Lögmannablaðið - 01.06.2014, Blaðsíða 26
26 LÖgmannaBLaðið TBL 02/14
efni greinar Á léttUM nÓtUM
af merði lögmanni
Mörður er orðinn úttaugaður af áhyggjum yfir þessum gríðarlega fjölda lögmanna sem spretta upp
eins og fíflar í túni. Flest sumur hingað til hefur Mörður getað dvalið langdvölum á æskustöðvunum
á Ströndum og í mesta lagi hangsað yfir einstaka aumingjabúi. Nú þorir hann ekki fyrir sitt litla
líf að taka sér sumarfrí.
Það er ekki einungis að baráttan um búin sé orðin blóðug heldur stendur yfir kapphlaup við allan
þennan skara af lögmönnum sem eru sínkt og heilagt að tjá sig um öll möguleg og ómöguleg mál í
fjölmiðlum, auglýsa sérsniðnar lausnir og ókeypis hitt og þetta. Á meðan fækkar kúnnum hjá gömlum
glímuköppum í stéttinni og Mörður getur ekki einu sinni stólað lengur á að taka að sér einstaka
sjálfboðastarf fyrir ríkið því hann á ekki roð í allar lögfreyjurnar sem eru komnar langleiðina
með að taka yfir þá málaflokka.
Mörður brá á það ráð fyrir nokkru að leita ráða hjá kunningja sínum, gömlum bekkjarfélaga úr
MR sem er sérfræðingur í almannatengslum, um hvernig mætti auka líkur á að næla sér í kúnna.
Ekki væri verra ef það væri góður kúnni, svokallaður mjólkurkú(nni). Kunninginn ráðlagði honum
að stofna fésbókarsíðu og halda úti heimasíðu með upplýsingum um stórkostleg júridísk afrek og
yfirburði. Einnig auglýsa í útvarpi, sjónvarpi, www.bland.is, gefa álit sitt á öllu sem til umtals
væri í samfélaginu í fjölmiðlum og hafa samband við fólk af fyrra bragði sem hann vissi að hefði
verið beitt misrétti.
Mörður hefur fylgt ráðum kunningja síns en það hefur hins vegar ekki skilað árangri. Ekkert
mjólkurbú, ekki einu sinni stök kú. Það eina sem Mörður hefur haft upp úr þessu eru útgjöld og
leiðindasímtöl frá gömlum skjólstæðingum sem telja lýsingar á hæfileikum og þjónustu Marðar ekki í
samræmi við eigin eftirtekjur.
Mörður hefur því einbeitt sér að því uppá síðkastið að fylgjast með umræðu líðandi stundar til
að geta fyrstur komið að sínu sérfræðilega áliti og jafnvel krækja í einstaka verk í leiðinni.
Mörður hefur í nokkur skipti hringt í óánægða einstaklinga sem komið hafa fram í fjölmiðlum til að
bjóða fram þjónustu sína en í öll skiptin fengið þau svör að viðkomandi hafi þegar ráðið lögmann,
þann fyrsta (af mörgum) sem hafi hringt. Sonur Marðar sem hann átti með sambýliskonu númer
þrjú er því byrjaður að hanna „app“ sem lætur Mörð vita í hvert sinn sem talað er um lögfræði
í spjallþáttum, fréttatímum og umræðum á netinu svo hann geti brugðist við og orðið fyrstur á
vettvang óréttlætis.
Mörður hefur verið að velta fyrir sér að breyta um klæðaburð til að skapa sér sérstöðu meðal
lögmanna. Til dæmis að fá sér einkennisklæðnað í anda Ofurmennisins; bláar sokkabuxur og rauða
skó. Það gæti líka farið vel við skikkjuna og gengi vonandi betur en síðasta auglýsing Marðar.
Eftir nokkra tvöfalda yfir Júróvision klæddi hann sig í brjóstahaldara og gegnsæjan kjól, sem
síðasta sambýliskona hafði skilið eftir í svefnherbergisskápnum fimm árum fyrr, tekið „selfie“
og skrifað á fésbókina að slíkur klæðnaður hefði fært mörgum manninum sigra, jafnt í söng sem í
sveitastjórnum, og að Mörður væri stofnfélagi í nýju skemmtifélagi innan LMFÍ, Félagi karla-jússa
(skammstafað FKJ) sem hygðist klæða sig upp í kjóla og hittast reglulega.
Hins vegar féll komman niður í ú-inu og töldu lögfreyjur og fjölmargar aðrar orðljótar konur að
þarna væri kvenfyrirlitning á ferð. Þær þóttust ekki kannast við að gælunafnið jússi væri notað
um júrista, móðguðust heiftarlega og hafa klögubréf yfir framkomu Marðar hrannast upp á skrifstofu
LMFÍ auk þess sem athugasemdakerfi nokkurra vefmiðla hrundi þegar fúkyrðaflaumur yfir framkomu
Marðar fór af stað.
Eini lóusöngurinn í lífi Marðar þessa dagana er að hann hefur nú eignast sína fyrstu bifreið
frá því Ladan hans gafst upp í miðri búsáhaldabyltingu. Þannig var að Mörður brá sér á uppboð hjá
sýsla í vikunni og fékk fyrir skotsilfur alveg ágætan fararskjóta, fólksbifreið sem áður hafði
verið í eigu eins kollega hans. Kolleganum, sem er neytendafrömuður mikill og rað-frambjóðandi,
hafði misboðið ofríki stofnunar einnar sem heimtar gjald fyrir jafnvel ljótustu bilastæði
borgarinnar og það á öllum tímum sólarhringsins. Réttlætiskennd kollegans kom í veg fyrir að hann
greiddi fyrir afnot af bílastæði með þeim afleiðingum að bifreiðin var nú komin í eigu Marðar. Með
í kaupunum fylgdu svo allskyns eigulegir munir frá fyrri eiganda; framboðsbæklingar og fjölmargar
mismunandi útgáfur af stjórnarskrá lýðveldisins.
Já, eins manns „prinsipp-gól“ geta breyst í annars manns hjól, hugsaði Mörður þegar hann lagði
nýja bílnum, tók upp i-símann og greiddi fyrir með bílastæða-appinu. Svo tók hann „selfie“ og
setti með orðtakinu nýja á fésbókina.