Skólavarðan - 01.10.2005, Blaðsíða 19

Skólavarðan - 01.10.2005, Blaðsíða 19
19 SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 5. ÁRG. 2005 Þann 14. september var hinn nýstofn- aði Náttúruskóli Reykjavíkur kynntur reykvískum skólamönnum úr leik – og grunnskólum. Aðstandendur skólans eru Skógræktarfélag Reykjavíkur, Land- vernd, Umhverfissvið Reykjavíkur og Menntasvið Reykjavíkur.Skólavarðan tók hús á Helenu Óladóttur verkefnis- stjóra á Umhverfissviði Reykjavíkur og umsjónarmanni skólans og Herdísi Friðriksdóttur sem er verkefnastjóri hjá Skógrækt Reykjavíkur. Fundurinn fór fram á köldum haustdegi en í ægifögru umhverfi: Við Elliðavatn í Heiðmörk en þar hefur Skógræktin aðsetur. Helena er grunnskólakennari, landvörður og umhverfisfræðingur að mennt og Herdís er skógfræðingur. Helena vinnur um þessar mundir að því að móta vetrarstarf skólans og ekki er skortur á hugmyndum. Eitt af vetrarverkefnunum er að vinna með Skógræktinni í Heiðmörk og þar kemur Herdís til sögunnar.” Ætlunin er að kennarar sjái um kennslu en fái ráðgjöf og hugmyndir frá skólanum ásamt með því að geta nýtt sér svæði Skógræktarinnar í Heiðmörk til margvíslegrar fræðslu. Við Elliðavatn og til hliðar við aðalhúsið er bygging sem Benedikt Sveinsson faðir Einars Benediktssonar lét hlaða, og hlóð reyndar sjálfur að hluta. Þetta hús er Skógrækt Reykjavíkur að gera upp og hyggst meðal annars nota til fræðslufunda með leik-og grunnskólanemendum. „Náttúruskóli Reykjavíkur er ekki hýstur hjá menntasviði heldur umhverfissviði, sem hefur ekki áður staðið fyrir fræðsluverkefni með þessum hætti,“ segir Helena. „Þetta er nýjung sem við erum mjög spennt fyrir að takast á við. Okkar markmið er að ná saman því fólki sem er að vinna að verkefnum í útikennslu og umhverfismennt og styðja það í starfi, meðal annars við að vinna í anda aðalnámskrár og umhverfisstefnu og koma þessum verkefnum áleiðis til skólanna. Einnig að aðstoða kennara við þátttöku og kynna hvernig verkefnin geti nýst í skólastarfi.“ Í stefnumótun um starfsemi skólans segir að hann skuli vera miðstöð þekkingar um útinám, umhverfismennt og náttúrufræðikennslu. Markmið eru að efla útikennslu og skapa vettvang fyrir heilsteypt umhverfisstarf í grunn- og leikskólum í anda umhverfisstefnu borgarinnar. Með lengingu skólaársins hafa skapast nýjar aðstæður í skólum til útikennslu og þörf fyrir tengt námsefni hefur aukist. Samhliða hefur áhugi kennara vaxið á samþættingu umhverfismenntar við aðrar námsgreinar leik- og grunnskóla. „Margir hafa lýst vilja til að starfa með skólanum,“ segir Helena. „Fræðimenn, fyrirtæki og stofnanir. Ég tek þá að mér að vera tengiliður og aðstoða við að fullmóta hugmyndir þeirra. Skólar geta svo haft samband og beðið til að mynda um hugmyndir tengdar kennslu um spendýr í 4. og 5. bekk. Þá er það mitt hlutverk að benda á aðila, staði og tilbúin verkefni.“ Herdís og Helena leggja áherslu á að möguleikar í útikennslu séu mjög fjölbreyttir í landslagi Reykjavíkur. „Ég sé þetta fyrir mér á tvennan hátt,“ segir Helena. „Annars vegar að nýta opnu svæðin í Reykjavík, þar eru frábærir möguleikar. Hér er til dæmis auðvelt að koma upp aðstöðu til að taka á móti krökkum. Vatnið, skógurinn, melarnir, hraunið. Hér er allt. Annars staðar má nefna Fossvoginn, Ægissíðuna, Laugarnesið, grasagarðinn og Laugardalinn. Þarna væri upplagt að búa til staðbundna fræðslu. Í öðru lagi megum við ekki gleyma að náttúran er alls staðar. Við erum manneskjur og höfum umbreytt náttúrunni en umferðareyja er líka náttúra! Hinn flöturinn er því óstaðbundin verkefni, að kennarar fari út úr húsi og nýti sé nánasta umhverfi. Förum út og lærum Pýþagóras. Hoppum og þjálfum mynstur. Eitt og annað í þeim dúr.“ „Strætó númer 25 stoppar í Norð- lingaholti,“ bætir Herdís við. „Þaðan er um hálftíma ganga hingað til okkar. Á leiðinni þarf að komast yfir á og við erum að hugsa um að smíða pramma til að flytja krakkana yfir. Heldurðu ekki að þeim þyki það skemmtilegt?“ spyr hún og hlær. Það er augljóst að Náttúruskólinn mun ekki líða fyrir skort á drifkrafti þeirra sem standa að honum. „Þetta er ekki hugsað sem hús, heldur hugmynd,“ segir Helena að lokum. „Hugmynd sem vex og dafnar í fjölbreyttu samstarfi.“ keg Ekki hús heldur hugmynd Náttúruskólinn kynntur til sögunnar • Náttúruskólinn veitir aðstoð og ráðgjöf við skipulagningu og aðlögun útináms að þörfum skóla. • Náttúruskólinn tengir saman aðila sem standa að útikennslu og fræðslu á vettvangi. • Náttúruskólinn aðstoðar við framsetningu fræðsluefnis og kemur fræslutilboðum á framfæri við skólana. • Náttúruskólinn býður upp á dagskrá sem kennurum og nemendum stendur til boða. ÚTIKENNSLA Herdís Helena Í hlöðu Benedikts

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.