Jökull


Jökull - 01.12.1952, Blaðsíða 19

Jökull - 01.12.1952, Blaðsíða 19
JÓN EYÞÓRSSON: Þættir út sögu Breiðár Hið forna býli Breiðá á Breiðársandi fór í eyði 1698, og skömmu síðar lagðist jökull yfir bæjarhúsin. Þar bjuggu höfðingjar á Söguöld, og á fyrra helmingi 14. aldar var þar vel efnuð kirkja. Um 50 árum síðar hefur kirkjan misst allt lausafé sitt, og rekafjaran orðin helzti kost- ur jarðarinnar. Enn er þó búið þar i hart nær 250 ár, en við lok þess tímabils er jörðin orðin 6 hdr. kot. Svo hefst ísöld á Breiðá og stendur yfir í önnur 250 ár. Nú eru rústirnar áreiðanlega komnar undan jöklinum, þótt þær séu grafnar djúpt í jökulaur. Orlög þessa býlis eru á margan hátt forvitni- leg. Verður því leitazt við að bregða hér upp nokkrum myndum úr sögu Breiðár eftir gömlum og nýjum heimildum. Landnáma: — Þórður illugi son Eyvindar eiki- króks braut skip sitt á Breiðársandi. Honum gaf Hrollaugur land milli Jökulsár og Kvíár, og bjó hann undir Felli við Breiðá. — Síðan gekk jörð þessi jafnan undir nafninu Fjall, og eyddist hún af jökli í lok 17. aldar. E. O. Sveinsson prófessor álitur, að Fell sé mis- ritun fyrir Fjall í Landnámu, og er það trúlegt. Breiðá er því byggð úr Fjallslandi. Bærinn Fjall hefur efalítið staðið sunnan undir Bæjar- skeri í Breiðamerkurfjalli, en ekki er það við Breiðá. Bærinn Breiðá hefur staðið á dálitlum hávaða, skammt austur eða suðaustur frá Fjalli. Milli bæjanna rann fremur lítil á, Deildará, sem skipti heimalöndum þeirra. Deildará kem- ur enn fram með horninu á Bæjarskeri og renn- ur í Fjallsá, en um langt skeið í mannaminnum rann hún í Breiðá. Deildará hefur átt upptök í Jökuldalnum í Breiðamerkúrfjalli, þar sem jökulstíflaða lónið er nú. Þannig hefur Breiða- merkurmúli eðlilega lent í Breiðárlandi. I Njálu er Breiðár getið tvisvar. Þegar deilt var um kristnitöku á alþingi, bjó á Breiðá Ozur Llróaldsson, frændi Síðu-Halls. En langafar Halls voru þeir Hrollaugur Rögnvaldsson og Þórður illugi, er áttu Breiðárland á landnáms- öld. Næst getur Breiðár í sögulok Njálu, er Flosi fær þeim Kára og Hildigunni þar bólfestu. Dr. Jón Þorkelsson telur víst, að Ozur Hró- aldsson hafi reist kirkju að Breiðá þegar eftir kristnitöku. En engar heimildir eru um Breiðár- kirkju fyrr en árið 1343. Máldagi Mariukirkju á Breiðá í Öræfum, frá árinu 1343, segir svo: Maríukirkja að Breiðá á heimaland allt með fjörum og skógum þeim, sem þar hafa að fornu ' fylgt og þeim sömu mörkum, sem að fornu hafa verið. Hún á og Hólafjöru XII hundruð, er séra Fjölsvinnur gaf. Hún á Helli hinn eystra, Hóla- land, VI, kýr, XXX ásauðar og sex ær, kúgildis- hross, CCC í metfé. Hún á IX hundruð í bókum, messuklæðum, klukkum og kaleik og öllu kirkjuskrúði. Þangað liggja undir tvö bænhús, og takast sex aurar af hvoru. Kirkjan á hálfa Vindásfjöru, og er öll samt hundrað faðma. Þar skal vera prestur og taka hundrað. Henni fylgir IX C fjöru, er liggur fyrir Salthöfða. Kirkjan á fjóra tugi ásauðar og VIII ær. (Fornbréfasafn II, 772). Þetta eru talsverðar eignir. Fjörurnar eru sam- tals um 40 hundruð faðmar (tólfræð) eða um 8,5 km. Fríður peningur, bækur og kirkjugripir eru metnir á 25 hdr. Bænhúsin hafa sennilega verið á Kvískerjum og Fjalli. Hólafjara mun vera fyrir landi Hnappavalla. Salthöfðafjöru á nú Fagurhólsmýri, en Vindássfjara gæti verið Stúfur sá, sem nú er kallaður, 100 faðma fjöru- partur vestan við Salthöfðafjöru. Um þessar mundir á Hnappavallakirkja 30 hesta hríshögg í Breiðárlandi, 18 hrossa haga- göngu í Flólaland og skóg milli Kambskarðs og Vattarár í Kvískerjaland. Arið 1362, tuttugu árum eftir að þessi mál- dagi er settur, verður mikið gos í Öræfajökli. Urðu þá svo mikil landspjöll af jökulhlaupum og vikurfalli, að byggðin eyddist að mestu eða öllu leyti um stundarsakir. Eftir það voru bæ- irnir fluttir í „þorp“ undir fjallshlíðarnar. Breiðamörk hefur efalaust orðið hart úti, senni- lega lagzt í eyði í nokkur ár. Þegar á næsta ári eftir gosið lætur Þórarinn biskup flytja 2 klukk- ur og kross frá Breiðá til Stafafellskirkju í Lóni. Samkvæmt máldaga Maríukirkju á Breiðá, er Michael biskup setti 1387, á kirkjan heimaland allt með gögnum og gæðum með fjörum og skógum þeim, er fylgja og fylgt hafa að fornu og nýju, og hún á Hólafjöru, er séra Fjölsvinn- ur gaf, VII C. Hún á Helli hinn eystri og Hóla- 17

x

Jökull

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Jökull
https://timarit.is/publication/1155

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.