Lögmannablaðið - 01.06.2014, Blaðsíða 30
30 LÖgmannaBLaðið TBL 02/14
Aðsent efni
steinDÓr DAn Jensen, löGfræðinGUr
miKiL VeRðmÆTi FeLAST í góðu léni
og verða þau reglulega tilefni deilna.
Í þannig málum háttar oftar en ekki svo
til að eigandi vörumerkis telji rétthafa
léns brjóta gegn vörumerkjarétti sínum
með skráningu og notkun á léninu.
Í deilumálum um lén er sóknaraðili því
jafnan vörumerkjaeigandi, en varnaraðili
rétthafi léns. nokkrar leiðir eru færar
til úrlausnar slíkrar deilu og reynir í
þeim efnum á mismun andi reglur fyrir
mismunandi úrskurðar aðilum.
udrp
Alþjóðlegt yfirbragð og landamæraleysi
netsins valda því að deilur innan þess
geta orðið ærið þungar í vöfum vegna
álitaefna er lúta að lögsögu. udRP
(Uniform domain name Dispute Reso-
lution Policy) er stefna, eða kerfi, sem
ætlað er að sporna við þess háttar
erfiðleikum hvað varðar deilur um
lén. Kerfinu svipar að mörgu leyti
til fyrirkomulags gerðardóma. Flest
hinna stærstu höfuðléna, þar með talin
.com, .org og .net, eru aðilar að udRP,
og gangast rétthafar sjálfkrafa undir
stefnuna samhliða skráningu léns undir
þessum höfuðlénum. Á heims vísu er
udRP sá farvegur sem langflest deilu-
mál um lén feta, en árlega er leyst úr
þúsundum mála fyrir udRP-úrskurðar-
nefndum.
Sóknaraðili að udRP-máli þarf
að færa sönnur á þrennt. Í fyrsta lagi,
að hið umdeilda lén sé nákvæmlega
eins eða ruglingslega líkt vörumerki
(e. trademark) eða þjónustumerki (e.
service mark) í eigu sóknaraðila. Í öðru
lagi, að varnaraðili eigi hvorki rétt til
lénsins né lögmætra hagsmuna að gæta
varðandi það. Í þriðja lagi, að lénið hafi
verið skráð og það notað í vondri trú. Af
framkvæmd má ráða að hugtökin í fyrsta
liðnum eru túlkuð rúmt og krafan um
ruglingshættu talin auðuppfyllt. Þá eru
vægar kröfur gerðar til sönnunar annars
liðarins og má því fullyrða að mest mæði
á hinum þriðja, um að lén hafi verið
skráð og notað í vondri trú. Raunar sýnir
tölfræðin að sóknaraðilar bera sigur úr
býtum í 85-90% allra udRP-mála og
hefur kerfið verið gagnrýnt fyrir að vera
helst til hliðhollt vöru merkjaeigendum á
kostnað rétthafa léna.
Þess skal getið að ekki verður
leyst úr deilum um .is-lén fyrir udRP-
úrskurðarnefnd. Íslenskir deiluaðilar
geta eigi að síður nýtt sér udRP-leiðina,
til að mynda ef deila þeirra lýtur að
.com-léni.
deilur um .islén
Þegar leysa þarf úr deilu milli vöru-
merkjaeiganda og rétthafa .is-léns koma
einkum þrjár leiðir til greina. Fyrst er að
nefna úrskurðarnefnd léna, sem starfar
samkvæmt iX. kafla reglna internets á
Íslandi hf. (iSniC) um lénaskráningu. Í
40. gr. reglnanna er að finna þríliðaða
efnisreglu, keimlíka þeirri sem lýst var í
umfjölluninni um udRP að ofan. nokkur
blæbrigða munur er þó á reglunum,
einkum hvað snertir fyrsta skilyrðið, en
reglur iSniC gera þá kröfu að lén sé „eins
og skrásett vörumerki sem orðmerki hjá
einkaleyfastofu, sem skráð var áður en
lénið var skráð“. Veldur þessi munur því
öðru fremur að mál eru sóknaraðilum
torsóttari fyrir úrskurðarnefnd léna en
gengur um udRP-úrskurðarnefndir.
Í annan stað leysir neytendastofa
úr deilum um lén á grundvelli laga
um eftirlit með viðskiptaháttum og
markaðssetningu nr. 57/2005. Ákvæði
5. gr. og 15. gr. a. laganna eru þau
sem til helstrar skoðunar koma og hafa
lénadeilur sérstaklega verið taldar eiga
undir 2. ml. 15. gr. a., sem hljóðar svo:
„enn fremur er sérhverjum bannað að
nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á
þann hátt að leitt geti til þess að villst
verði á því og öðru einkenni sem annað
fyrirtæki notar með fullum rétti.“ Af
framkvæmd má ráða að sóknaraðila
að máli fyrir neytendastofu sé mikil-
vægast að sanna að hann hafi átt rétt
til þess merkis sem léni svipar til áður
en lénið var skráð, að merkið hafi ríka
aðgreiningareiginleika og að aðilar
málsins beini vöru eða þjónustu að
einhverju leyti að sama markhópi.
Í þriðja lagi má fá leyst úr deilum
af þessu tagi fyrir almennum dóm-
stólum, en þar koma helst til skoðunar
lög um vörumerki nr. 45/1997, einkum
hin almenna meginregla um vöru-
merkjavernd sem fram kemur í 1. mgr. 4.
gr. laganna. Í reglunni felst að öðrum en
eiganda vörumerkis er óheimilt að nota
í atvinnustarfsemi tákn sem eru eins eða
lík merkinu, að því gefnu að notkunin
taki til eins eða svipaðrar vöru og
vörumerkjarétturinn nær til og að hætt
sé við ruglingi. getur rétthafi léns því
eigi brotið gegn vörumerkjarétti annars
aðila nema að þeim grunnskilyrðum
uppfylltum að hann noti lénið í
atvinnustarfsemi og að notkunin taki til
eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu og
vöru merkjarétturinn verndar.
að lokum
Þótt á mismunandi reglur reyni eftir
úrlausnaraðilum gilda í öllum tilvikum
tvö grundvallarsjónarmið. Hið fyrra er
meginreglan um prior tempore, potior
jure, eða fyrstur kemur, fyrstur fær,
sem almennt er viðurkennt að gildi um
lénaskráningar. Að auki er skráning
og notkun léns er ákveðið form
tjáningar og nýtur sem slíkt verndar
tjáningarfrelsisákvæða. Þegar rétthafi
er sviptur rétti sínum til skráningar
léns er gerð undantekning frá prior
tempore meginreglunni og rétthafinn
um leið skertur frelsi sínu til tjáningar.
Því þurfa veigamikil rök að styðja slíka
niðurstöðu. Ber þeim, sem úrskurða
í deilumálum um lén, að hafa þetta
hugfast.
af deilum um lén