Jökull


Jökull - 01.12.1952, Blaðsíða 10

Jökull - 01.12.1952, Blaðsíða 10
SIGURÐUR ÞÓRARINSSON: Tvöfaldar jaðarurðir í Kangerdlugssuak Hinn 25. júní 1950 fékk ég, fyrir yelvilja stjórnar LoftleiSa, tækifæri til að fljúga með flugvél félagsins „Geysi“ inn yfir meginjökul Grænlands allt til aðalbækistöðva leiðangurs P. E. Victors á miðjöklinum, en þar skyldi varpað niður benzíndunkum handa leiðangurs- mönnum. Aðalástæðan til þess, að ég sóttist eftir að komast í þessa ferð, var sú, að mér var kunnugt um, að fljúga ætti inn eftir firðinum Kangerdlugssuak, sem skerst inn í austurströnd Grænlands á 68 gráðu norðlægrar breiddar og er einna lengstur þeirra fjarða, er skerast inn í austurströndina sunnan Scoresbysunds. Beggja vegna fjarðarins rísa fjöll hærri en Oræfajökull. Eru þau mjög sunclurskorin, en hvarvetna ganga jöklar niður á milli þessara fjalla og margir allt í fjörðinn fram. Mestur er jökull sá, er gengur niður í botn fjarðarins sunnanverðan og nefnist hann Kangerdlugssuak-jökull. Komið var nær miðnætti er við flugum inn eftir firðinum, en heiðskírt var, og birta nægði til myndatöku úr flugvélinni. Það, sem ég einkum beindi athygli minni að, voru skriðjöklarnir og jökulgarðar þeir, sem sjá mátti. Auðsætt var, að þarna höfðu jöklar verið allmiklu þykkari og meiri um sig í eina tíð en þeir voru nú, því að víða mátti sjá jökulgarða talsvert framan við núverandi jökulsporða, svo og jaðarurðir í hlíðunum ofan við skriðjökl- ana. Einna reglulegastar voru þessar jaðarurðir meðfram Kangerdlugssuak-jöklinum. Er mynd sú, er hér fylgir, tekin suðaustur yfir þennan jökul, og að því er ég bezt fæ séð af kortum þeim, sem. til eru af þessu svæði, er myndin tekin þar, sem jökullinn skríður fram með fjöll- um þeim, sem liggja austan í Gardiner Plateau. Er hæð skriðjökulsins frá sjávarmáli þarna 500- 600 m. I fjallshlíðinni má greina ofan við jökulinn tvöfalda jaðarurð (I og II á myndinni). Liggja þær austur með hlíðinni austur þangað, sem jökullinn stíflar upp allmikið lón, sem lagt var og snævi hulið, er myndin var tekin, en er autt, þegar á liður sumar. Austan lónsins halda urðirnar áfram austur með jöklinum. Efri mörk efri urðarinnar eru mjög skörp, en ofan hennar er berg hrjúft og ber engin merki þess, að þar hafi jökull gengið yfir, síðan ísöld leið. Skilin milli efri og neðri urðanna eru og mjög glögg, þótt e. t. v. komi þau ekki fram í myndinni prentaðri. Þessar tvöföldu urðir mátti sjá meðfram norðurjaðri jökulsins og meðfram mörgum öðrum jöklum, er til sást á leiðinni inn eftir firðinum. Mér virðist auðsætt, að efri urðin sýni mestu þykkt, sem jökullinn hefur haft eftir hlýviðris- skeiðið á steinöld-bronsöld. Mér virðist einnig næstum öruggt, að þessar urðir geti ekki verið mjög gamlar, því að öll form þeirra eru mjög fersk að sjá. Tel ég, að þær hljóti að hafa mynd- azt á tímabilinu 1600—1900, því tímabili, sem stundum hefur verið nefnt „litla ísöldin". Tvöfalda jökulgarða af svipuðu tagi má sjá á flugmyndum víða meðfram jöklum Norð- austurgrænlands. Ahlmann hefur lýst sllkum görðum framan við Fröya-jökulinn á Clavering ey. Bretinn J. N. Jennings hefur sýnt fram á, að jöklar Beerenbergs á Jan Mayen hafa hörfað tilbaka í tveimur aðallotum. — í ritgerð minni, Present Glacier Shrinkage (1940), benti ég á, að líklegast væri, að eldri jökulgarðarnir á Norðausturgrænlandi og Jan Mayen væru frá því um miðja 18. öld, en yngri garðarnir væru frá því um miðja 19. öld eða frá síðari hluta hennar, enda hafi breytingar jöklanna orðið nokkurn veginn samtímis á öllum jökulsvæð- um kringum norðanvert Atlantshaf, og hafi á þessum svæðum jöklarnir lieildarlega séð náð sinni mestu útbreiðslu eftir ísöld á tímabilinu 1600—1900 og flestir annað hvort um 1750 eða 1850. Mér virðast jaðarurðirnar í Kangerdlugs- suak styðja þessar ályktanir, en fróðlegt væri að athuga þessar urðir nánar. Mætti að öllum líkindum með rannsóknum á gróðri, einkum skófum á urðunum og utan þeirra, komast nær hinu sanna um aldur þeirra. Þessari rannsókn- araðferð hefur ungur sænskur jöklafræðingur, E. Bergström, beitt með góðum árangri við jöklarannsóknir í Norður-Svíþjóð. 8

x

Jökull

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Jökull
https://timarit.is/publication/1155

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.