Iðjuþjálfinn - 01.11.2007, Blaðsíða 10

Iðjuþjálfinn - 01.11.2007, Blaðsíða 10
10 • IÐJUÞJÁLFINN 2 / 2007 Hvernig er að vera nýútskrifaður iðju­ þjálfi og takast á við að móta nýtt starf? Hvernig er að vera iðjuþjálfi og vinna úti í samfélaginu? Hvað skiptir máli þegar tekist er á við ný verkefni? Eru einhver tækifæri í kringum okkur sem við verðum að grípa? Þetta eru nokkrar spurningar sem að mínu mati er mikil­ vægt að velta fyrir sér til að hægt sé að þróast áfram í lífi og starfi. Mig langar að gefa ykkur nokkra innsýn í þau verkefni sem ég þarf að takast á við í því hlutverki að starfa sem iðjuþjálfi úti í samfélaginu. Einnig langar mig að varpa fram nokkrum hugleiðingum sem flog ið hafa í gegnum hug minn í því hlut verki. Þó nokkrir iðjuþjálfar hafa tekið þátt í að móta og þróa ný störf og held ég að í flestum tilvikum hafi það gengið vel, en það er krefjandi. Þegar ég var í námi í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri hvarflaði að mér að snúa aftur heim á Blönduós að námi loknu en oft hugsaði ég líka að það væri bara draumur sem ekki gæti orðið að veruleika eða yrði frekar að veruleika síðar á starfsferli mínum. Rétt áður en ég útskrifaðist, vorið 2005, fékk ég það frábæra tækifæri upp í hendurnar að snúa aftur á mínar heimaslóðir og starfa þar sem iðjuþjálfi. Í mínum huga var þetta einstakt tæki­ færi og enginn vafi var á að á þessu svæði vildi ég starfa og nýta krafta mína til að efla samfélagið sem heild og ein­ staklinga þess. Því greip ég tæki færið! Ég hóf störf hjá Félagsþjónustu Austur­ Húnavatnssýslu sem deildar­ stjóri í dagvist fyrir fatlaða og sem ráðgjafi í málefnum fatlaðra, en þessi störf eru fjölbreytt og enginn dagur eins. Störfin fela t.d. í sér að vera með ráðgjöf inni í skólakerfinu, bæði leik­ og grunnskóla, sjá um að fatlaðir fái þá þjónustu sem þeim ber, rekstur og starfsmannahald, og að halda utan um ýmis úrræði sem tengjast fötluðum, t.d. liðveislu, stuðningsfjölskyldur og atvinnu tengd úrræði, þjálfun, teymis­ vinnu og dagvistarúrræði. Þessi störf eru ekki eyrnamerkt iðjuþjálfum og hefði verið auðvelt að láta það stoppa sig. Ég fékk verðugt verkefni sem fól meðal annars í sér að móta störfin út frá hugmyndafræði iðjuþjálfa. Í dag er enn töluvert í land en samt upplifi ég að ég njóti meiri viðurkenningar en þegar ég byrjaði og einstaklingar sam félagsins eru hægt og rólega að átta sig á hvað iðjuþjálfi gerir. Að vera fædd og uppalin á svæðinu hjálpaði mér mikið og gaf mér ákveðið forskot því ég þekki margt og marga í samfélaginu. Stuttu eftir að ég byrjaði að takast á við þessi störf fann ég að auðvelt var að láta deigan síga og gefast upp. Kröfurnar voru miklar og væntingarnar ekki minni, en auðvitað bjó ég þær til sjálf að hluta til. Sem betur fer var ég með­ vituð um þetta og ákvað strax að mikil­ vægt væri, þar sem ég er eini iðjuþjálfinn á stóru svæði, að mynda góð tengsl við aðra iðjuþjálfa og annað fagfólk í þess­ um geira. Mér finnst mikilvægt að minna sjálfa mig á að ég þarf ekki alltaf að finna upp hjólið, þá yrði ég fljót að brenna út. Stuðningur frá öðrum iðju­ þjálfum er mjög nauðsynlegur og því kostur hvað iðjuþjálfar standa þétt saman og eru tilbúnir að aðstoða hver annan. Oft hefur verið rætt um hvað kerfið er flókið fyrir fatlaða einstaklinga og hve margar hindranir eru á vegi þeirra þegar þeir leita réttar síns. Eftir að hafa unnið á vegum félagsþjónustunnar og hafa verið í því hlutverki að styðja skjól­ stæðinga í gegnum kerfið er ég enn meðvitaðri um hvað kerfið er þung­ lama legt og það getur verið erfitt að horfa upp á það. Það gefur auga leið að þetta bitnar mest á þeim sem þurfa á þjónustunni að halda. Mér finnst samt að ekki megi líta fram hjá því að það bitnar líka á þeim sem veita þjónustuna. Ég hef upplifað að hendur mínar eru oft bundnar. Margir rammar eru til staðar og eftir þeim á að starfa. En þá spyr ég, fyrir hverja er kerfið eiginlega gert ef það er bæði óhentugt fyrir þá sem nýta sér þjónustuna og þá sem veita hana? Oft og tíðum passa ramm arnir ekki einu sinni saman og jafnvel vinna ómeðvitað hver á móti öðrum, hvernig er þá hægt að starfa í þessu kerfi? Ég vil samt taka fram að auðvitað þurfa þessir rammar að vera til staðar að einhverju leyti svo starfsfólk viti til hvers sé ætlast af þeim og svo að þjón ustan verði markviss. En ég tel að ramm arnir, eins og þeir eru í dag, dragi frekar úr gæðum þjónustunnar og nýtingu á fagfólki. En hvaða leið á að fara til að breyta þessum römmum? Í dag veit ég það ekki nákvæmlega en ég veit að það verður barátta. Ég sem iðjuþjálfi og starfsmaður í þessu kerfi tel mig knúna til að leggja mitt af mörk um til að breyta þessu. Verkefni mín sem iðjuþjálfi á þessu svæði eru fjölbreytt og krefjandi en jafnframt mjög skemmtileg, eflandi og spennandi. Ég hef komið auga á aukin sóknarfæri iðjuþjálfa hér á svæðinu og nú þarf að stíga skrefi lengra og sýna og sanna að iðjuþjálfar eigi heima á þeim stöðum með hagsmuni íbúa samfélags­ ins að leiðarljósi. Tækifærin eru fyrir hendi og nú er það í okkar valdi að nýta þau til að efla okkur sem einstaklinga og sem fagstétt. Ég hef lært á þessum stutta tíma hér sem iðjuþjálfi að það að vera með opinn huga og jákvæða hugsun kemur okkur enn lengra í starfi sem og einkalífi. Því vil ég hvetja alla þá iðjuþjálfa og iðjuþjálfanema sem eiga sér draum um ákveðin störf eða verkefni að láta ekki deigan síga heldur takast á við það, grípa þau tækifæri sem gefast, trúa á sjálfan sig og leita eftir aðstoð til annarra. Að vera iðjuþjálfi og þurfa að sýna sig og sanna ■ Helga Kristín Gestsdóttir Fyrrum ráðgjafi í málefnum fatlaðra og deildarstjóri í dagvist fyrir fatlaða. Starfar nú hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.