Málfregnir - 01.10.1988, Page 19
departementet (Jnr. 1188/70 N.)) og
mæltist hún mjög illa fyrir vegna bönnuöu
nafnanna. Danir gáfu hins vegar út lista
með nöfnum, sem kirkjumálaráðuneytið
og nafnastofnun Kaupmannahafnarhá-
skóla höfðu komið sér saman um 1. júlí
1981, og er af honum góð reynsla.
Grænlendingar eiga lista yfir leyfð nöfn
frá 1. janúar 1986 (Cirkulære nr. 1/86 af
1. januar 1986 fra vicebiskoppen om
Fortegnelse over godkendte grönlandske
fornavne).
í annarri og þriðju grein laganna er
fjallað um ættarnöfn. Engar opinberar
tölur eru um fjölda ættarnafna nú, en
ljóst er að þeim hefur haldið áfram að
fjölga, og ekkert hefur verið fylgst með
því að afkomendur þeirra sem höfðu
takmarkað leyfi kenndu sig við föður
samkvæmt lögum. Vitað er að stjórnar-
ráðið veitti leyfi fyrir rúmlega 200 nýjum
ættarnöfnum á árunum frá 1915 til 1925,
og árið 1955 var áætlað að ættarnöfn
væru um 1100 (Alþingistíðindi 1955 A,
bls. 438).
Tilraunir til endurskoðunar laganna
Þrjár tilraunir hafa verið gerðar til þess
að endurskoða nafnalögin frá 1925. Árið
1955 fól dóms- og menntamálaráðherra
þeim Alexander Jóhannessyni prófessor,
Jónatan Hallvarðssyni hæstaréttardóm-
ara, Porsteini Þorsteinssyni, fyrrverandi
hagstofustjóra, og Þórði Eyjólfssyni
hæstaréttardómara að endurskoða lögin
um mannanöfn frá 27. júní 1925 og
semja frumvarp til laga um mannanöfn á
íslandi. Nefndin samdi frumvarp það,
sem lagt var fyrir Alþingi sama ár, svo og
rækilega greinargerð (Alþingistíðindi
1955 A, bls. 429-442). Þetta frumvarp
var allmiklu rækilegra en lögin frá 1925.
Helst nýmæli voru að nú skyldu lögleg
ættarnöfn, sem menn þegar bæru, mega
haldast, en óheimilt var eftir sem áður
að taka upp nýtt ættarnafn nema með
leyfi dómsmálaráðuneytis. Tekið var
fram að ættarnöfn skyldu vera íslensk og
eigi mætti heldur gera að ættarnafni
nöfn, sem enda á orðinu son, en um slík
nöfn hafði verið deilt allt frá því um
1913. Voru ákvæðin um ættarnöfn (10,-
20. grein) mun rækilegri en í gildandi
lögum.
Annað nýmæli var að nú skyldi dóms-
málaráðuneytið skipa þriggja manna
nefnd, sem bera átti heitið Mannanafna-
nefnd. í nefndinni skyldu sitja tveir
kennarar heimspekideildar og einn
kennari í lögfræði við Háskóla íslands.
Átti nefnd þessi að taka ákvarðanir um
öll vafaatriði, sem upp kynnu að koma
varðandi mannanöfn.
Ekki voru nefndarmenn sammála í
greinargerð sinni með frumvarpinu, og
Alexander Jóhannesson var einn þeirrar
skoðunar að banna skyldi ættarnöfn og
landsmenn ættu að kenna sig til föður
eins og tíðkast hefði frá upphafi íslands
byggðar.
Dómsmálaráðherra, Bjarni Bene-
diktsson, fylgdi frumvarpinu úr hlaði og
gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar.
Nokkrar umræður urðu á þinginu bæði í
efri deild og neðri, og snerust þær
einkum um ættarnöfnin eins og áður.
Svo fór að því var vísað til menntamála-
nefndar, en ekkert nefndarálit kom
fram, og frumvarpið var ekki tekið aftur
á dagskrá.
Nokkur tími leið þar til frumvarp til
laga var aftur tekið til meðferðar á
Alþingi. Árið 1967 var skipuð nefnd til
þess að semja enn eitt frumvarp til laga
um mannanöfn. í henni áttu nú sæti:
Klemens Tryggvason hagstofustjóri, Ár-
mann Snævarr prófessor, Einar Bjarna-
son prófessor, Halldór Halldórsson pró-
fessor og Matthías Johannessen ritstjóri.
Nefndin skiiaði störfum 1971, og á þingi
sama ár lagði Gylfi Þ. Gíslason frum-
varpið fram. Því var þó ekki fylgt úr
hlaði fyrr en á næsta þingi og þá af
þáverandi menntamálaráðherra, Magn-
úsi Torfa Ólafssyni.
Ljóst er að vel var vandað til þessa
19