Tölvumál - 01.10.2013, Qupperneq 13
13
Á þeim stutta tíma sem Facebook hópar skólafólks hafa verið starfræktir
hafa fjölmörg dæmi um samráð, samstarf og efnismiðlun, sýnt fram á
gagnsemi þeirra fyrir skólaþróun í landinu. Með réttu má telja þennan
nýja vettvang til hluta af möguleikum kennara til símenntunar og
starfsþróunar sem fram fer óháð tíma og stað. Vettvangurinn rýfur því
einangrun og jafnar möguleika og aðgengi kennara á öllu landinu að
fræðslu, efni og starfssamfélagi jafninga. Samfélagsmiðlar eiga drjúgan
þátt í að styrkja starfssamfélag Sérkennslutorgsins. Tengslamyndun við
þátttakendur í hópum og á síðum sem tengjast viðfangsefnum
Sérkennslutorgsins styrkir starfsamfélagið og hefur hingað til reynst afar
gagnlegt. Má þá sérstaklega nefna hópa og síður sem tengjast
spjaldtölvum í sérkennslu
um SpjaldTölVur í SérkennSlu
Á síðustu misserum hefur sala á spjaldtölvum aukist og er svo komið að
fleiri spjaldtölvur eru seldar á heimsvísu en hefðbundnar einkatölvur. Þó
spjaldtölvur teljist enn ekki sem almennur búnaður í skólastarfi hafa þó
nokkur áhugaverð þróunarverkefni verið unnin í skólum hér á landi.
Þessi verkefni eru mikilvæg sem fyrirmyndir fyrir væntanlega og aukna
spjaldtölvunotkun í skólastarfi. Reynslan sýnir að spjaldtölvur hafa
fjölþætt gildi í sérkennslu og margvíslega notkunarmöguleika.
fyrSTa SpjaldTölVan í SafamýrarSkóla
Um áramót 2010-2011 fékk Safamýrarskóli, sem þá var og hét, gefins
Ipad frá Sunnusjóði. Ákveðinn nemendahópur Safamýrarskóla var á
þeim tíma með miklar sérþarfir. Þeir voru með fjölfötlun og margir með
alvarlega þroskahömlun. Það var því hreint stórkostlegt að fá að vera
vitni að og upplifa fyrstu skiptin sem þessir nemendur fengu tækið í
hendurnar. Spjaldtölvan er næm á snertingu svo ekki þarf mikið til að fá
viðbrögð. Þó svo að hreyfifærni sé afar takmörkuð þarf ekki nema örlitla
snertingu og nemendur geta sjálfir kallað fram hljóð, mynstur, liti og
fleira á skjáinn. Þeir eru himinlifandi yfir því að geta haft áhrif á umhverfi
sitt. Stærð spjaldtölvunnar gerir það að verkum að hægt er að leggja
hana í fang eða stilla fyrir framan nemanda svo að hann getur unnið
sjálfstætt. Sum smáforritin sem gagnlegt er að nota með hópi nemenda
með mikið skerta skynjun hafa einnig titring. Þegar skjárinn er snertur
koma hljóð, mynstur og titringur. Það gerir upplifunina enn áhrifaríkari.
Andlitin ljóma og nemendur finna að þeir geta gert alveg sjálfir, án
hjálpartækja og án stuðnings frá kennara eða aðstoðarmanneskju.
Á þessum árum sem liðin eru síðan að fyrsta spjaldtölvan kom í
Safamýrarskóla eru komnar fjórar nýjar uppfærslur af Ipad og hann er
sífellt að verða þróaðri með margvíslegum möguleikum á notkun. Má
segja að með tilkomu myndavélarinnar í spjaldtölvunni hafi skapast
mörg skemmtileg tækifæri til að vinna með námsefni og tengja myndir
af nemendum og þeirra nærumhverfi við verkefni sem þeir vinna í
smáforritum spjaldtölvunnar. Hljóðupptaka er einnig gríðarlega mikilvæg
og kemur sér vel í málörvun því nemendum finnst oft áhugavert að
hlusta á sjálfa sig og virkar það hvetjandi fyrir nemendur sem annars eru
ekki duglegir að nota málið.
Til eru mörg góð smáforrit til boðskipta í spjaldtölvum og nemendur
sem eru með skertan málþroska og tjá sig með myndum geta með
hjálp spjaldtölvunnar náð að tjá sig á markvissari hátt en áður. Ef
nemendur hafa færni til er hægt að færa boðskiptaforritið yfir í Ipod eða
Iphone sem er mun minni fyrirferðar en á engan hátt síðri sem
boðskiptatæki.
Hingað til hefur framleiðsla gagnlegra smáforrita í sérkennslu verið mun
meiri í Ipad en Android spjaldtölvum. Því hefur hefur Ipad reynst
gagnlegra og fjölbreyttara kennslutæki fram að þessu. Stýrikerfi
Ipadsins er einnig sérlega þægilegt og viðmótið aðgengilegt. Þess má
einnig geta að Apple er með ákveðið gæðaeftirlit og til að koma
smáforriti á markað þarf það fyrst að vera samþykkt af Apple sem setur
það inn í Appstore.
Enn er ekki hægt að nota íslenska talgervla í Ipad en það er hins vegar
hægt í Android spjaldtölvum og talgervlarnir virka sérlega vel í Windows
spjaldtölvum. Vonir standa til þess að Apple fyrirtækið samþykki
stuðning við íslensku talgervlana svo að hægt verði að nota þá í Ipad
líka enda eykur það gildi þessara aðgengilegu og útbreiddu spjaldtölvu
til muna.
SmáforriT og aðlögun þeirra að
íSlenSku
Öflug framleiðsla smáforrita gerir það að verkum að mikilvægt er að
fylgjast vel með nýútkomnum smáforritum og skoða hvort þau henti í
sérkennslu. Við hér á Íslandi erum sífellt að leita að smáforritum sem
hægt er að laga að íslensku tungumáli. Nefna má framleiðendur sem
gefa út smáforrit með miklum möguleikum á aðlögun en það eru til
dæmis Alligator og Grasshoppers.
Í dag er spjaldtölvan að verða æ algengari í kennslustofunni. Nemendur
eru einnig í auknum mæli að eignast sínar eigin spjaldtölvur. Góðar
spjaldtölvur eru dýrar og vitanlega ekki á færi allra foreldra að kaupa slík
tæki fyrir börnin sín. Því er svo farið að ef spjaldtölvuvæða á skóla, þarf
að skera niður af öðrum útgjaldaliðum. Enn sem komið er eru ekki veittir
sérstakir fjárstyrkir til spjaldtölvukaupa og því er það algerlega undir
stjórn skólans komið hver áherslan er hverju sinni og hvort keyptar eru
spjaldtölvur fyrir nemendur.
Það er engum vafa undirorpið að allir nemendur með sérþarfir geta nýtt
sér spjaldtölvu. Þeir nýta hana á mismunandi hátt og einn helsti kostur
spjaldtölvunnar er einmitt fjölbreytt framboð kennsluefnis og því hægt
að finna efni sem hæfir getu hvers og eins. Spjaldtölvan er mikilvæg
viðbót í námi barna með sérþarfir og án efa verður hún innan fárra ára
jafn mikilvæg í skólastarfinu og blýantur og blað.
Reynsla af fyrsta starfsári Sérkennslutorgsins, upplifun af virkni og
samstarfi kennara í samfélagsmiðlum og sú áhugaverða virkni sem á
sér stað í tengslum við notkun spjaldtölva í skólastarfi er hvetjandi fyrir
kennara sem leggja sig fram í störfum sínum á 21. öldinni. Það er ekki
síst áhugasömum kennurum að þakka að Sérkennslutorgið er til og vilja
þeirra til að deila með sér efni og hugmyndum. Öll þessi gerjun eykur trú
á að símenntun og starfsþróun kennara muni stuðla að skólaþróun sem
þörf er á nú á tímum margvíslegra breytinga sem bæði eru krefjandi en
um leið áhugaverðar og spennandi að takast á við.