Skólavarðan - 01.10.2005, Blaðsíða 20
20
NÝ BÓK
SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 5. ÁRG. 2005
Þessi steinprentaða litmynd af Arkímedesi
skreytti vindlakassa á árunum 1895-1915,
en á þeim tíma lögðu tóbaksframleiðendur
mikla áherslu á fallegar myndskreytingar.
Í bakgrunninum má sjá trissu, eina af
uppfinningum Arkímedesar. Ennfremur má
sjá rómverska hermenn, gráa fyrir járnum,
fara herskildi um götur Sýrakúsu, heimabæ
Arkímedesar.
Arkímedes og Hypatía
öðru sinni á meðal vor
Jón Þorvarðarson kennir stærðfræði í
Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hann
skrifar líka bækur um stærðfræði og
stærðfræðitengd efni. Námsbækur Jóns
hafa í stærðfræði hafa verið notaðar um
árabil og ekkert lát á vinsældum en nú
siglir hann á önnur mið, þó skyld séu.
Fimmtudaginn 13. október kom út nýjasta
bók Jóns en hana hefur hann verið með
í smíðum í fjögur ár og leitað fanga víða
um lönd. Árin sem bókin var í smíðum las
Jón um 500 bækur tengdar efni hennar og
í heimildalista vísar hann í um 300 þeirra.
„Mig óraði ekki fyrir hversu gríðarleg
vinna þetta væri!“ segir Jón og brosir.
Bókin heitir Og ég skal hreyfa jörðina
og fjallar um forngrísku stærðfræðingana
og áhrif þeirra. Jón hannar sjálfur bókina
og gefur út og skemmst er frá að segja
að þarna er á ferðinni veglegt og fallegt
rit sem ætla má að vekji áhuga margra,
jafnt leikra sem lærðra. „Ég hugsa bókina
ekki sérstaklega sem námsbók“, segir Jón,
„en hún hentar hins vegar vel til kennslu
í sögu stærðfræðinnar og hugmyndasögu
og einnig sem ítarefni fyrir áhugasama
stærðfræðinemendur eða aðra sem vilja
til að mynda skrifa ritgerð um skylt efni.
Ég tel að þetta sé bók sem höfðar til
allra þeirra sem hafa áhuga á heimspeki,
sagnfræði, stærðfræði og talnapælingum
eða einhverjum þessara mála.“
Eins og gull af eiri
Titill bókarinnar vekur forvitni og Jón varð
með glöðu geði við þeirri bón að útskýra
tilurð hans. Skýringin er sem hér segir:
„Þegar bókin var langt á veg komin
hitti ég kunningja minn sem starfar að
markaðsmálum. Hann spurði mig hvað
bókin ætti að heita og ég svaraði stoltur í
bragði: Saga stærðfræðinnar. „Ég skil…þú
ætlar semsé ekki að selja bókina.“ Hann
sagði að þessi titill væri vitavonlaus, ég
yrði að finna eitthvað frumlegra. Gott ef
hann sagði ekki að titillinn yrði að vera
meira sexí, hvað svo sem hann meinti með
því. Næstu vikurnar braut ég heilann um
þetta í gríð og erg og að endingu hlaut
titillinn Og ég skal hreyfa jörðina flest
atkvæði meðal fjölskyldu minnar og vina.
Titillinn vísar til þess að eftir að
Arkímedes hafði uppgötvað lögmál
vogarstangarinnar - þess afls sem getur
hreyft hvaða þunga sem er - þá sagði
hann í mikilli sigurvímu: „Færið mér stað
að standa á og ég skal hreyfa jörðina.“
Þótt þessi skrautlega fullyrðing kunni
að bera vitni um mikilmennskubrjálæði, þá
lýsir hún miklu frekar hugarástandi manns
sem er í sigurvímu eftir að hafa unnið
glæsilegan vísindalegan sigur. Einnig má
minna á að Kópernikus var sannfærður
um að geta hreyft jörðina úr stað, en í
stað vogarstangar skyldi beita vopnum
stærðfræðinnar. Leónardó da Vinci
hafði raunar áður óskað eftir lið-veislu
stærðfræðinga í þessum efnum og beðið
þá um að tendra ljós í myrkrum villunnar.
Kópernikus svaraði ákalli hans og setti allt
á annan endann þegar hann „hjó þessa
jörð af feyskinni rót og henti sem litlum
steini út í myrkur og tóm“ eins og segir
í kvæði Hannesar Péturssonar Kóperníkus.
Nýleg laglína Bubba Morthens: „Og jörðin
hún snýst um sólina, alveg eins og ég“,
gæti hæglega verið lögð Kópernikusi í
munn. Titill bókarinnar hefur því mjög
víðtæka skírskotun, því öldum saman
reyndu menn að hreyfa jörðina úr stað
en varð ekkert ágengt fyrr en Kópernikus
steig fram úr rökkri miðalda og umturnaði
öllum hugmyndum manna um alheiminn.
Ég er mjög stoltur af því að tengja titil
bókarinnar við Arkímedes því vart mun
meiri ljómi stafa af nafni nokkurs annars
stærðfræðings. Óumdeilt er að hann bar
af öllum stærðfræðingum fornaldar eins
og gull af eiri. Ekki einasta var hann snjall
stærðfræðingur, heldur einnig svo vel að
sér í aflfræði, að sumir vilja kalla hann
föður verkfræðinnar. Þegar Rómverjar
hugðust hertaka heimabæ hans þá
féll það í skaut Arkímedesar að styrkja
vörn borgarbúa með stríðsvélum, svo
ógurlegum, að þrautþjálfaður her róm-
verska keisaradæmisins varð að hopa af
hólmi.“
Konan frá Alexandríu
Dálæti Jóns á Arkímedesi leynir sér ekki
en bókin lýsir upp sögur fleiri og í sumum
tilfellum lítt þekktari stærðfræðinga sem
er ekki síður fróðlegt að kynnast. Hypatía
frá Alexandríu fæddist á fjórðu öld
eftir Krist og Jón nefnir hana sem fyrsta
kvenstærðfræðinginn. „Þetta er í fyrsta
sinn sem við heyrum um konu sem leiddi
vísindarannsóknir en það gerði Hypatía
sannanlega.“ Jón rekur sögu þessarar
greindu og töfrandi konu í bókinni og þar
segir meðal annars af því þegar hún veifaði
notuðu dömubindi framan í nemanda
sinn til að kenna honuim tiltekna lexíu.
Til að heyra söguna í heild verða lesendur
Skólavörðunnar að nálgast bókina en það
þarf svo sem ekki gulrætur til að laða fólk
að þessari bók, jafnskemmtileg og eiguleg
og hún er.
keg
Jólabókin í ár
Jón Þorvarðarson
Ljósmynd frá höfundi