Glóðafeykir - 01.09.1976, Page 50
50
GLÓÐAFEYKIR
Þetta sögðu þeir
Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup (í nýjársprédikun):
„Til voru þeir sem töldu það gagnstætt skynsamlegum rökum, að
neitt jarðneskt gæti vaxið endalaust, hagvöxtur meðtalinn. Nú er
það vitað, að þessi þáttur hagsögunnar er að lokum kominn, hvernig
sem lyktir hans verða. Þær lindir, sem ausið hefur verið af, þrjóta í
fyrirsjáanlegri framtíð. Auk þess er það nú bersýnilegt, að iðnþróun-
in er glæfralegt hættuspil, forsjárlaus misþyrming á frumlægustu
náttúrlegum lífsskilyrðum“.
Halldór Laxness:
„Þegar ég fer að rýna í þennan einfalda texta líður um hug mér
og hjarta blær af heimi sem einu sinni var, og reyndar lángt frá
því að vera góður, þó hann væri á margan hátt betri en okkar heim-
ur núna; en á þessari liðnu tíð kom hlýtt hjartalag, grandvör fram-
koma og virðing fyrir náúnganum í staðinn fyrir réttlæti úr tölvu;
þar var sú fegurð í mannlegri sambúð sem ekki verður lifað án
þrátt fyrir allt og allt og allt.“
Jóna Vigfúsdóttir:
„Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að gleyma því illa, en geta
velt hamingjustundunum eins og perlum í lófa mínum. Það er líka
það bezta, sem nokkrum manni getur hlotnazt.“
Dr. Sigurður Nordal:
„Menning framtíðar vorrar verður að rísa á traustum grundvelli
fortíðar. Draumar vorir mega vera að því skapi djarfari sem minnið
er margspakara og trúrra.“
Jón Helgason ritstjóri:
„En þó að við séum fá og smá, þá er upphaf allra mannbóta í hug
og hjarta okkar sjálfra."