Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 4

Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 4
4 | T Ö LV U M Á L Myndavélin við nám og kennslu í náttúrufræði Þórunn Þórólfsdóttir, náttúrufræðikennari í Austurbæjarskóla Flestum finnst gaman að taka myndir og má segja að margir unglingar séu á heimavelli á því sviði. Margir kennarar hafa líka séð möguleika í að nýta sér þessa tækni og í þeirra hópi hafa sumir orðið handgengnir myndavélinni sem kennslugagni. Möguleikarnir eru endalausir og ljósmyndatökur virðast höfða til nemenda, ekki síst í hópi unglinga. Stafræna myndavélin fellur undir tölvu- og upplýsingatækni, á hana má líta sem eitt af jaðartækjum einkatölvunnar og með stafrænni tækni hafa komið til sögunnar auknir möguleikar til myndvinnslu. Rannsóknir á notkun myndavéla í kennslu sýna að þær geta stuðlað að betri náttúrufræðikennslu (Miller, 2001). Með því að láta nemendur sjálfa fá linsuna hvetjum við þá til að hugsa á gagnrýninn hátt og vekjum athygli þeirra á viðfangsefnum sem eru þeim nærtæk. Rannsóknir benda jafnframt til að notkunin geti aukið hugtakaskilning þeirra (Webb, 2008). Möguleikar myndavélarinnar Myndavélin sem námsgagn býður upp á marga möguleika í kennslu og í sumum tilvikum væri erfitt eða ómögulegt að ná sama árangri án þeirra. Ákveðnir þættir eiga yfirleitt við þegar þessum möguleikum er beitt og ágætt er að hafa þá í huga (Bull og Bell, 2005). Að safna myndum. Myndavélin gefur tækifæri til að safna upplýsingum á mynd eða kvikmynd. Hægt er að „safna“ lífverum og varðveita sýnishornin og taka upp þráðinn í næstu kennslustund. Að greina myndirnar. Skoðun og greining mynda hjálpar nemendum að þjálfa notkun hugtaka en sjónræn framsetning getur verið mikilvæg í því augnamiði. Hún styður nemandann við að flokka og greina og koma auga á tengsl milli fyrirbæra sem annars væri honum hulin. Að skapa og búa til verkefni. Tæknin býður upp á mikla breidd í framsetningu sem er ekki endilega bundin við útprentun heldur fá nemendur tækifæri til að þroska sköpunargáfu sína við að túlka og setja fram verkefni á fjölbreyttan og skapandi hátt. Mótun verkefna með stafræna framsetningu gefur nemendum endalausa möguleika á að búa til kynningarefni sem hægt væri að koma á framfæri á Netinu. Þannig geta verkefnin fengið hagnýtt gildi og öðlast meiri merkingu og tilgang í augum nemenda. Að ræða hugmyndir til skilnings. Myndir geta verið góð kveikja að umræðum. Með margmiðlunartækni skapast fleiri tækifæri til miðlunar og samskipta, það sem var áður einungis ætlað kennaranum til yfirlesturs er opið öllum samnemendum til að skoða og ræða. Viðhorf og reynsla náttúrufræðikennara í grunnskóla Vorið 2011 var gerð rannsókn sem miðaði að því að skoða hvernig náttúrufræðikennarar í elstu bekkjum grunnskólans nýta sér myndavélarnar og hvaða viðhorf þeir hafa til þess að láta nemendur nota myndavélar í kennslustundum og námsverkefnum (Þórunn Þórólfsdóttir, 2011). Rannsóknin var lokaverkefni greinarhöfundar í meistaranámi, leiðbeinandi var Torfi Hjartarson lektor í kennslufræði og upplýsingatækni við Menntavísindasvið HÍ. Rannsóknin var eigindleg og fólst í viðtölum við sex náttúrufræðikennara á unglingastigi auk vettvangsathugunar þar sem fylgst var með nemendum nota myndavélar við verklega æfingu. Fjórir kennarar voru valdir vegna reynslu þeirra við að nota myndavélar í verkefnum með nemendum en auk þess var rætt við tvo kennara sem hafa gott aðgengi að tölvum og myndavélum án tillits til notkunar. Markmið með rannsókninni var að vekja áhuga náttúrufræðikennara á að nýta sér myndavélina og beina athygli að verkefnum þar sem nemendur taka myndir. Hvernig eru myndavélarnar nýttar? Í viðtölum við kennara í þessari rannsókn kom fram að kennararnir nýttu sér vel þá möguleika sem myndavélin bauð upp á í útinámi og sáu kosti þess að geta „tekið náttúruna“ með sér inn eða „safnað“ viðfangi og skoðað nánar. Þeir töldu að myndavélin ýtti undir að skoða ítarlega og koma auga á eða finna ákveðnar lífverur. Þá voru myndirnar iðulega nýttar sem umræðuvettvangur. Mikið af náttúrufræðinámi felst í því að skilja hugtök og flókin ferli. Kennararnir töldu allir að þar nýttust möguleikar myndavélanna vel. Auk þess styður myndavélin nemendur við að tengja náttúrufræðihugtök við raunveruleg viðfangsefni sem aftur ýtir undir skilning og styður við kennslu og nám. Möguleikar sem myndavélin veitir kennurum og nemendum við að safna, greina og ræða saman virtust vel nýttir en minna fór fyrir stærri verkefnum Með því að láta nemendur sjálfa fá linsuna hvetjum við þá til að hugsa á gagnrýninn hátt og vekjum athygli þeirra á viðfangsefnum sem eru þeim nærtæk.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.