Tölvumál - 01.11.2011, Síða 7

Tölvumál - 01.11.2011, Síða 7
T Ö LV U M Á L | 7 Sólveig Jakobsdóttir, Dósent í fjarkennslufræðum, forstöðumaður Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun (RANNUM). Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Á síðustu árum hafa þjóðlönd, álfur og alþjóðasamtök sett fram stefnu, viðmið og áherslur sem lúta að nauðsynlegri lykilfærni þegna í upplýsinga- og þekkingarsamfélögum nýrrar aldar. Alþjóðasamtökin UNESCO leggja mikla áherslu á að stuðlað verði að hæfni á þessu sviði og hafa nýlega gefið út handbók um upplýsingalæsi (Horton, 2008). Í Norður-Ameríku hafa samtökin Partnership for 21st Century Skills, á vegum bandaríska menntamálaráðuneytisins og leiðandi fyrirtækja, sett fram viðmið þar sem því er lýst á aðgengilegan hátt hvers þurfi að gæta við menntun nemenda á skólaskyldualdri. Öflugt upplýsinga- og miðlalæsi með hvers konar færni í stafrænu umhverfi er þar í lykilhlutverki (Partnership for 21st century skills, 2004-). Evrópusambandið hefur mótað ramma um lykilhæfni (European Framework for Key Competences). Er þar digital competence fjórði af átta lykilþáttum (European Commision - Education & Training, 2007). Evrópulöndin hafa mótað eigin ramma út frá þessum viðmiðum. Á Íslandi er ekki bein áhersla á stafræna hæfni sem sjálfstæðan lykilþátt í nýjum námskrám grunn- og framhaldsskóla en þessi áhersla kemur að nokkru fram í grunnþáttunum læsi (í víðum skilningi) og í sköpun. Aðrir grunnþættir í nýjum íslenskum námskrám eru menntun til sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi og jafnrétti. Þessir þættir endurspegla einnig áherslur UNESCO í menntun (UNESCO, 2008c) en UNESCO hefur unnið ötullega í þessum málum og hefur nýlega gefið út handbækur um stefnumótun og hæfniviðmið á sviði upplýsingatækni fyrir kennara (UNESCO, 2008a, 2008b, 2008c). Þar kemur m.a. fram sú sýn að sjálfbær efnahagsleg þróun þjóða byggi á færni fólks í notkun tækni, hæfni þess til að leysa vandamál og að skapa nýja þekkingu. Hjá menntarannsóknarstofnun OECD (CERI) er staðið að röð rannsókna um nemendur á nýju árþúsundi (New Millennium Learners Project). Ein umfangsmikil rannsókn í því verkefni er alþjóðleg samanburðarrannsókn sem staðið hefur yfir á upplýsingatækni og miðlun í menntun kennara en athyglin beinist mjög að því hvernig hægt sé að efla þessa þætti. Enochsen og Rizzi (2009) tóku saman vegna þess verkefnis yfirlit um rannsóknir frá 2002-2009 á upplýsingatækni í grunnmenntun kennara. Þær komust að þeirri niðurstöðu að upplýsingatækni væri ekki notuð að staðaldri eða kerfisbundið í OECD þátttökulöndunum ellefu. Finna mætti góð dæmi um kennara við kennaramenntunarstofnanir sem nýttu upplýsingatækni í kennslu en slík kennsla næði yfirleitt eingöngu til lítils hluta kennaranema sem nýttu því lítið upplýsingatækni í eigin kennslu. Nýleg OECD rannsókn sem beindist að Norðurlöndunum bendir einnig til að stafrænt námsefni sé vannýtt í kennslu og mikilvægt sé að móta stefnu og aðferðir til að efla stafræna hæfni og/eða upplýsingalæsi (OECD - Centre for Educational Research and Innovation (CERI), 2009, bls. 17). Alþjóðleg rannsókn fyrir nokkrum árum gaf til kynna að aðgengi að tölvum væri mjög gott í íslenskum grunnskólum miðað við aðra evrópska skóla (Empirica, 2006). Þó virtist nýting upplýsingatækni í kennslu og námi eingöngu vera í meðallagi og íslenskir kennarar áhugaminni en kennarar í öðrum Evrópulöndum um nýtingu upplýsingatækni í kennslu (Empirica, 2006). Fyrstu niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á þróun starfshátta í íslenskum grunnskólum benda til að tölvunotkun og nýting upplýsingatækni hafi ekki aukist frá árinu 2005 (Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs, 2010). Það virðist því síður en svo ástæða til að draga úr vægi þessa þáttar í íslenskum skólum og í kennaramenntun. Fjar- og netkennsla á framhaldsskólastigi hefur á hinn bóginn vaxið hröðum skrefum undanfarin ár (tuttugufaldaðist frá 1997 til 2008 – 232 nemar til 4782) þó bakslag hafi komið í þá þróun í kjölfar kreppunnar (Hagstofa Íslands, 2011). Ef litið er til þróunar t.d. í Bandaríkjunum á framhalds- og háskólastigi er líklegt að sífellt meiri kennsla og nám fari fram á netinu, bæði formlegt og óformlegt (Allen og Seaman, 2010; Picciano og Seaman, 2009). Margir líta svo á að um byltingu sé að ræða með nýjum miðlum eins og titill á nýrri bók Curtis J. Bonk (2009) ber með sér: The world is open: How web technology is revolutionizing education. Mikilvægt er að kennaranám taki mið af þessari þróun. Miðað við stöðu í framhaldsskólum er t.d. íhugunarefni að undirbúningur fyrir fjarkennslu virðist takmarkaður í kennaranámi flestra fjarkennara (Sólveig Jakobsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir, 2010). Umræður eru við Menntavísindasvið Háskóla Íslands um að mikilvægt sé að bjóða upp á diplómanám fyrir verðandi fjarkennara. Í því sambandi væri t.d. hægt að byggja á stöðlum alþjóðlegu samtakanna iNacol (The International Association for K-12 Online Learning) um gæði í fjar- og netkennslu (iNACOL, 2009). Nýting upplýsingatækni í kennslu. Símenntun og starfsþróun kennara í og með upplýsingatækni Á Íslandi er ekki bein áhersla á stafræna hæfni sem sjálfstæðan lykilþátt í nýjum námskrám grunn- og framhaldsskóla.

x

Tölvumál

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.