Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 20

Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 20
2 0 | T Ö LV U M Á L Sú þekking sem skapast á hverjum tíma er borin áfram af því tungumáli sem skapar þekkinguna og ríkir í heiminum þegar þekkingin verður til. Þannig er latínan enn þann dag í dag grunnur að tungumáli lögfræðinnar, franska er tungumál póstþjónustu og samgangna og enska er tungumál tölvutækninnar. Nokkur alþjóðleg fræðiorð úr íslensku á sviði jarðfræði segja svolítið um hvar styrkur okkar liggur. Enska hefur smám saman verið að festa sig í sessi sem alheimsmál vísinda og tækni. Góð kunnátta í ensku er núorðið lykill að þátttöku okkar í alþjóðlegu samfélagi tækninnar, vísinda og fræða. Vald einstaklings á þekkingu er eitt, vald samfélags á þekkingu er annað. Þótt við getum tileinkað okkur þekkingu á erlendu máli verður þekkingin ekki hluti af okkur sjálfum og því samfélagi sem við tilheyrum nema hún sé á því tungumáli sem er okkar móðurmál og talað er í samfélaginu. Þess vegna er mikilvægt að við getum talað um tölvutæknina á íslensku en mestu skiptir fyrir allan almenning að notendaviðmótið sé á íslensku. Tæknin lagar sig að tungunum Tölvutæknin var í fyrstu mjög mótuð af uppruna sínum á ensku málsvæði. Fyrstu stafatöflurnar, sem fylgdu almenningstölvum uppúr 1980, rúmuðu ekki nema 128 tákn og til þess að geta prentað íslenska stafi þurfti að gera ýmsar kúnstir sem gátu endað með skelfingu. Ef sjö bita stafataflan hefði verið notuð áfram værum við Íslendingar nú löngu hættir að nenna að skrifa broddstafina á, é, í, ó, ú og ý, og stafina ð, þ, æ og ö. En þróunin var hröð og brátt var stafataflan tvöfölduð í 256 tákn með því að bæta einum bita við. Tölvutæknin breiddist hratt út um heiminn en átta bita kerfið réði ekkert við öll tákn í tungumálum heimsins og allan aragrúa leturgerða. Lausnin var Unicode, kerfi sem átti að uppfylla þær kröfur sem heimsbyggðin gerði til tölvutækninnar: Hugsunin var sú að kerfið átti að vera: • Í fyrsta lagi Universal: Það er ná til allra lifandi tungumála heimsins. • Í öðru lagi Unique: Hvert stafatákn í tungumálum heimsins átti að hafa sitt sérstaka tákn í kerfinu. • Í þriðja lagi Uniform: Öll tákn áttu að hafa sömu ákveðnu stærð í bitum. Í fyrstu útgáfu, í 16 bita kerfi, fjölgaði mögulegum táknum úr 265 í 65.536 tákn. Þar með var gert ráð fyrir öllum táknum í þeim stafrófum sem okkur standa næst í Evrópu og kringum Miðjarðarhafið, og auk þess helstu táknum í kínversku, japönsku, kóreönsku og fleiri tungumálum. Síðan var geta kerfisins stækkuð í 32 bita og frá árinu 2000 er kerfið komið í 64 bita, og ég ætla ekki að reyna að reikna út eða segja hversu mörg tákn geta rúmast þar. Árið 1991 náðu helstu tölvuframleiðendur samkomulagi um að taka Unicode-kerfið upp í búnaði sínum og þá fór smám saman að verða auð- veldara að koma til móts við þarfir einstakra mála og málsvæða. Frá Tungumál og þekking í rafrænum heimi Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og forstöðumaður ritvers Menntavísindasviðs. upphafi fylgdi Unicode-kerfinu sá metnaður að gera öllum tungumálum heimsins jafn hátt undir höfði og koma til móts við óskir einstakra tungumála, stórra og smárra. Hagsmunir íslenskrar tungu voru eins og dropi í haf þeirra flóknu vinnu sem nú fór af stað um heim allan, því heimurinn var búinn að koma sér upp ótal sérlausnum innan 256 stafa kerfisins sem rákust hver á aðra ef fólk þurfti að hafa samskipti eða senda gögn milli landa. • Í fyrsta lagi þurfti að komast að því hvaða tákn væru notuð í tungumálum heimsins. • Í öðru lagi þurfti að finna þeim stað í hinni risavöxnu stafatöflu. • Í þriðja lagi þurfti að ákveða hvernig ætti að gera notendaviðmótið þannig úr garði að venjulegt fólk um allan heim hefði aðgang tákn- kerfinu í samræmi við eðlilegar þarfir í sínum heimshluta. Þetta og ótal margt annað þurfti að gera í sátt og samlyndi allra tölvu- notenda og framleiðenda tölvubúnaðar um heim allan til að kerfið gengi upp. Unicode var fyrst notað hjá Microsoft sem grunnur í NT-stýrikerfinu (New Technology) árið 1993, og var fyrsta 32 bita stýrikerfið frá Microsoft. Og við notendur fórum brátt að sjá breytingarnar í tölvunum okkar, þær fóru í síauknum mæli að taka tillit til ýmissa sérþarfa íslenskunnar og þeirra hefða sem hér hafa skapast í skráningu upplýsinga. Þar sem áður þurfti að sætta sig við enskan rithátt eða sérlausnir varð smátt og smátt eðlilegt að nota íslensku og íslenskar ritvenjur eins við vorum vön. Tölvan fór að laga sig að þörfum okkar en ekki öfugt. Einn góðan veðurdag var unnt að nota íslenska stafi í tölvunni og jafnvel prenta þá út án þess að allt færi í baklás, annan dag mátti afmarka auka stafi með kommu eins og maður hafði lært í skóla, en ekki punkti, og dæmið reiknaðist rétt. Þriðja daginn var unnt að skrifa íslenskar dag setn ingar, og allt í einu var unnt að raða orðum í íslenska stafrófsröð. Núna getum við meira að segja slegið íslenskar gæsalappir án þess að fara einhverjar fjallabaksleiðir eins og til dæmis að búa til flýtilykla eða læra tákn kóðana sérstaklega – og tölvan leiðréttir fyrir okkur ýmsar algengar ásláttarvillur í íslensku, nánast án þess að við verðum vör við, ‚go‘ verður ‚og‘. Öll tungumál eiga sama rétt í heimsþorpinu Þessi litlu skref hafa unnist smám saman vegna þess að úti um allan heim er fólk sem finnst sjálfsagt og eðlilegt að öll tungumál heimsins fái notið jafnréttis í hinu rafræna umhverfi. Því finnst ekki eðlilegt að tungumálin eigi að líða fyrir takmarkanir tækninnar heldur að tæknin eigi að þjóna þörfum tungumálana, og þetta fólk hefur áhuga og metnað til að vinna að þeim málstað. En það er ekki nóg. Ef Íslendingar sjálfir vilja ekki nota íslensku í sínu rafræna umhverfi, ef þeir láta umheiminn ekki einu sinni vita af tilvist sinni og tungumáli sínu, mun heimurinn ekki þröngva okkar eigin tungumáli upp á okkur. Ef við réttum ekki einu sinni upp hönd munum við heldur ekki fá neina athygli.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.