Skólavarðan - 01.08.2005, Qupperneq 6

Skólavarðan - 01.08.2005, Qupperneq 6
6 SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 5. ÁRG. 2005 sögn kennara og - gjarnan - foreldra eða annarra aðstandenda. Keppnishlutinn lýtur svo að því að leyfa þeim hæfileikum sem ræktaðir hafa verið að blómstra. Í SU er lögð áhersla á að upplestur sé listgrein. Því viðhorfi fylgir að enginn verður meistari í henni nema að æfa sig og undirbúa flutninginn vel - boðorð keppninnar er að aldrei skuli lesið upp án undirbúnings. Á hinn bóginn er litið svo á að allir geti lesið ef þeir fá að æfa sig. Með þessu lærist hinum ungu lesurum að bera virðingu fyrir verkefninu og þeir fara smátt og smátt að skilja í hverju góður lestur er fólginn. Hann felst ekki í því að lesa hratt, ekki heldur í því að vera með fettur og brettur, hann snýst ekki fyrst og fremst um lesarann sjálfan heldur um textann sem á að flytja. Það er textinn og eigindir hans sem segja fyrir um flutn- inginn - og kjarni listarinnar liggur í því að fá textann til að lifna við. Til þess að svo megi verða þarf tækni lesarans auðvitað að vera í lagi. Hann þarf að hafa skýran og eðlilegan framburð og nægilegan raddstyrk til þess að mál hans heyrist; radd- beitingin byggist svo aftur á réttri öndun og góðri líkamsstöðu. Þegar búið er að sjá fyrir þessum hlutum kemur túlkunin til og þar skiptir tvennt mestu: skilningur á text- anum (lestur verður aldrei sannfærandi ef lesari er ekki viss um hvaða skilning á að leggja í orðin) og blæbrigði í lestri sem endurspegla þennan skilning. Það mætti reyndar bæta þriðja atriðinu við: einlægni. Einlægni í túlkun ræður einatt úrslitum um það hvort textinn nær til áheyrenda. Alla þessa þætti þarf að leggja rækt við í undirbúningnum, á ræktunarskeiði upplestrarkeppninnar. Þegar kemur að keppnishlutanum bætast við ný atriði sem huga þarf að og þau snúa ekki bara að lesurunum. Í SU hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að lokakeppnin í hverju héraði væri jafnframt hátíð; hún er listvið- burður. Í samræmi við það er lokahátíðinni valinn staður í fallegum sal sem gjarnan er skreyttur, t.d. með blómum, send eru út boðskort og kappkostað að skapa hátíð- lega umgjörð um upplesturinn. Lesararnir æfa sig í að ganga inn á svið og út af því aftur, standa rétt við púlt og/eða hljóð- nema, kynna sig og koma á augnsambandi við áheyrendur. Og þeir þurfa að takast á við taugaóstyrk, raddsveiflur og skjálfandi hné. Á áheyrendum hvílir aftur á móti sú skylda að sýna þessum listamönnum virð- ingu með því að hafa hljótt og hlusta af athygli. Í áheyrendahópnum eru yfirleitt margir krakkar á sama aldri og lesararnir. Þessir krakkar hafa tekið þátt í keppninni en ekki náð að komast í hóp lesara á loka- hátíð. Þau hafa samt uppskorið ríkulega því þau hafa líka æft lestur, hugsað um túlkun og síðast en ekki síst heyrt mismunandi lestur. Þau skilja nú betur í hverju góður upplestur felst og þau hafa forsendur til þess að móta sér sinn eigin smekk í þeim efnum. Þau geta því gert upp á milli lesar- anna á lokahátíðinni fyrir sinn hatt. Þau eru orðin kunnáttufólk um upplestur og virkir hlustendur. Þetta skiptir miklu máli að mínum dómi. Það er margt í samfélagi okkar og menningu sem þrengir að þeirri kúnst að kunna að hlusta. Mörg erum við umkringd stöðugum hávaða, tónlist, tal- máli - því sem stundum er nefnt síbylja. Ekki er ætlast til að fólk bregðist við slíku áreiti með hlustun, hljóðin eru miklu fremur eins konar veggfóður í eyrun. En þau tvístra athyglinni. Ég hef reynt það í framsagnarkennslu á háskólastigi hversu erfitt getur verið að fá fullorðið fólk til þess að slökkva á símum, loka tölvum og beina allri athygli sinni að því að hlusta á samnemanda sem er að æfa sig að lesa upp. Vera má að nautnin af því að hlusta á fallegan flutning móðurmálsins sé að týnast. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að börnunum í þessu tilliti; lítil börn njóta þess að lesið sé fyrir þau en börn eiga líka að fá að njóta þess eftir að þau stækka og eru sjálf orðin læs. Og það á að leiðbeina þeim í upplestri svo þau læri að njóta þess að lesa fyrir aðra. Þarna hafa kennarar, for- eldrar og aðrir máttarstólpar SU þakklátt verk að vinna. Þær eru orðnar margar sigursögurnar úr Stóru upplestrarkeppninni; mér verður ekki síst hugsað til barna sem komu í keppnina eftir að hafa glímt alla sína skólatíð við lestrarörðugleika eða þrúg- andi feimni en undirbjuggu sig af svo mikilli alúð að frammistaða þeirra fleytti þeim í verðlaunasæti. Slíkur sigur hefur afgerandi þýðingu fyrir sjálfstraust barn- anna. Það hefur líka verið gleðilegt að fylgjast með því að talsvert er um það að verðlaunahafar úr SU séu fengnir til að lesa upp á samkomum og skemmtunum í sínum sveitarfélögum og vonandi hefur keppnin orðið til þess að meira er lesið upp á heimilum. Stóru upplestarkeppn- inni var hrundið af stað veturinn 1996-97 og fyrstu árgangar þátttakenda eru því væntanlega komnir út í atvinnulífið eða í háskólanám. Það mætti segja mér að víðs vegar um þjóðfélagið færu nú að heyrast orðaskipti í þessum dúr: „Hvað! Þú hafðir bara ekkert fyrir því að taka á móti þessum erlendu þinggestum - ertu vön að halda ræður eða hvað?" „Nei, en ég tók einu sinni þátt í Stóru upplestrarkeppninni...“ Svanhildur Óskarsdóttir Höfundur er fræðimaður á Stofnun Árna Magnússonar og situr í stjórn Radda - sam- taka um vandaðan upplestur og framsögn. Vera má að nautnin af því að hlusta á fallegan f lutning móður- málsins sé að týnast. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að börn- unum í þessu tilliti; lítil börn njóta þess að lesið sé fyrir þau en börn eiga líka að fá að njóta þess eftir að þau stækka og eru sjálf orðin læs. Sigurvegarar og aðrir þátttakendur í Stóru upplestrarkeppninni 2005.

x

Skólavarðan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.