Skólavarðan - 01.10.2005, Blaðsíða 25

Skólavarðan - 01.10.2005, Blaðsíða 25
25 SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 5. ÁRG. 2005 umhugsunar um mikilvægi þess að vísa á einn eða annan hátt til fjölbreytilegs samfélags. Ímyndir Afríku á Íslandi Í rannsókninni Ímyndir Afríku á Íslandi gerði ég tölfræðilega greiningu með hjálp gátlista á námsefni grunnskóla frá elsta námsefni sem ég fann til ársins 2000. Ég skipti greiningunni jafnframt niður í tímabil til þess að fá betri tilfinningu fyrir breytingum sem orðið höfðu í áherslu námsbókanna. Kostir og gallar fylgja slíkri nálgun sem ég mun ekki tíunda hér enda hef ég fjallað um þá annars staðar (Kristín Loftsdóttir, 2005). Niðurstöður voru í stuttu máli þær að bækurnar leggja almennt áherslu á Afríku sem rými „öðruvísi“ fólks og lífshátta sem eru gjarnan dregnir upp af Vesturlandabúum sem andstæður nútímans. Langflestar bækurnar leggja litla áherslu á sögu álfunnar sem eykur enn frekar á samsömun hennar við óbreytt, hefðbundið líf. Margar bókanna vísuðu jafnframt til kynþáttar, litarháttar eða notuðu einhvers konar litarheiti. Hér er ekki verið að tala um að allar bækurnar feli í sér niðrandi umfjöllun um fólk með dökkan húðlit eða sem var talið af öðrum kynþætti heldur að stór hluti umfjöllunar um Afríku felur jafnframt í sér einhverskonar tilvísun eða notkun á slíkum orðum (sjá nánar um niðurstöður í Kristín Loftsdóttir, 2005). Fjölmenningarlegt samfélag Á síðastliðnum árum hefur umfjöllun um Íslendinga af erlendum uppruna og fjölmenningu verið nokkuð áberandi hér á landi. Samhliða hefur mátt greina aukna vakningu um mikilvægi þess að líta á aðra minnihlutahópa, svo sem fatlaða, sem eðlilegan hluta af samfélaginu. Femínistar hafa nú um langa hríð bent á ójafnvægi umfjöllunar um konur og mikilvægi jafnréttis kynjanna en í Bandaríkjunum átti slík barátta sér stað samhliða baráttu dökkra Bandaríkjamanna fyrir auknum mannréttindum. Því má segja að áhersla á fjölmenningu og mikilvægi þess að endurspegla margbreytileika samfélagsins sé samstiga áherslu á aðra hópa sem hafa lengi verið á jaðri íslensks samfélags á einn eða annan hátt. Bókaflokkurinn Listin að lesa og skrifa vakti athygli mína vegna myndskreytinga nokkurra bókanna. Hér er um að ræða litlar og mjög léttar lestrarbækur sem virðast æfa lestur ákveðinna orða og eru ríkulega myndskreyttar (mynd á hverri síðu). Tvær bókanna sem ég skoðaði voru gefnar út fyrir árið 2002 (þær voru ekki inni í tölfræðilegri greiningu vegna þess að hún náði ekki til lestrarbóka), bókin Í Baði var fyrst gefin út árið 1998 og Mús í móa árið 1996 en báðar hafa verið endurútgefnar síðan þá. Bækurnar segja frá hversdagslegum viðburðum í lífi nokkurra barna. Tvær af fjórum aðalsöguhetjunum í fyrri bókinni eru dökkar á hörund með slétt hár og ætla má að höfundur mynda hafi hugsað sér þær upprunnar í Indlandi eða Pakistan. Foreldrar barnanna eru ljósir á hörund. Í seinni bókinni er eitt barnið í nokkuð stórum barnahópi haft með skásett augu og svart slétt hár. Í bókunum Á Róló (2002) og Í sól (2002) má einnig sjá börn með nokkuð dökkan húðlit að leik með öðrum ljósari börnum og í síðari bókinni er barnið hluti af fimm manna fjölskyldu þar sem öll eru ljósari á hörund en barnið. Það sem mér finnst ánægjulegt við allar þessar bækur er að hvergi í textanum er minnst á að börnin eigi sér einhvern annan uppruna en íslenskan eða að þau séu „öðruvísi“ á litinn. Með því er ég ekki að halda fram að á það megi aldrei minnast, en það þarf að íhuga vel í hvaða samhengi og af hvaða ástæðu. Með slíku samspili mynda og texta eru börnin eðlilegur og sjálfsagður hluti af íslensku samhengi sem þau eru auðvitað. Jafnframt leggja myndirnar áherslu á margbreytileika íslenskra fjölskyldna. Afríka Bókin Dýr í Afríku er þemahefti í stærðfræði og var gefin út árið 2002. Benda má á að rannsóknir á skólabókum annars staðar, til dæmis rannsókn Mai Palmberg (2000) á sænskum skólabókum, hafa sýnt að umfjöllun um Afríku hefur haft tilhneigingu til að leggja mikla áherslu á villt dýralíf álfunnar, sem getur skapað ákveðna staðalmynd. Umfjöllun um dýr í sjálfu sér á þó vissulega fullan rétt á sér. Það sem gerir þessa bók sérlega skemmtilega að mínu mati er að hér er um að ræða stærðfræðibók sem sett er fram á einstaklega lifandi og skemmtilegan hátt með því að tengja stærðfræðiþrautir við líf dýranna. Verkefnin eru sniðug og hugmyndarík og kenna í bland stærðfræði, notkun hennar og margvísleg atriði um dýrin. Það eina sem má gagnrýna við bókina, og er nokkuð óheppilegt, er að einu myndirnar tvær sem sýna fólk eru af hvítu fólki sem vissulega býr í Afríku en birtir kannski ekki alveg réttu myndina af fjölbreytileika álfunnar. Bókin Er til lím í Afríku? var þýdd og staðfærð árið 2003 en hún var upphaflega gefin út í Svíþjóð árið 1992. Hér er um mjög ólíka umfjöllun um Afríku að ræða frá eldri bókum um álfuna. Bókin dregur skýrt og lifandi fram fjölbreytileika álfunnar, flóknar pólitískar ástæður nútímavandamála, sögu fyrir nýlendutímann, arfleifð nýlendutímans og daglegt líf fólks. Hver kafli er svar við ákveðinni spurningu sem sett er fram sem kaflaheiti en oft er um einfaldar spurningar að ræða, svo sem „Borðar fólk graut?“ og „Eru skólar í Afríku?“ Textinn er lifandi og skemmtilegur aflestrar þar sem höfundur kemur á framfæri miklu magni upplýsinga á mjög læsilegan hátt ásamt því að bregða upp mynd af fjölbreyttu lífi álfunnar án þess að reyna sérstaklega að draga fram að fólk í Afríku sé framandi. Einnig er áhugavert að fólkið er látið tala fyrir sig sjálft í textanum en ekki eingöngu höfundur textans sem skoðar það utan frá og talar fyrir það. Margir einstaklingar koma því fram í bókinni og ólíkt líf fólks á mismunandi stöðum í Afríku. Höfundur textans segir sjálfur í inngangi bókarinnar „Bókin dregur skýrt og lifandi fram fjölbreytileika álfunnar, flóknar pólitískar ástæður nútímavandamála, sögu fyrir nýlendutímann, arfleifð nýlendutímans og daglegt líf fólks.“ SAMFÉLAGIÐ

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.