Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 43

Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 43
T Ö LV U M Á L | 4 3 Þrír merkismenn í tölvuheiminum dóu í haust, þeir Steve Jobs, Dennis Ritchie og John McCarthy. Flestir vita hver Steve Jobs var en færri þekkja Ritchie og McCarthy utan tölvugeirans. Ritchie gaf okkur forritunarmálið C með sínum slaufusvigum, en McCarty bjó til LISP (ásamt (öllum (svigunum))). C er fyrirmyndin að Java og C# sem bæði skarta slaufusvigunum enn í dag. Til að læra C þurfti bara eina þunna bók eftir höfundinn. Unix var skrifað í C af sama höfundi, Unix bókin var álíka þunn. Nútíma notendur Java og C# þurfa álíka stóra orðabók bara undir hugtökin í hlutbundinni forritun og Scrum, sem verða fleiri og fleiri. Það er ekkert grín að byrja í bransanum núna. LISP er næstum því jafn gamalt og FORTRAN en er ennþá kennt í háskólum. Grunnhugmynd LISP er svo einföld að sumir segja að McCarthy hafi ekki fundið LISP upp, heldur hafi hann uppgötvað það enda er LISP „Lambda Calculus“ gerður að forritunarmáli. Lýsingin á LISP kæmist fyrir á póstkorti. Margir vona að fallaforritun taki við þegar hlutbundna æðið rennur af fólki. Forritunarmálið F# sem fylgir Visual Studio er skilgetið afkvæmi LISP og margar bestu hugmyndirnar í málum eins og Ruby og Python koma þaðan. Ef tölvur fá fleiri örgjörva gæti fallaforritun orðið eina leiðin fram á við. LISP kennslan er eitt af því sem gefur tölvudeildum háskólanna „vísindastimpilinn“ sem þær vilja svo gjarnan hafa á sér því ekki vilja þær viðurkenna að þær kenni handverk eingöngu. LISP verða nemendur að læra þótt ennþá noti þeir það ekki þegar „raunveruleikinn“ tekur við. Þeir sem þekkja ekki grundvallarhugmyndirnar eru dæmdir til að finna þær upp aftur og aftur í mismunandi myndum. Skólar eiga að kynna nemendur fyrir þessum hugmyndum og koma í veg fyrir að fagbækurnar fyllist af sömu hugtökunum eftir sinn hvorn höfundinn frá sitt hvoru fyrirtækinu. Dennis Ritchie gekk í Harvard. McCarthy útskrifaðist í stærðfræði frá CalTech. Steve Jobs byrjaði eina önn í háskóla en hætti. Hann slysaðist þó til að taka kúrs í leturgerð. Sennilega hefðu tölvurnar hans aldrei haft svona fallegt letur annars. Það að segja „ég var í háskóla“ er eins og að segja „ég bjó í París“, það getur þýtt svo margt. Tókstu inn menninguna á meðan, eða hékkstu í þinni risíbúð og horfðir á sjónvarpið? Ég var oft í vandræðum með að svara hvort ég væri að verða forritari, tölvufræðingur, kerfisfræðingur eða hugbúnaðarverkfræðingur. Þetta eru frekar óskýr hugtök og háskólarnir hafa ekki hjálpað mikið til að skýra þau. Þeir þurfa að hanna vörur til að selja eins og aðrir og taka því nokkur námskeið saman í knippi undir mismunandi nöfnum. Notendaviðmótshönnunarsérfræðingur og gervigreindarleikjafræðingur eru ekki langt undan. Verkaskiptingin var sú að hugbúnaðarverkfræðingar áttu að hanna grindur að stórum hugbúnaðarkerfum eins og arkitektar hönnuðu hús. Síðan áttu forritarar að taka við eins og smiðir og klára frágangsvinnuna. Kerfisfræðingar gátu rekið tölvubúnaðinn, skipt um harða diska og segulbönd á meðan tölvunarfræðingarnir kunnu mikið af „ópraktískum hlutum“ eins og LISP og þýðendahönnun. Þeir vissu ekki nauðsynlega mikið um að ráða og reka starfsfólk eða verkefnastjórnun en það áttu hugbúnaðarverkfræðingarnir að vita best. Þessi verkefnaskipting hefur aldrei heppnast enda eru sum fyrirtæki rekin eins og lögfræðistofur þar sem allir þurfa að kunna eitthvað í öllu á meðan aðrir vinna aldrei í öðru en vefsíðugerð. Háskólinn í Reykjavík svaraði vel kalli tímans því þeir sem lærðu þar vissu ýmislegt um tölvunarfræði en gátu líka unnið í „handverkinu“. Þeir höfðu forritað og skrifað tölvukerfi með félögum sínum, notað flest hugbúnaðarþróunartólin og kunnu samstæðustjórnun. Þeir komu því inn í bransann með fæturna á jörðinni. Ég viðurkenni að sjálfur slapp ég í gegnum tölvunarfræði í mínum skóla án þess að forrita stór kerfi, ég lærði þeim mun meiri stærðfræði og biðraðafræði. (Það er auðveldara að viðurkenna svona lagað þegar ekki þarf að skrifa undir nafni). Það er erfitt að feta meðalveginn í kennslunni því báðir eiginleikarnir eru ómissandi, að kunna handverkið og geta forritað, en þekkja líka vel undirliggjandi hugtökin. Það er tímafrekt að læra forritun, nánast eins og að læra á hljóðfæri eða erlent tungumál. Grundvallarhugmyndirnar eru líka tímafrekar og þá er ekki mikill tími eftir fyrir hjóm eins og að læra á nýjasta „build toolið“ frá fyrirtæki sem verður ekki til eftir tvö ár, eða speki um hópavinnu sem reyndist svo bara vera bóla. Ég vona að háskólarnir beri gæfu til að feta þennan meðalveg svo íslenskir forritarar komi einhverjum verkefnum skammlaust frá sér en finni hjólið ekki heldur upp aftur og aftur. Svo vona ég að skólarnir tveir í Reykjavík api ekki kennsluhættina upp eftir hvorum öðrum. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík eiga að geta verið sinn hvor skólinn með sitt hvorar áherslur og styrki. Annars er betra að sameina þá. Ábyrgðin þarf samt alltaf að vera nemandans að fá eitthvað út úr náminu því kennarar útskrifa alla fyrr eða síðar. Eyður skrifar: Um merkismenn og skólagöngu

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.