það en leiði af almennum reglum, svo sem staðfest hafi verið í dómaframkvæmd Mannréttinda-
dómstóls Evrópu. Stefnandi hafi verið áberandi í viðskiptalífi á Íslandi og því þurfi hann að sætta sig við opin-
bera umfjöllun um viðskiptamál sín í fjölmiðlum umfram aðra borgara. Af þeim sökum beri að sýkna stefndu af
kröfum stefnanda í málinu. Þessum sjónarmiðum stefndu, sem fyrst komu fram við munnlegan málflutning,
mótmælti lögmaður stefnanda sem of seint fram komnum málsástæðum fyrir sýknukröfum. Að mati dómsins
tengjast þau álitaefni, hvaða svigrúm fjölmiðlar skuli njóta við umfjöllun sína, þeim lagagrundvelli, sem stefn-
andi byggir málsókn sína á, með þeim hætti að ekki yrði lagður dómur á málið án þess að þau kæmu til skoðun-
ar, hvort sem þeirra hefði verið getið í greinargerð eða ekki.
Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í
2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir
dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins
má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu
eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samræmist lýð-
ræðishefðum. Tjáningarfrelsi er samkvæmt þessu mikilvæg grundvallarréttindi sem vernduð eru af stjórnar-
skránni og verða takmarkanir á því að eiga sér örugga stoð í settum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum
um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir. Verður því að skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegn-
ingarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af þessu.
Þótt óumdeilt megi telja, að grundvöllur 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, um að allir séu frjálsir skoðana sinna
og sannfæringar, ætli hinni þjóðfélagslegu umræðu hámarksvernd, þá er einnig til þess að líta að þær takmark-
anir sem felast í 3. mgr. sömu greinar, um takmarkanir sem lög mega setja tjáningarfrelsinu, eiga sér m.a. sér stoð
í 71. gr. stjórnarskrárinnar um vernd friðhelgi einkalífs. Umfjöllun sem felur í sér nafn- og myndbirtingu þarf ekki
að hafa neitt sérstakt gildi fyrir umræðu og umhugsun í lýðræðisþjóðfélagi. Slík tjáning mætir hinum andstæðu
hagsmunum einkalífsverndar í einni af sinni sterkustu mynd. Fjölmiðlaveitur gegna mikilvægu lýðræðishlutverki,
njóta ríks tjáningarfrelsis og þjóna upplýsingarétti almennings, en jafnframt skulu þær gæta hófs og ábyrgðar
þegar önnur mannréttindi, ekki síst jafnrétti og friðhelgi einkalífs, eru í húfi. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga um fjöl-
miðla, nr. 38/2011, skal fjölmiðlaveita virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs, nema lýðræðis-
hlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.
Stefnandi og fjölskylda hans voru áberandi í íslensku viðskiptalífi um árabil eins og rakið er í frétt stefnda
Inga Freys og skilmerkilega er gerð grein fyrir því í umfjöllun stefndu að stefnandi afpláni nú refsidóm vegna
afbrota sinna á sviði viðskiptalífsins. Þær aðstæður stefnanda eru til þess fallnar að vekja sérstaka athygli
lesenda ritmiðils og vefmiðils stefndu þegar þar er fullyrt, með áberandi myndbirtingum af honum, að hann sé
sekur um brot gegn lögum um gjaldeyrishöft.
Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur umfjöllun um málefni sem teljast hafa samfé-
lagslega þýðingu, verið játað æ meira svigrúm í jafnvægismati við vernd friðhelgi einkalífs. Umfjöllun um brot
gegn lögum um gjaldeyrishöft verður að telja af því tagi. Það verður þó að gera þá kröfu til fjölmiðla að slíkt
svigrúm sé þá í raun notað til þess að fjalla um hin samfélagslega mikilvægu málefni. Jákvæðum áhrifum
þess að fjölmiðlar hafi í þeim tilvikum aukið svigrúm til að birta ósönnuð ummæli án eftirmála, yrði auðveld-
lega snúið upp í andhverfu sína, ef það svigrúm er notað til þess eins að heimila fjölmiðlum að fjalla fremur
um mennina, sem þeir ætla að almenningur hafi áhuga á að lesa um, en málefnin sem talin eru hafa samfé-
lagslega þýðingu. Stefndu hafa í máli þessu fullyrt að heimildir séu fyrir hendi um stórfellda fjármagnsflutn-
inga úr landi, þó að það hafi reynst vera misskilningur að lánsféð frá stefnanda hafi komið frá Íslandi. Eftir að í
ljós kom að stefnandi ætti þar ekki hlut að máli hefur lítið farið fyrir umfjöllun stefndu um þau umfangsmiklu
viðskipti í trássi við gjaldeyrishöft, sem stefndu halda fram að verið hafi tilefni umfjöllunar þeirra og þeir hafi
heimildir fyrir og sem gæti haft samfélagslega þýðingu að fylgja eftir. Því virðist það fremur hafa verið tilgang-
ur fréttarinnar sem mál þetta snýst um að vekja athygli á stefnanda en gjaldeyrisviðskiptunum.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur
almennings hafi krafist þess að hin umstefndu ummæli um stefnanda yrðu birt og staða hans í þjóðfélaginu
réttlætir ekki þá umfjöllun.
Í staðhæfingum stefndu, sem öll umstefnd ummæli vísa til með einum eða öðrum hætti, um að stefnandi
hafi staðið í hundruð milljóna króna fjármagnsflutningum frá Íslandi í trássi við lög um gjaldeyrishöft, sem
hann hafi dulbúið sem lánaviðskipti, felast ærumeiðandi aðdróttanir um athæfi sem verða myndi virðingu
stefnanda til hnekkis, sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli
ómerk, ef sá krefst þess, sem misgert var við. Með vísun til atvika málsins og þess að ekkert hefur komið fram
í málatilbúnaði stefndu sem renni stoðum undir sannleiksgildi þess sem fjallað er um í hinum ærumeiðandi
ummælum, sem teljast verða óviðurkvæmileg, ber að ómerkja þau. Því verður fallist á dómkröfur stefnanda í
kröfuliðum nr. 1 og 2 og ummælin sem þar eru tilgreind verða ómerkt.
Stefnandi gerir þá kröfu á hendur stefndu, Reyni Traustasyni og Inga Frey Vilhjálmssyni, að þeir verði
dæmdir óskipt til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt
1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi málsins til greiðsludags. Byggir
stefnandi þessa kröfu á 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, en samkvæmt b-lið 1. mgr. ákvæðisins er heimilt
að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða
miskabætur til þess sem misgert var við. Af hálfu stefndu er miskabótakröfunni mótmælt sem allt of hárri og
að hún sé í engu samræmi við dómvenju eða þann miska sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir. Fallist er á að í
hinum ærumeiðandi ummælum samkvæmt fyrsta og öðrum kröfulið í stefnu, sem ómerkt verða, felist ólög-
mæt meingerð gegn æru stefnanda þar sem ummælin eru til þess fallin að valda honum álitshnekki. Krafan á
hendur stefnda Inga Frey er byggð á ummælum í frétt sem merkt er honum sem blaðamanni, sbr. a-lið 1. mgr.
51. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Krafan á hendur stefnda Reyni byggist á ábyrgð hans sem ritstjóra vegna
ummæla sem birtust á forsíðu, sbr. c-lið 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla, enda hafa stefndu ekki tilgreint annan
ábyrgðarmann, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna. Fallist verður á kröfu stefnanda um miskabætur, sem eftir atvik-
um þykja hæfilega ákveðnar 300.000 krónur og verða stefndu Reynir og Ingi Freyr dæmdir til greiðslu þeirra
óskipt. Vextir dæmast eins og greinir í dómsorði.
Krafa stefnanda um að stefndu Reynir og Ingi Freyr verði dæmdir óskipt til að greiða stefnanda 400.000
krónur til að standa straum af birtingu dómsins og forsendna hans í tveimur dagblöðum, Morgunblaðinu og
Fréttablaðinu, og tveimur netmiðlum, www.visir.is og www.mbl.is, styðst við það að nauðsynlegt sé, til að
tryggja nægjanlega útbreiðslu dómsins, að birtingin fari fram víðar en í DV og netmiðli DV til að hann fái upp-
reist æru. Fjárhæð kröfunnar byggist á almennu, uppgefnu verði á auglýsingum hjá framangreindum miðlum,
sem stefnandi hefur lagt fram upplýsingar um í málinu. Stefndu hafa ekki stutt sýknukröfu sína vegna þessar-
ar dómkröfu neinum málsástæðum eða rökum og hafa ekki mótmælt fjárhæð hennar. Samkvæmt 2. mgr. 241.
gr. almennra hegningarlaga má dæma þann, sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða
þeim, sem misgert var við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms,
atriðisorða hans eða forsendna jafnframt, eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleir-
um. Með því að skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt og ekkert hefur komið fram í málinu til stuðnings því að kröf-
unni beri að hafna, verður fallist á hana, eins og hún er fram sett og verða stefndu, Reynir og Ingi Freyr, sem
báðir hafa reynst sekir um ærumeiðandi aðdróttanir, dæmdir óskipt til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð.
Stefnandi gerir þá kröfu á hendur stefnda DV ehf. að stefnda verði dæmt til að birta dómsforsendur og
dómsorð í málinu í ritmiðlinum DV og á netmiðlinum www.dv.is í næstu útgáfum beggja miðla eftir dómsupp-
sögu að viðlögðum 50.000 króna dagsektum frá þeim útgáfudögum að telja. Af hálfu stefndu er því haldið
fram að engin efni séu til að verða við kröfunni, en andmælin eru ekki studd frekari rökum. Samkvæmt 59. gr.
laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, má ákveða í dómi að viðlögðum dagsektum, þegar fjölmiðlaveitu eða öðrum
þeim sem ber ábyrgð á efni samkvæmt lögunum er dæmd refsing, ummæli ómerkt eða fébætur dæmdar, eftir
kröfu þess sem misgert er við, að forsendur og dómsorð skuli birt þegar um ritmiðil er að ræða og skal þá birta
dómshlutann með sama hætti og annað efni viðkomandi miðils og á þeim stað að eftir verði tekið. Með vísan
til þessa ákvæðis og framangreindrar niðurstöðu um ómerkingu ummæla og ákvörðun fébóta verður fallist á
kröfu stefnanda á hendur stefnda DV ehf., þar með talið um fjárhæð dagsekta.
Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður
stefndu, Inga Frey og Reyni, gert að greiða óskipt málskostnað stefnanda, 1.365.694 krónur, að meðtöldum
virðisaukaskatti af málflutningsþóknun, 274.444 krónum. Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, DV ehf.,
fellur niður.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Eftirfarandi ummæli sem birt voru á forsíðu DV 12. – 13. nóvember 2012 í 131. tbl. 102. árg., eru dauð og
ómerk:
Laumaði stórfé úr landi.
Dulbúið sem lánaviðskipti.
Hundruð milljóna millifærð.
Eftirfarandi ummæli sem birt voru á bls. 8 í DV 12. – 13. nóvember 2012 í 131. tbl. 102. árg., eru dauð og
ómerk:
Jón Þorsteinn Jónsson hefur staðið í hundruð milljóna fjármagnsflutningum frá Íslandi á síðastliðnum
árum í trássi við gjaldeyrishaftalögin.
Hefur flutt hundruð milljóna úr landi.
Þegar fjármunirnir eru komnir frá Íslandi og inn á erlenda bankareikninga greiðir lántakandinn peningana
aftur til lánveitandans.
Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs og einn af erfingjum Nóatúns á sínum tíma, hef-
ur flutt mörg hundruð milljónir króna í erlendum gjaldeyri frá Íslandi á þessu ári og því síðasta.
Eini tilgangurinn með viðskiptunum er að koma gjaldeyri út úr landinu í trássi við höftin þó svo að viðskipt-
in sé(u) skilgreind sem lán.
Stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Reynir Traustason, greiði stefnanda óskipt 300.000 krónur í miskabæt-
ur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 17. janúar 2013
til greiðsludags.
Stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Reynir Traustason, greiði stefnanda óskipt 400.000 krónur til að
standa straum af birtingu dómsins og forsendna hans í tveimur dagblöðum, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu,
og tveimur netmiðlum, www.visir.is og www.mbl.is.
Stefndi, DV ehf., skal birta forsendur og dómsorð dóms þessa í næsta tölublaði DV og í næstu útgáfu www.
dv.is, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur, frá þeim útgáfudögum að telja.
Stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Reynir Traustason, greiði stefnanda óskipt 1.365.694 krónur í
málskostnað, þar af er virðisaukaskattur af málflutningsþóknun 274.444 krónur.
Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, DV ehf., fellur niður.
Kristrún Kristinsdóttir“
Niðurstaða og dómsorð héraðsdóms
Mál Jóns Þorsteins Jónssonar gegn DV verður ekki tekið fyrir í Hæstarétti Íslands