Dagblaðið Vísir - DV - 04.07.2014, Blaðsíða 54
Helgarblað 4.–7. júlí 201454 Menning
Fátæktin er eina byrðin sem
þyngist eftir því sem fleiri bera
hana. Þessi raunalegu sannindi
róta upp í huga manns þegar
rápað er um verstu fátækrahverfi
heims. Það er eins og neyðin
sem við blasi geri aðkomu-
manninn jafn innantóman og
vondaufan og allsleysið getur
verið algert.
Í þetta sinn var ég á sveimi við
annan mann um Suður-Afríku,
það góða og gjöfula land á enda
álfunnar miklu – og tilefnið var
að gera svolítinn sjónvarpsþátt
um endalok aðskilnaðarstefn-
unnar og þá friðsamlegu leið
sem farin var úr þeim ógöngum
öllum. Mættu þar margir síðari
tíma leiðtogar læra margt um
stórmennsku og hugdirfsku.
Öll var ferðin eftirminni-
leg en enginn kafli hennar þó
eins áhrifaríkur og renniríið
um rennvota moldarstígana í
Khayelitsha, alræmdasta skúra-
bæli Höfðaborgar á suðvestur-
horni Afríku, en það nýtur þess
vafasama heiðurs að vera í flokki
þriggja stærstu slömmanna á
heimsins byggða bóli.
Khayelitsha var nánast reist
á rösku ári, svo fljótt lá mönn-
um á að freista gæfunnar eftir að
aðskilnaðarstefnunni var aflétt
í landinu – og vel að merkja;
þeldökkir íbúar sveitanna gátu
loks um frjálst höfuð strokið og
ferðast um landið að vild. Og
allra vegur var til stærstu borg-
anna, ekki síst þeirrar ríkustu
þar sem hvíti minnihlutinn hafði
makað krókinn um áratugaskeið
– og setið þar einn að öllum
bestu bitunum.
Mörg hundruð þúsund
manns streymdu til Höfða-
borgar á fyrstu misserunum
eftir Apartheid, einkum unga
fólkið; nærri helmingur íbúa
Khayelitsha var undir tvítugu og
vel innan við tíund af íbúunum
yfir fimmtugu. Og þarna spruttu
upp úr jörðinni óskipulögðustu
hverfi hjalla og hreysa í einni
óskaplegri bendu og ringulreið;
byggingarefnið það sem næst
var hendinni, pappakassar og
mykja, ellegar gatslitið bárujárn
fyrir þá heppnari.
Mér fannst lyktin þrengja að
allri öndun. Það var fyrsta tilf-
inningin. Þéttur daunninn var
engu lagi líkur; eitthvert sam-
bland af lífi og dauða, eldi og
ýldu, reykjarsvælu og rotnun.
Um leðjudeiga stígana flaut allt
sem af gekk manni og mús. Og
hafi maður reynt að vanda sig í
fyrstu hvar drepið var niður fæti,
þá vandist það fljótt að láta sig
bara hafa það.
Þarna á milli kofaskriflanna
komum við auga á nokkra bráð-
unga pilta í tötrum sínum sparka
á milli sín bolta sem teipaður var
saman úr útnýttum fatagörm-
um. Það var ekki eins og allsleys-
ið í kring væri eitthvað að spilla
einlægri leikgleði þessara iða-
knáu drengstúfa. Og nokk sama
var þeim um alla ofandemb-
una sem steyptist yfir þá af einu
gnægtinni sem hægt var að hafa
á þessum stað.
Ég gleymi ekki markstöngun-
um; lærleggir tveir úr einhverri
stórfættri skepnu, líklega kú og
klárlega hvorki helgri né heilagri.
Þarna loks varð gleðin lyktinni
yfirsterkari. Og lífsfjörið eymd-
inni megnugri. Og einmitt þarna
mátti sjá að einu gildir um að-
stæður; hvarvetna sækir lífið í
leikinn.
Úr vegabréfi Sigmundar Ernis
Knattspyrnan
í Khayelitsha
Á
dögunum kom út leikurinn
EA Sports UFC sem kætti ef-
laust einhverja af þeim mý-
mörgu sem tekið hafa ástfóstri
við MMA, blandaðar bardagalistir, á
undanförnum árum. Hér er í raun
um að ræða tíunda UFC-tölvuleik-
inn, en þann fyrsta frá risanum EA
Sports sem um langt skeið hefur
verið ókrýndur konungur íþrótta-
tölvuleikja. Eins og nafnið gefur til
kynna er leikurinn unninn í sam-
starfi við UFC, stærsta og virtasta
MMA samband heims.
Það er óhætt að segja að hér sé
um metnaðarfullan tölvuleik að
ræða. Hægt er að bregða sér í hlut-
verk 97 bardagakappa og að sjálf-
sögðu eru öll stærstu nöfnin í UFC
þar á meðal. Með tíð og tíma verð-
ur hægt að kaupa sérstakar viðbæt-
ur, þar á meðal Gunnar Nelson, sem
mun kæta íslenska áhugamenn um
MMA. Því miður var hann ekki fá-
anlegur þegar þessi umfjöllun var
rituð, aðeins minni spámenn eins
og Bruce Lee og Royce Gracie – ef
svo má segja.
Fyrir þá sem þekkja lítið til MMA
gæti leikurinn reynst pínulítið flók-
inn til að byrja með. Í byrjun leiksins
stendur þér til boða að fara í gegn-
um alla helstu grunnþættina sem
hjálpar minni spámönnum tölu-
vert. MMA er margslungin íþrótt
og er óhætt að segja að takkar og
hreyfipinnar PS4-fjarstýringarinn-
ar séu nýttir til hins ítrasta. Þetta er
kannski helsti kostur og galli leiks-
ins; hvað hann er margslunginn og
hversu langan tíma tekur meðal-
manninn að læra öll helstu trixin í
bókinni.
Það fyrsta sem maður tekur eft-
ir í leiknum er hversu sturluð graf-
íkin er. Ljóst er að mikið hefur verið
lagt í að gera kappana eins raun-
verulega og mögulegt er, þar á með-
al styrkleika þeirra og veikleika. Öfl-
ug netspilun gerir mönnum kleift
að keppa hvenær sem er sín á milli
og þá er hægt að fara í svokall-
að Career-mode sem byggist á The
Ultimate Fighter-raunveruleika-
þáttunum.
Bardagarnir sem slíkir í leikn-
um eru heilt yfir nokkuð raunveru-
legir, sérstaklega þegar barist er
standandi. Þegar komið er í gólfið
eiga þeir til að vera heldur klunna-
legir, eða vélrænir. Þegar allt kemur
til alls er EA Sports UFC leikur sem
ætti að gera heilan helling fyrir þá
sem hafa virkilegan áhuga á MMA,
en ekki síður þá sem vilja kynna sér
íþróttina betur. n
Margslungin slagsmál
Einar Þór Sigurðsson
einar@dv.is
EA Sports UFC
Tegund: Bardagaleikur
Spilast á: PS4, Xbox One
Einkunn á Metacritic: 69
Tölvuleikur
Flottur EA Sports UFC býr yfir magnaðri
grafík.
N
eil Young ætti að vera
löngu dauður. Í hans til-
felli var það þó ekki rokk-
stjörnulífernið sem var ná-
lægt því að leggja hann í
gröfina. Ungur var hann greindur
með sykursýki og árið 1951, fimm
ára gamall, fékk hann lömunar-
veiki og var vart hugað líf. Hann
náði sér af þessu, en var síðar
greindur með flogaveiki sem hefur
háð honum síðan.
Hótaði tökumönnum
Þegar hann var 15 ára skildu for-
eldrar hans og hann flutti ásamt
móður sinni á Vestur-Íslendinga-
slóðir í Winnipeg, Manitoba. Eins
og margir af hans kynslóð vildi
hann verða eins og Elvis, en tókst
betur upp sem þjóðlagarokkari
með hljómsveitinni Buffalo Spr-
ingfield eftir að hafa flutt til Los
Angeles. Í kjölfarið gerði hann
tvær sólóplötur og gekk svo til liðs
við Crosby, Stills og Nash, sem þá
voru ein vinsælasta hljómsveit í
heimi. Þeir komu saman á Wood-
stock, en Young neitaði að koma
fram í myndinni og hótaði að berja
myndatökumenn með gítarnum ef
þeir kæmu nálægt honum. Platan
Deja Vu með hljómsveitinni CSNY
sló svo í gegn og skriður komst á
sólóferil Young.
Kynþáttadeilur í
Suðurríkjunum
Í upphafi 8. áratugarins gerði hann
meistaraverkin After the Goldrush
og Harvest. Í laginu Southern Man
gagnrýndi hann kynþáttastefnu
Suðurríkjamanna, og Suðurríkja-
hljómsveitin Lynyrd Skynyrd svar-
aði fyrir sig með því að semja lagið
Sweet Home Alabama þar sem þeir
sögðust lítið þurfa á Neil Young að
halda. Lagið Heart of Gold af Har-
vest fór í fyrsta sæti í Bandaríkj-
unum og hinar miklu vinsæld-
ir komu Neil Young á óvart. Hann
virtist vilja losna undan byrðinni
og gerði í kjölfarið plötur sem
seldust svo illa að plötufyrirtæk-
ið vildi vart gefa út, en hafa hlot-
ið uppreisn æru í seinni tíð. Undir
lok áratugarins heillaði hann nýja
kynslóð með plötunni Rust Never
Sleeps, pönkarinn Johnny Rott-
en fór um hann fögrum orðum og
hann vann með hljómsveitinni
Devo. Sama saga endurtók sig ára-
tuginn á eftir. Young fékkst við tón-
list sem þótti svo lítið söluvænleg
að plötufyrirtækið Geffen fór í mál
við hann vegna þessa. Loks laus
frá Geffen gaf hann út metsölu-
plötuna Freedom árið 1989, sama
ár og Rolling Stones, Bob Dylan,
Paul McCartney, Lou Reed og jafn-
vel Alice Cooper áttu allir glæsta
endurkomu á vinsældalistana.
Cobain deyr með
Neil Young á vörunum
Rocking in the Free World náði í
annað sætið og sú kynslóð sem
kennd var við gruggtónlist tók
hann upp á arma sína svo að hann
var kallaður Guðfaðir gruggsins.
Sonic Youth, Pixies og Nick Cave
ásamt fleirum tóku upp plötuna
The Bridge honum til heiðurs,
hann gaf út plötu með Pearl Jam og
æðstipresturinn Kurt Cobain vís-
aði í texta hans í sjálfsmorðsbréfi
sínu. Young endurreisti hljómsveit
sína Crazy Horse, en gaf síðan út
kassagítarplötuna Harvest Moon
og kom fram á MTV Unplugged.
Platan Sleeps With Angels tókst
á við dauða Cobain og sama ár
samdi hann tónlist fyrir mynd Jim
Jarmusch, Dead Man. Neil Young
tók árásirnar 11. september til sín
og samdi lagið Let‘s Roll um hetju-
dáð farþega á flugi 93 sem tókust
á við flugræningjana. Hann kom
fram ásamt Pearl Jam á tónleikum
til stuðnings eftirlifendum og um
tíma virtist hann styðja hefndar-
stríð Bush yngri.
Gegn Íraksstríði
Þetta breyttist þó eftir því sem af-
leiðingar urðu ljósar og árið 2006
gaf hann út plötuna Living With
War, sem fjallar öll um afglöp Bush
í Írak og þar sem hann leggur til
að forsetinn verði ákærður. Plat-
an hefur svosem ekki staðist tím-
ans tönn vel, en sem mótmæli er
hún eitthvað það beinskeyttasta
sem gamla hippakynslóðin hef-
ur sent frá sér síðan í Víetnam-
stríðinu. Á plötunni nefnir hann
Obama, sem var þá nánast óþekkt-
ur, sem góðan arftaka og var hér
heldur á undan sinni samtíð. Árið
2012 var tilkynnt á sjónvarpsstöð-
inni NBC að Neil Young væri lát-
inn, en það var þá annar Neil,
geimfarinn Armstrong, sem hafði
verið lagður í gröfina. Young býr
enn á búgarði sínum í Kaliforníu
sem hann keypti fyrir rúmum 40
árum fyrir ágóðann af störfum sín-
um með CSNY. Þetta sama ár kom
út sjálfsævisagan Waging Heavy
Peace, sem hann segist hafa skrif-
að þegar hann var farinn að koma
að tómum kofunum varðandi laga-
smíðar. Bókin dregur upp mynd
af sérvitringi sem hefur mikinn
áhuga á að búa til hljóðflutnings-
kerfi sem geti komið í staðinn fyrir
mp3, sem honum finnst ekki koma
tónlistinni til skila.
Lestarmódel og rafbílar
Jafnframt hefur hann mikinn áhuga
á lestarmódelum og fær lestarsett
frá fjölskyldu sinni hver jól. Þessu
áhugamáli hefur hann sinnt ásamt
sonum sínum en þeir þjást báð-
ir af heilalömun. Kona hans, Pegi,
stofnaði skólann Bridge School á
níunda áratugnum fyrir þá sem
eiga við fötlun að stríða, og á
hverju ári koma Neil Young og vin-
ir hans fram á tónleikum til styrkt-
ar skólanum. Annað af áhugamál-
um Young er að búa til rafbíl, og er
ætlun hans að keyra á slíkum þvert
yfir Bandaríkin til höfuðborgarinn-
ar til að sýna fram á notagildi slíkra
bíla. Babb kom í bátinn þegar bíll-
inn var skilinn eftir í sambandi
yfir nótt og brann, ásamt miklu
safni verka hans. Neil Young og
Crazy Horse hafa á undanförnum
árum einbeitt sér að því að gefa út
tökulagaplötur sem endurspegla
bandaríska tónlistarsögu, Amer-
icana kom í hittifyrra og í ár kom
platan A Letter Home. Af því tilefni
munu þeir spila í Laugardalshöll-
inni á mánudagskvöld. n
Neil Young lifir enn
n Saga goðsagnarinnar n Heldur tónleika á Íslandi á mánudag
Valur Gunnarsson
valurgunnars@gmail.com
Neil Young Hefur
mikinn áhuga á
rafbílum og lestar-
módelum.