Tölvumál - 01.11.2011, Side 13
T Ö LV U M Á L | 1 3
Víkjum sögunni aftur að Meðalmönnum og þeirra stöðu. Það vill svo til að
EC2 myndi greiða úr öllum þeim erfiðleikum sem fyrirtækið stendur frammi
fyrir. Gagnaver Amazon eru víða um heim sem fyrirbyggir gagnamissi og
kemur í veg fyrir að notendur upplifi biðtíma við fyrirspurnum sökum
fjarlægðar til gagnavers. Það er bæði auðvelt og hraðvirkt að bæta við
sýndarvélum ef eftirspurn eftir síðunni vex skyndilega. Ennfremur þar sem
þeir borga aðeins fyrir það sem þeir nota er hægt að láta hámarksgetu
síðunnar (fjölda sýndarvéla) fylgja raunverulegri eftirspurn. Þessi eiginleiki
er kallaður teygjanleiki (elasticity) tölvuskýsins. Þess má geta að hefðu
Meðalmenn notað EC2 frá upphafi hefði þeir aldrei þurft að kaupa tækjasal
og vefþjóna – hjá EC2 borga síður í raun aðeins eftir eigin vinsældum.
Þessi lýsing á EC2 snertir á mörgum helstu eiginleikum tölvuskýja.
Hugmyndin er að geta haft samskipti við einhverja síðu („skýið“) með
einhverju viðmóti en þurfa ekki að hafa áhyggjur af því á hvaða tölvubúnaði
eða netbúnaði hlutirnir eru unnir eða geymdir. Skýjaheitið er dregið af
hinum kunnuglegu gömlu teikningum sem sýna nettengingar milli sím-
kerfa, netbeina og jaðartækja, en þar er Internetið yfirleitt teiknað sem
skýjahnoðri. Skilgreining Evrópusambandsins hljómar á þessa leið: Tölvus-
ký er teygjanlegt, áreiðanlegt keyrsluumhverfi með þjónustu á
samnýttum auðlindum og mælingu notkunar. Með auðlindum er átt við
notkun örgjörva, vinnsluminnis, o.s.frv. Mörg tölvuský nota sýndarumhverfi
(virtualization) og bjóða upp á dreifða hýsingu. Til að flækja málin eru til
þrjár megintegundir tölvuskýja.
Tegundir tölvuskýja
Amazon EC2 og Rackspace.com veita þjónustu á innviðum gagnaveranna,
svonefnt Infrastructure-as-a-Service (IaaS). Allt sem viðkemur netbúnaði,
gagnageymslu, tölvubúnaði og sýndarvélum er í höndum rekstaraðilans, en
leigjandinn sér sjálfur um stýrikerfi, keyrsluumhverfi, gögn og forrit sem
keyra inni í skýinu. Með Platform-as-a-Service (PaaS), eins og til dæmis
Google Apps og Microsoft Azure, sér rekstraraðilinn einnig um stýrikerfin,
keyrsluumhverfið og viðmótið við skýið er því í gegnum forritunarköll. Sá
skilningur sem margir leggja aftur á móti í hugtakið tölvuský er Software-
as-a-Service (SaaS) þar sem rekstraraðilinn sér um alla forritun og
hýsingu. Gmail, vefpóstur Google, og viðskiptatengslafyrirtækið Salesforce.
com eru dæmi um þessa tegund tölvuskýja.
Tölvuský tvinna saman margar spennandi hugmyndir og eru frjór jarðvegur
fyrir rannsóknir og þróun. En væntingar til nýjunga eru iðulega of miklar
fyrstu árin og tölvuský eru þar á tindinum. Þeir lesendur sem ekki þekkja
„Gartner‘s Hype Cycle“ um félagsfræðileg viðbrögð við tækninýjungum
sem er dregin upp hér til hliðar eru eindregið hvattir til að kynna sér við
hverju er að búast. Þrátt fyrir háar væntingar og lof um tölvuský er margt
sem enn þarf að huga betur að.
Viðskiptalega séð eru þrír megingallar á gjöfum Njarðar. Samkvæmni
(compatibility) milli tölvuskýja eru nánast engin og því auðvelt að verða
innlyksa hjá ákveðnum leiguaðila. Þau veita einnig takmarkaða persónu-
vernd og hafa fremur gloppótt öryggi, svo stór fyrirtæki og stofnanir með
viðkvæm gögn ættu ef til vill frekar að hýsa og reka einkaský (private cloud)
til að fyrirbyggja misnotkun. Þetta kann að breytast í framtíðinni vegna
nýlegra uppgötvana í sammóta dulkóðun (homomorphic encryption) því
slík tækni myndi gera rekstraraðilum skýsins kleift að vinna með dulkóðuð
gögn án þess að þurfa að afdulkóða gögnin sjálf eða læra nokkuð um þau.
Slík tækni á þó langa leið á markað. Ennfremur er kolefnislosun af völdum
gagnavera tölvuskýja æði stórtæk, enda orkugjafarnir fyrir rafmagnið sem
knýr gagnaverin oftast kol eða gas. Þarna er tækifæri fyrir Íslendinga: að
hýsa gagnaver fyrir tölvuský sem notar einungis endur nýjanlega orku.
Sprotafyrirtækið Greenqloud stefnir til að mynda inn á þennan markað.
Tölvuskýin eru líka ný af nálinni og luma því á mörgum tæknilegum
vanköntum sem verið er að rannsaka. Það er auðvelt að bæta við sýndar-
vélum þegar álag er mikið (skala út), en lítið er vitað um hvernig hægt sé að
stækka sýndarvélina sjálfa og teygja notkunina lóðrétt (skala upp) ef þörf er
á. Þjónustur innan tölvuskýja glíma einnig við það vandamál að vera með
marga leigjendur (multi-tenancy). Útreikningar og gögn sem tengjast sama
fyrirtæki eða nátengdum fyrirtækjum er stundum haldið of aðskildum (t.d.
hvað varðar sýndarvélar) og vatnið því iðulega sótt yfir lækinn. Á hinn
bóginn aðskilja sumar skýjaþjónustur ekki viðskiptavinina nógu vel (t.d.
notkun biðminnis fyrir gagnagrunna) sem veldur því að þjónustugæðin geta
verið dræm og óútreiknanleg hjá sumum notendum. Annað stórt vandamál
er að tryggja samkvæmni gagna þegar átt er við risastór dreifð kerfi, þar
sem samkvæmni merkir að allir málsaðilar sem nota kerfið sjá atburði
gerast í sömu röð. Sem dæmi um samkvæmni er mikilvægt að fyrirspurn
þín um að amma megi ekki skoða Facebook-myndaalbúmin sé keyrð í
kerfinu áður en þú skellir upp myndum af svaðilförum verslunar manna-
helginnar. Í stórum dreifðum kerfum á borð við Facebook og tölvuský er
fræðilega ekki hægt að tryggja samkvæmni ef ennfremur er krafist að
síðan svari öllum fyrirspurnum og virki þrátt fyrir pakkatap á netinu
(svonefnd CAP-setning Eric Brewers), allt eðlilegar kröfur. Þessi niðurstaða
hefur hrint af stað miklum rannsóknum um hvers konar gagnasöfn sé best
að nota í tölvuskýjum, en enn er langt í land með skýr svör.
Engu að síður er ljóst að Meðalmenn hf. og álíka fyrirtæki myndu bera hag
að því að kynna sér kosti og galla þess að skýjavæða hugbúnað og
vefhýsingu því það getur verið hagkvæmara og öruggara en aðrir kostir í
stöðunni. Kerfisstjórar og vefforritarar ættu ennfremur að kynna sér
tölvuský til að missa ekki af lestinni. Þótt heiti þeirra séu illa skilgreind,
misnotuð og gufukennd, eru þau vissulega komin til að vera.
Greinin er byggð á samnefndum fyrirlestri sem haldinn var á Haustráðstefnu
Skýrr, 9. september 2011.