Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 24

Tölvumál - 01.11.2011, Blaðsíða 24
2 4 | T Ö LV U M Á L • Í þeim löndum sem mæðurnar voru jákvæðastar voru dæturnar líka jákvæðari. • Bæði nemendur og fyrirmyndir þeirra telja almennt að tæknigreinar henti karlmönnum betur en konum. • Hvorki stúlkur né fyrirmyndir þeirra töldu störf í upplýsingatækni veita þeim tækifæri til að ferðast, hjálpa öðrum né starfa sjálfstætt. Þegar raunveruleg störf í upplýsingatækni eru skoðuð kemur hins vegar í ljós að mikið misræmi er á milli þeirrar ímyndar sem endurspeglast í síðasta punktinum og þess sem störfin raunverulega bjóða upp á. Þessi rannsókn gefur til kynna að bæði foreldrar og kennarar hafi litla hugmynd um hvað störf í upplýsingatækni fela í sér og má tengja það við minnkandi umræðu og áhuga eins og nefnt var hér að framan. Aðgerðir til að fjölga konum í greininni Til að halda uppi æskilegri þróun á nýtingu upplýsingatækni í hverju landi þarf ákveðið marga menntaða einstaklinga í faginu, eins og kemur fram í ritinu The Business Case for Information Technology and Computing Education sem gefið var út í janúar á þessu ári. Skortur á tæknimenntuðu fólki getur því leitt til minnkandi framleiðniaukningar og verri samkeppnishæfni landa. Út af lágu hlutfalli kvenna í stéttinni virðist einfaldasta leiðin til að fjölga fólki í upplýsingatækni vera að auka hlut kvenna. Ein leið til að ná því takmarki er að auka umræðu um upplýsingatækni sem fagsvið og þar með sýnileika greinarinnar og vekja athygli á þeim spennandi, fjölbreyttu og skemmtilegu störfum sem hún býður upp á. Önnur leið er að draga fram sýnilegri fyrirmyndir fyrir stúlkur og stunda beina markaðssetningu á greininni gagnvart þeim. Í því samhengi má nefna samtökin Girl Geek Dinners sem hafa það markmið að búa til tengslanet kvenna í upplýsingatækni. Hér á landi nefnast þessi samtök Artic Girl Geek Dinners eða Tæknitátur og fyrir áhugasama má finna þær á Facebook. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið ráðist til atlögu að skorti kvenna í upplýsingatækni og var fyrsti “Stúlkur í UT”- dagurinn (e. Girls in ICT Day) haldinn 28. apríl síðastliðinn. Markmiðið er að draga fleiri stúlkur að greininni sem að sögn Hamadoun Touré, framkvæmdastjóra ITU (International Telecommunications Union), býður upp á frábær atvinnutækifæri og góð laun. Dagur þessi er afleiðing af samþykkt sem gerð var á forstöðumannaráðstefnu ITU í Mexíkó í fyrra en ITU hét því að halda á lofti jafnræði kynjanna og stuðla að styrkingu kvenna í greininni með því að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í öllum sínum verkefnum og áætlunum. Í kjölfar þessa fundar voru alþjóðleg samtök kvenna í upplýsingatækni (Global Network of Women in ICT) stofnuð, en þau eiga að hjálpa ríkjum að laða stúlkur og ungar konur að greininni með því að hafa sýnilegar sterkar fyrirmyndir og bjóða upp á leiðsögn (e. mentoring) fyrir stúlkur þegar kemur að vali á framtíðarfagi. Verkefni þessara stofnana stuðla þó ekki eingöngu að því að bæta stöðu upplýsingatæknigeirans heldur líka að almennu jafnrétti og auknum tækifærum fyrir konur um allan heim til að láta að sér kveða í grein sem er klárlega vaxandi þáttur í allri framþróun og sköpun velferðar. Vonandi tekst einnig að auka veg og vanda upplýsingatækninnar hér á landi með aukinni umfjöllun og fjölgun nemenda, og jafnframt að auka hlut kvenna í greininni. Enda veitir ekki af því að efla þær greinar sem eru líklegastar til að skapa framtíðarhagvöxt fyrir landið okkar. Heimildir: sjá sky.is Svo virðist sem minnkandi umræða um mikilvægi upplýsingatækninnar hafi að einhverju leyti orðið til þess að draga úr áhuga nemenda á að sækja nám í greininni, því eftirspurn eftir menntuðu fólki á þessu sviði er svo sannarlega til staðar.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.