Tölvumál - 01.10.2013, Side 2
riTSTjórnarpiSTill
Ásrún Matthíasdóttir, ritstjóri Tölvumála
ágæTi leSandi
Nú er 38. árgangur af Tölvumálum kominn á prent. Þemað í ár er hagnýting
tölvutækninnar í sem víðasta skilningi og eins og við var að búast fengum við margar
góðar greinar. Tölvutæknina má nýta á fjölbreyttan hátt og endurspegla greinarnar það,
enda fjalla þær um nýtingu tækninnar á ýmsum sviðum, s.s. við mannauðsstjórnun, í
viðskiptum, fyrir blinda, í máltækni, í kennslu, í sjúkraskrám og við umönnun aldraðra.
Hagnýting tölvutækninnar hefur verið mikil á mörgum sviðum undanfarin ár, s.s. í
fræðslustörfum og viðskiptum, en gæti verið öflugri og hraðari. Að innleiða breytingar er
flókið ferli og á margan hátt tímafrekt. Það krefst framtíðarsýnar, skuldbindinga og
metnaðar. Breytingar þurfa að hafa skýran tilgang sem skilningur er á og viðurkennt að
þeirra sé þörf og þær séu skynsamlegar. Oft felur innleiðing á nýrri tækni í sér breytingar
sem mæta andstöðu, enda ganga breytingar almennt ekki vel nema meirihluti þeirra
sem að þeim koma hafi trú á að þær skipti máli. Því þarf góðan undirbúning og gott
kynningarstarf, samvinnu og stuðning, þegar innleiða á nýjungar sem breyta eiga
vinnubrögðum og jafnvel umhverfi fólks.
Tæknin er næstum því allsstaðar og kannski erum við hætt að hugsa um að við séum
að nýta okkur hana, hún er orðin svo sjálfsagður hluti af lífi okkar, bæði við leik og störf.
En við þurfum engu að síður að fylgjast vel með nýjungum og stuðla að nýjungum og
endurbótum hjá fyrirtækjum og stofnunum. Hagnýting tækninnar er ferli sem getur haft
úrslitaáhrif á lífshorfur margra fyrirtækja og stofnana í dag ekki síst þar sem tækniframfarir
eru hraðar og jafnvel áhrifamiklar. Of margar sögur eru til af fyrirtækjum þar sem viðskipti
hafa misheppnast vegna vanhæfni þeirra til að viðhalda samkeppnisstöðu í nýtingu
tækninnar. Mörg slík mistök mætti forðast með því að undirbúa starfsmenn og
vinnuumhverfi þeirra til að takast á við nýtingu og miðlun tækninnar.
En hvernig þróast tæknin? Nýjar hugmyndir sem hafa langtímaáhrif geta komið úr
ýmsum áttum og á ýmsum tímum en það getur verið erfitt að finna þær. Þær eru
viðkvæmar, jafnvel erfiðar og tímafrekar í þróun og því auðvelt að afskrifa hugmyndir sem
í raun geta leitt af sér nýsköpun og nýjar lausnir. En mestu máli skiptir að hlúð sé að
nýjum lausnum og þannig stuðlað að framþróun og fjölbreytni í á sem flestum sviðum
atvinnulífsins.
Fagtímarit um upplýsingatækni.
Tölvumál hafa verið gefin út frá
árinu 1976 af Ský.
prentvinnsla
Litlaprent ehf.
ritstjóri og ábyrgðarmaður:
Ásrún Matthíasdóttir
aðrir í ritstjórn:
Ágúst Valgeirsson
Júlía Pálmadóttir Sighvats
Jón Harry Óskarsson
Þorfinnur Skúlason
Ingibjörg Ósk Jónsdóttir
Skýrslutæknifélag íslands,
Ský, er félag einstaklinga,
fyrirtækja og stofnana á sviði
upplýsingatækni.
framkvæmdastjóri Ský:
Arnheiður Guðmundsdóttir
Stjórn Ský:
Sigrún Gunnarsdóttir, formaður
Ragnheiður Magnúsdóttir
Guðjón Karl Arnarson
Hjörtur Grétarsson
Guðmundur Arnar Þórðarson
Sigurður Friðrik Pétursson
Ólafur Tr. Þorsteinsson
Þorvarður Kári Ólafsson
aðsetur:
Engjateigi 9
105 Reykjavík
Sími: 553 2460
www.sky.is
sky@sky.is
Óheimilt er að afrita á nokkurn
hátt efni blaðsins að hluta eða
í heild nema með leyfi viðkomandi
greinahöfunda og ritstjórnar.
Blaðið er gefið út í 1.500 eintökum.
Áskrift er innifalin í félagsaðild að Ský.
2