Dagblaðið Vísir - DV - 03.06.2014, Blaðsíða 19

Dagblaðið Vísir - DV - 03.06.2014, Blaðsíða 19
Vikublað 3.–5. júní 2014 Skrýtið 19 Látnir ferðast á fyrsta farrými Heimildarmynd varpar ljósi á hvernig lík eru falin í flugi F lugfélagið British Airways viðurkenndi loksins á dögun- um, eftir áratuga þögn, fyrir heimildamyndagerðarmönn- um frá BBC hvert verklag flug- þjóna sé ef einn farþega skyldi deyja í miðju flugi. Í heimildamyndinni segir leiðbeinandi flugþjóna að rétt meðhöndlun látins farþega sé á gráu svæði enn þann dag í dag. Að færa látna farþegann inn á klósettið segir hann þó stranglega bannað. „Það er bæði ókurteisi og svo er líkið ekki fest með belti þegar flugvélin lendir. Það er engin reisn yfir því. Látni farþeg- inn gæti runnið af klósettinu og end- að úti á gangi,“ segir leiðbeinandinn. Þar að auki hafa komið upp tilvik í löngum flugferðum þar sem dauða- stirðnun hefur hafist og taka hefur þurft klósettið í sundur við lendingu til að komast inn. Önnur algeng aðferð á árum áður hjá British Airways var að hreyfa einfaldlega ekki við látna farþegan- um og dulbúa hann svo hann virtist sofa. „Þetta er eitthvað sem við gerð- um einu sinni; við settum vodka og tónik á borðið, dagblað í hendurnar og sólgleraugu á nefið. Þá var eins og viðkomandi væri sofandi. Við gerum þetta samt ekki lengur,“ segir leið- beinandinn. Í dag er hins vegar al- gengast að látni farþeginn sé færður í sæti á fyrsta farrými, helst ekki við hliðina á lifandi farþega. Líkið er svo vandlega hulið með teppum og fest kirfilega með belti. Sé setið í öllum sætum flugvélarinnar þá er líkinu komið fyrir fremst í vélinni og það vafið sem múmía með teppum. „Það er ekkert skemmtilegt fyrir flugþjóna að lenda í þessu. Ég þekki einn sem þurfti að sitja við hliðina á líki alla flugferðina til að tryggja að það færi ekki á flug,“ segir leiðbeinandinn. n British Airways Í heimildamynd BBC kemur fram hvernig lík í háloftum hafa verið meðhöndluð af flugfélaginu. Endurheimtur 35 árum síðar Bóndi í Norður-Noregi datt í lukkupottinn á dögunum þegar hann fann trúlofunarhring sem hann týndi fyrir 35 árum. Hringurinn týndist þegar bóndinn, Jan Kristian Kristiansen, var að dreifa áburði á akur við býli sitt árið 1979. „Við leituðum og leituðum en fundum hann ekki,“ segir Jan við norska fjölmiðla. Hann segir að eiginkona hans, Britt, hafi grínast með það að það yrði verkefni fornleifafræðinga framtíðarinnar að finna hringinn. Ótrúleg er að hringurinn hafi fundist því hann var á fimmtán sentímetra dýpi undir jarðvegin- um. Eftir að Jan áttaði sig á því að hringurinn hefði týnst fór hann og keypti annan, alveg eins, og gengur hann nú með þá báða. Aðdáendur Frozen hópast til Noregs Norsk ferðamálayfirvöld þakka Disney-teiknimyndinni Frozen að hluta fyrir mikla fjölgun ferða- manna frá Bandaríkjunum til Nor- egs á fyrstu mánuðum ársins. Fjölg- unin fyrstu þrjá mánuðina nam 37 prósentum miðað við sama tímabil í fyrra. Frozen, sem frumsýnd var í fyrra, naut mikilla vinsælda. Hún er að hluta til byggð á ævin- týri eftir H. C. Andersen og gerist í ævin týraheiminum Arendelle sem byggður er á norskri náttúru. Á vefnum Visit Norway er sérstök undirsíða sem heitir Frozen og hef- ur hún verið heimsótt tæplega 300 þúsund sinnum. Þá má geta þess að Disney og Innovation Norway gerðu með sér samning áður en myndin var frumsýnd sem kvað á um að Noregur fengi sérstaka kynn- ingu í kynningarefni fyrir myndina. Afinn skilaði milljónunum Bandaríkjamaðurinn Joe Corn- ell, 52 ára afi og fyrrverandi hermaður, gerði það eina rétta þegar poki stútfullur af pen- ingum féll út úr peningaflutn- ingabíl í Fresno á dögunum. Cornell var í sjálfboðastarfi hjá Hjálpræðishernum þegar hann tók eftir pokanum á göt- unni og ákvað að kanna hvað hann innihéldi. Í ljós kom að í honum voru 125 þúsund dalir, eða rúmar 14 milljónir króna. Cornell segist hafa hugsað hvað hann ætti að gera; hvort hann ætti að taka peningana eða skila þeim. Sjálfur segir hann að hann hafi lítið milli handanna og raunar aðeins verið með einn Bandaríkjadal á sér og því hafi þetta hvarfl- að að honum. Peningaflutn- ingafyrirtækið þakkaði Cornell fyrir heiðarleika hans og verð- launaði hann með því að gefa honum fimm þúsund dali, 570 þúsund krónur. Þá lét fyrir- tækið sömu upphæð renna til Hjálpræðishersins þar sem Cornell var í sjálfboðastarfi. Bronson smyr sig enn smjöri n Þekktasti fangi Bretlands trylltist þegar Hull tapaði fyrir Arsenal Þ ekktasti fangi Bretlands, Charles Bronson, missti stjórn á skapi sínu enn eina ferðina á dögunum er fót- boltaliðið Hull tapaði gegn Arsenal í úrslitaleik ensku bikar- keppninnar. Smurði hann sig með smjöri, líkt og hann hefur oft áður gert, og lúskraði á tólf fangavörð- um áður en tókst að koma á hann böndum. Hefur Bronson verið meira og minna í fangelsi alla sína ævi og er oft titlaður hættulegasti fangi Bretlands. Skrautlegri ævi hans var gefin skil árið 2008 í kvik- myndinni Bronson, en hinn geð- þekki leikari Tom Hardy túlkaði fangann. Bronson, sem er sextíu og eins árs, er eindreginn stuðnings- maður Hull. Sleipur eins og áll Breska dagblaðið The Mirror hefur undir höndum bréf frá Bronson sjálfum til vinkonu hans utan veggja fangelsisins þar sem hann skýrir betur frá atvikinu með sín- um eigin orðum. „Vondar fréttir. Ég lenti í öðru skrölti. Í þetta skipti gegn óeirðasveit. Þetta var sólríkur dagur. Arsenal var að keppa á móti Hull og að sjálfsögðu vildi ég að mínir menn hefðu betur. Ég kyngi þó fyrr tönnunum en stoltinu svo ég smurði mig með smjöri,“ skrifar Bronson. því fer fjarri að þetta sé í fyrsta skipti sem Bronson smyr sig með smjöri, en að hans sögn ger- ir hann það til að fangaverðir geti síður tekið hann föstum tökum. Að sögn breskra fjölmiðla brotnaði rifbein í Bronson í bröltinu. Hann smurði sig seinast með smjöri fyrir fjórum árum og náði hann þá að yfirbuga fjóra fangaverði áður en hann var klófestur. Frjáls í 122 daga Bronson var fyrst fangelsaður árið 1974 fyrir ýmsa minniháttar glæpi. Var hann þá dæmdur í aðeins sjö ára fangelsisvist en vegna sífellds vandræðagangs var sú vist fram- lengd í fjórtán ár. Í heildina hefur hann verið færður milli fangelsa alls hundrað og tuttugu sinnum og hefur hann því á einhverjum tíma- punkti verið í hverju einasta fang- elsi Bretlands. Honum var hleypt út úr fangelsi árið 1988, en þá liðu aðeins sextíu og níu dagar þar til hann var handtekinn á ný. Honum var aftur hleypt út árið 1992, en þá var handtekinn aftur aðeins fimm- tíu og þremur dögum síðar. Líkamsræktarfrömuður og listamaður Í gegnum árin hefur Bronson ítrekað stundað nokkurs konar eins manns uppþot. Hefur hann barið samfanga og tekið fangelsisstarfs- fólk í gíslingu. Telja slík atvik tugi. Hefur Bronson vegna þessa verið í einangrun meira og minna síðast- liðin tuttugu ár. Árið 1999 var hann dæmdur í lífstíðarfangelsisvist fyrir að taka bókasafnsvörð í fangelsi sem gísl. Úr því varð umsátursástand sem varði í fjörutíu og fjóra klukkutíma. Í kjölfar þess sagði Bronson sjálfur að ástæðan fyrir því uppþoti hafi ver- ið gagnrýni bókasafnsvarðarins á teikningar hans. Þrátt fyrir áratuga fangelsisvist hefur Bronson ekki setið auðum höndum. Árið 2002 gaf hann út líkamsræktarbók þar sem lýst er hvernig hægt sé að koma sér í form í lokuðu rými. Í seinni tíð hef- ur hann þó einna helst einbeitt sér að myndlist og ljóðagerð, með nokk- uð góðum árangri. Málverk hans voru meðal annars sýnd um tíma í neðanjarðarlestakerfi London og hefur hann unnið listaverðlaun fanga, kennd við Koestler, alls ellefu sinnum. n Hjálmar Friðriksson hjalmar@dv.is Lífstíðarfangi Bronson er oft nefndur hættulegasti fangi Bretlands. Þrátt fyrir að vera kominn á sjötugs- aldur nær hann ítrekað að yfirbuga fangaverði. „Ég kyngi þó fyrr tönnunum en stoltinu svo ég smurði mig með smjöri

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.