Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 21

Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 21
T Ö LV U M Á L | 2 1 Á árunum 1993 til 1994 sat ég í nefnd Evrópska staðlaráðsins sem fjallaði um stafi, tákntegundir og stafrófsröð í hinu nýja rafræna umhverfi sem Unicode hafi skapað. Þetta verkefni var býsna flókið og fólst meðal annars í því að skilgreina hvað væru stofnstafir og hvað væru merktir stafir, stafbrigði eða afbrigði af stofnstaf. Hvaða samræmdar reglur gátu gilt um stafrófsröðina, þegar svo mismunandi tilbrigði voru til af sama stafnum? Gera þurfti greinarmun á mismunandi stafsrófsröð einstakra þjóðtungna og þeirri samevrópsku stafsrófsröð sem ætlunin var að semja um. Hagsmunir Íslands í verkefninu voru fólgnir í því annars vegar að gert væri ráð fyrir íslenskum stöfum og íslenskri stafsrófsröð í tölvukerfum sem ætluð eru Íslendingum, en einnig að íslensku stafirnir, þ og ð fengju réttan sess í samræmdri evrópskri stafrófsröð. Samkomulag var um að leggja einfalda röð 26 stafa í stafrófi enskunnar til grundvallar evrópsku stafrófi en skilgreina afbrigði þeirra sem merkta stafi eða stafbrigði. Allir voru sammála um að stafir með broddi, tvípunkti eða striki í gegnum væru afbrigði af samsvarandi stofnstaf, en hvað átti að gera við æ? Átti að raða því sem tveimur stöfum, a+e, eða sem einum staf, og þá hvar? Á eftir a? Verra var með þ og ð. Um síðir urðum við að fallast á að ð væri eins og d með striki; stúngið d hafði Rasmus Rask kallað þennan staf í íslensku málfræðinni sinni í upphafi 19. aldar. En við gátum ekki fallist á neitt annað en að stafurinn þ yrði 27. og síðasti stafurinn í evrópsku latínustafrófi, á eftir z. Það þurfti mikinn kraft til að sannfæra aðra nefndarmenn um að svo lítið málsvæði sem Ísland gæti átt sérstakan staf, sem fáir þekktu, í röð stofnstafa. Flestir í nefndinni vildu leggja þ að jöfnu við th eða t og höfðu ýmislegt til síns máls í þeim efnum. Þetta endaði með því að við Michael Everson frá Írlandi, mikill stuðningsmaður Íslendinga í þessu máli, tókum saman skýrslu um sögu þornsins í latínustafrófi og röðun þess meðal annarra stafa frá öndverðu til vorra daga. Við röktum sögu latínustafrófsins allt frá dögum Fönikíumanna, skýrðum hvernig Grikkir aðlögðu stafrófið sínu máli og svo Rómverjar latínunni. Við fylgdum sögu latneska stafrófsins til Englands og Norðurlanda til að sýna að hvert tungumál þurfti að laga stafrófið að sínum þörfum, með því að breyta stöfum, fella suma út eða bæta öðrum inn. Við röktum hvernig G varð til sem C með striki, hvernig stafirnir y og z hefðu verið teknir að láni úr grísku og bætt við stafróf latínunnar, hvernig stafirnir j og v höfðu smám saman orðið til sem afbrigði af i og u, og w hefði löngu síðar fest sig í sessi sem eitt tákn fyrir v+u eða u+v. Þorn í latíunstafrófi Stafurinn þorn er í rúnastafrófi Norður-Evrópu á miðöldum og er fyrst tekinn inn í latneskt stafróf í fornensku einhvern tíma á áttundu eða níundu öld. Elstu varðveittu heimildir um röð þorns í ensku stafrófi eru nákvæmlega þúsund ára gamlar, í Byrhtferð‘s Manual, stafrófskveri fyrir presta frá árinu 1011. Íslendingar taka svo þessa tvo stafi, þ og ð, að láni frá Englendingum í upphafi ritaldar á Íslandi. Saga þornsins í ensku ritmáli er dæmisaga um það hvernig erlend áhrif geta leikið tungumál ef ekki er fylgt neinni málstefnu. Stundum hefur verið sagt að tölvubyltingin sé mesta bylting í upplýsinga- tækni frá dögum Gutenbergs. Jóhannes Gutenberg var uppi á 15. öld og er þekktur fyrir að hafa fundið upp prentun með lausum stöfum, sem gerði kleift að prenta bækur í stórum stíl. Hin fræga biblíuútgáfa hans kom út á árunum 1454 til 1455. Á þessum tíma töluðu ekki aðrir en ómenntaðir alþýðumenn ensku en hirðin og aðallinn á Englandi snobbaði fyrir megin- landinu og talaði helst frönsku sín á milli, eða jafnvel latínu. Vegna skorts á læsu og skrifandi fólki í Englandi, sem kunni frönsku, voru skrifarar fluttir inn frá meginlandinu. En þeir þekktu hvorki þ né ð og þá sjaldan þeir þurftu að skrifa ensku notuðu þeir þá stafi sem þeir kunnu og umrituðu þessa sérensku stafi sem th. Prentverk berst til Englands með kaupsýslumanninum William Caxton. Hann sá möguleika hinnar nýju tækni til að fjölfalda og selja afþreyingar- bókmenntir. Hann flytur inn prenttæki og tól frá Hollandi og fer að gefa út bækur með þeim stafaböggli sem kom með tækjunum frá framleiðanda. Í þeim böggli var hvorki þ né ð, né aðrir sérenskir stafir, en Caxton lét sig það engu skipta. Yfirstéttin var orðin afvön því að sjá þ í rituðu máli, það hefur sennilega þótt heldur púkalegt eins og annað sem tilheyrði menningu þessara ómenntuðu eyjarskeggja, og enginn gerði athugasemdir. Áður en menn vissu af var th búið að festa sig í sessi í enskri bókaútgáfu og allir búnir að gleyma þorni og eði. Á Íslandi var prentverk innleitt með svolítið öðrum hætti en sú saga verður ekki sögð nánar hér, heldur aftur vikið til ársins 1994 þegar Íslendingar fengu þornið viðurkennt sem 27. og síðasta stofnstaf í evrópsku latínu- stafrófi á eftir z. Það gerðist á fundi stafanefndar evrópska staðlaráðsins hér í Reykjavík hinn 9. júní 1994 og hefur sá dagur verið haldinn hátíðlegur æ síðan sem alþjóðlegur dagur þornsins (Þorns-day). Í ágúst sama ár var tillagan samþykkt í stafanefnd Alþjóðlega staðlaráðsins. Málstefna er mikilvæg Þessi saga um þornið segir lítið brot af allri þeirri vinnu sem fólk um allan heim hefur lagt af mörkum til að koma á framfæri upplýsingum um tungu- mál sitt með öllum þess sérkennum, furðulegu táknum og sérviskulegu notkun táknanna, og rökstyðja tilveru þess í okkar rafrænu veröld. Hið alþjóðlega rafræna samfélag hefur lagað sig að þessum þörfum tungumála heimsins, fyrst með því að framleiðendur tóku upp Unicode- staðalinn, sem aftur var undirstaða þess að unnt var að halda áfram. Mjög fljótlega eftir 1993 varð miklu auðveldara að koma til móts við sérþarfir tungumálanna í gerð og frágangi allra skjala. Þá þegar var farið að þýða viðmót tölvubúnaðar, bæði stýrikerfi og forrit á helstu tungumál heimsins, til dæmis dönsku, en á þeim tíma gat það haft í för með sér einhvern veikleika eða lús, sem gerði að verkum að við sérstakar aðstæður gátu komið upp villur. Þetta gerðist til dæmis í Windows 98 og 2000. Næstu árin var farið í endurhönnun stýrikerfis og annars hugbúnaðar með það fyrir augum að aðskilja notendaviðmótið og virkni hugbúnaðarins að öðru leyti. Þá varð unnt að þýða notendaviðmótið á hvaða tungumál sem var án þess að það hefði nein áhrif á virknina og um þetta leyti setur Microsoft af stað vinnu við að þýða notendaviðmótið á fjölda tungumála. Fyrirtækið kynnir svo fyrstu þýðingu sína fyrir íslenska notendur árið 2004. Með þeirri tækni sem nú er beitt við þýðingar er unnt að þýða notendaviðmót í flóknum hugbúnaði á við Windows-stýrikerfið og Office-böggulinn á fáeinum vikum og notendur geta á einfaldan hátt valið sér viðmót á sama hátt og þeir geta valið lyklaborð á því tungumáli sem þeir kjósa. Lokaorð Mikilvægur þáttur í því að hafa umráð yfir menntun og þekkingu er að fá þekkinguna á sínu eigin móðurmáli. Með því að geta talað og skrifað á íslensku um þekkingu, tækni, vísindi og fræði, hafa Íslendingar hingað til reynt að tileinka sér þekkingu, ná valdi á þekkingu til þess að geta beitt henni, samfélaginu til hagsbóta. Þegar þekkingin er á erlendu máli verður hún alltaf svolítið framandi, við verðum alltaf gestir í heimi þar sem móðurmálið er annað en okkar eigið, við verðum alltaf í lakari stöðu en þeir sem eiga mál þekkingarinnar að móðurmáli. Nú, þegar skjálífið er farið að taka jafn mikinn tíma og raun ber vitni, er mikilvægt að við missum ekki sjónar á þeim hugmyndum og hugsjónum sem liggja að baki rétti hverrar þjóðar til að nota eigið tungumál í eigin landi. Allt frá fyrstu þýðingu biblíunnar hér á landi á 16. öld hafa Íslendingar þurft að hafa fyrir því að geta notað sitt eigið tungumál um nýja siði og nýja þekkingu. Á öllum öldum hefur verið til fólk í landinu sem taldi að menningarlegt sjálfstæði og sérstaða tungumálsins væri ómaksins virði, og það gat hrifið aðra með sér og dreif í að gefa út bækur, þýða erlend rit og fræða almenning. Þessi lífseiga hugsjón, eða sýn á réttindi þjóðar, hefur gert okkur fært að viðhalda menningu okkar á grundvelli tungumálsins í meira en þúsund ár. Ef við ætlum að taka fullan þátt í öllum þeim framförum sem blasa við í heimi tölvu- og upplýsingatækni er mikilvægt að við gerum okkur heima- komin í þeirri tækniveröld með því að skapa þar íslenskt umhverfi. Tölvutæknin verður að vera aðgengileg og skiljanleg öllum almenningi, ungum og öldnum, svo við finnum að við höfum það vald á þekkingunni sem þarf til að nýta tæknina, okkur og komandi kynslóðum til heilla.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.